Nýtt leiðakerfi strætó kynnt

sva-nyttNýtt leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar verður tekið í notkun fimmtudagsmorguninn 22. september. Kerfið var unnið með það að leiðarljósi að þjóna markvisst sem flestum íbúum bæjarins og auka þannig notkun strætisvagna. Akstur í grennd við Háskólann á Akureyri og íþróttamannvirki í bænum er aukinn verulega og þjónusta við grunn- og framhaldsskóla er jafnvel enn betri en verið hefur. Sömuleiðis verður leiðin greiðari að Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Sérstakur kynningarfundur um nýja leiðakerfið verður haldinn í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi miðvikudaginn 21. september kl. 17 þar sem farið verður yfir þær breytingar sem standa fyrir dyrum og markmið breytinganna kynnt.

Leiðakerfið er byggt á fjórum vögnum sem keyra sex mismunandi leiðir. Tvær leiðanna eru hringleiðir sem tengja alla bæjarhluta í sitthvora áttina. Hinar fjórar leiðirnar tengja norður- og suðurhluta bæjarins með viðkomu í miðbæ.

Auk þessara leiða er skólavagn sem gengur þá daga sem kennsla er í MA og VMA.

Í raun eru að mestu leyti sömu götur eknar og verið hefur en þó verður nú hætt að keyra um neðsta hluta Þingvallastrætis og Grófargilið (Listagil) en meiri áhersla lögð á tengingar bæjarhluta um Þórunnarstræti og Dalsbraut.

Yfirlit yfir nýtt leiðakerfi SVA