Fordómar og fjölmiðlar

Eymundur L. Eymundsson

Eymundur L. Eymundsson

Eymundur L. Eymundsson skrifar.

Hvernig hafa fordómar orðið til gagnvart geðsjúkdómum? Hvað getum við gert til að sameinast um að minnka fordóma? Það virðist vera að unga fólkið sé fordómaminna en við fullorðnu. Gæti verið að fólk myndi sér skoðanir án þess að vita hvað er að vera með geðsjúkdóm?  Það geta nefnilega allir veikst og þá getur verið gott að vita af stuðningi og hvert getur verið hægt að leita. Eigin fordómar geta hamlað miklum lífsgæðum.

„Ég hélt að fólk sem væri geðveikt væri eins og maður sér í bandarískum bíómyndum, lokað inni og helst í spennitreyju. Það voru eiginlega einu skiptin sem ég sá fólk með geðraskanir.“ Það er þessi vanþekking sem þarf að uppræta með fræðslu og góðri umfjöllun.,,Við sem erum með þessa sjúkdóma erum nefnilega bara manneskjur og erum alls staðar í samfélaginu.“

Hef ekki séð þann mann sem vill vera veikur.Þetta eru sjúkdómar sem hægt er að vinna með og mikilvægt að eiga von. Einstaklingar geta öðlast bætt lífsgæði með að taka skrefið. Aðstandendur og vinir skipta jafnmiklu máli eins þegar um líkamleg veikindi er að ræða.Með því að takast á við sjálfan sig getur það breytt hugsunarhætti sem elur á kvíða, reiði, og óhóflegri sektarkennd. Ekki hafa áhyggjur af hvað öðrum finnst hvort sem þú glímir við geðsjúkdóm eða ert aðstandandi. Hvað mynduð þið gera ef þetta væri líkamlegt? Ekki fresta þegar hjálpin getur verið handan við hornið.Vertu þinn besti vinur.

Ef fólk hefur ekki efni á sálfræðingi eru úrræði eins og Grófin geðverndarmiðstöð, Lautin, Virk,heilsugæslan,prestar, geðdeild og búsetudeild til staðar á Akureyri. Einnig er hægt að hringja í 1717 sem er hjálparsími Rauða krossins. Lesa sér til og kynna sér m.a. batasögur og batamyndbönd.

Hvernig geta fjölmiðlar hjálpað meira til? Fjölmiðlar geta skrifað og sýnt meira það góða sem er verið að gera. Á Akureyri eru ýmis úrræði sem eru að gera góða hluti. Það er nefnilega ekki allt neikvætt. Stuðningur frá fjölmiðlum getur breytt miklu að gera þetta að fordómaminna samfélagi og hjálpað fólki að leita sér aðstoðar..

Aðstandendur og allir áhugasamir velkomnir

Miðvikudagskvöldið 30. mars kl 20:00 mun Elín Ebba Ásmundsdóttir framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs og dósent við heilbrigðisvísindadeild í iðjuþjálfunarfræðum við Háskólann á Akureyri halda erindi í Grófinni. Elín Ebba hefur fóstrað, með beinum stuðningi og leiðsögn, ýmsar nýjungar sem hlotið hafa athygli, lof og viðurkenningar. Má þar nefna forvarnarverkefnið Geðrækt en tvær hugmyndanna þar komu úr hennar smiðju; „Geðorðin tíu“ og „Geðræktarkassinn“. Hugarafl, baráttufélag geðsjúkra fyrir breyttum áherslum og fjölbreyttara vali meðferðar og ný aðferðafræði í notendarannsóknum „Notandi spyr notanda NsN“ – þar sem notendur framkvæma gæðaeftirlit á geðheilbrigðisþjónustu og gera tillögur um úrbætur. Áhugamál hennar eru geðheilbrigðismál og bætt líðan almennings og hefur hún miklu að miðla um þessi hugarefni sín.

Grófin geðverndarmiðstöð, Hafnarstræti 95, 4. hæð (gengið inn hjá Apótekaranum)

Opnunartími er alla virka daga frá 10.00-16.00. Sími: 462-3400

Netfang: grofin@outlook.com

Eymundur L. Eymundsson ráðgjafi og félagsliðanemi