Nettó opnar í Hrísalundi

NettoNý Nettó verslun í Hrísalundi verður opnuð  í febrúar nk. þar sem áður var rekin Samkaup Úrval búð. Einnig verður Ellos sérvöruverslun opnuð á neðri hæð sama húsnæðis. Nettó verslunin verður byggð upp í sama stíl og aðrar Nettó verslanir þar sem áhersla er lögð á lágt verð og mikið vöruval auk þess sem meira verður um eigin innflutning Nettó. Sett verður upp úðunarkerfi í grænmetistorgi sem viðheldur lengur ferskleika ávaxta og grænmetis auk þess sem boðið verður upp á „Bakað á staðnum“ sem notið hefur mikilla vinsælda í Nettó verslunum, enda lagt upp með mikil gæði, lágt verð og regluleg tilboð.

Nettó hefur náð samkomulagi við rekstraraðila Kaffitorgs um að bjóða upp á heitan mat í hádeginu og á kvöldin í rými við hliðina á Nettó í Hrísalundi.

Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður verslunarsviðs Samkaupa: „Með þeim breytingum sem við höfum gert í Hrísalundi, verslunarkjarna sem er nú í mikilli uppbyggingu, fá Akureyringar betri þjónustu en áður. Verð á matvöru verður lægra og úrvalið meira. Einnig verður sérvaran fjölbreyttari. Þegar ákvörðun um breytingu verslunar lá fyrir var ljóst að vegna plássleysis yrði að finna heita matnum annað rými. Það verða því ekki stórar breytingar þar þó að umsjón með honum færist yfir til rekstraraðila Kaffitorgs sem verður við hliðina á Nettó. Við hlökkum til að bjóða Akureyringa velkomna í Nettó og Ellos í Hrísalundi.“