Félagsfælni

Eymundur L. Eymundsson

Eymundur L. Eymundsson

Eymundur L. Eymundsson skrifar

Þegar fræðslustjóri Akureyrar kemur fram og spyr hvort eigi að sekta foreldra fyrir að börn fara ekki skólann, sem eru að glíma við andleg veikindi þá spyr maður væri ekki nær að sekta stjórnvöld fyrir að foreldrar rekast á veggi. Það getur verið að sum börn og ungmenni nenni bara ekki en svo eru önnur sem glíma við andleg veikindi sem vilja en þurfa hjálp, stuðning og skilning til að höndla skólann og stunda sitt nám.

Það er ekkert sjálfgefið í lífinu og engin kemst gegnum lífið án áfalla. En mig langar að skrifa um þann fjanda sem kallast félagsfælni þar, sem þú kvíðir því að fara út úr húsi og taka þátt í lífinu. Hef sjálfur mikla reynslu af félagsfælni, sem var mikið myrkur í mínu lífi þangað til ég var 36 ára gamall. Þorði ekki að tala um mína líðan enda í þá daga vissu menn ekki hvað þetta var frekar en maður sjálfur. Lifði af þar sem kjarkinn vantaði  til að taka mitt eigið líf en hef þurft að kveðja nokkra sem það hafa gert.

Orðið félagsfælni segir margt og held að menn átti sig ekki á alvarleika málsins nema að lesa sér til um þennan fjanda og finnst að stjórnvöld, sveitarfélög og samfélagið þurfi að átta sig meira á alvarleika andlegra veikinda barna og ungmenna og taka á vandanum strax. Þetta snýst um líf og lífsgæði, sem ekki er hægt að gera lítið úr frekar en með önnur veikindi. Hef ekki trú á að nokkur maður vilji vera veikur og börn og ungmenni þurfi að bíða eftir aðstoð sem þau þurfa gengur ekki. Eftir að hafa farið með geðfræðslu í skóla með mínu fólki voru kennarar og starfsfólk á einu máli um það að vandinn væri mikill og fagmenn vanti til að taka á þessum vanda. Enda hefur það komið meira í ljós undanfarið með umræðu og prósentatölum hvað vandinn er mikill. Það þarf stuðning og skilning gagnvart andlegum veikindum og ef þú lesandi góður gerir lítið úr þessum veikindum lestu þér til og reyndu að setja þig í sporin og veltu þeirri spurningu fyrir þér hvernig myndi þér líða og hvernig myndi þú vilja láta koma fram við þig?  Hvað þurfum við að missa mörg ungmenni til þess að tekið sé á vandanum með virðingu en ekki dómhörku?

Eymundur Eymundsson ráðgjafi og með master í félagsfælni og kvíða.