Grófin – geðverndarmiðstöð

Eymundur EymundssonEymundur L. Eymundsson skrifar

Þar sem ég hef skrifað mikið og verið talsmaður í fjölmiðlum um starf okkar í Grófinni þá langar mig í stuttu máli að fara yfir síðustu tvö ár og sýna mikilvægi félagssamtaka. Um leið þakka ég fjölmiðlum og fjölmiðlafólki fyrir þennan tíma sem hefur verið lærdómsríkur. Það hefur verið mikil áskorun að opna sig í litlu samfélagi og langt í frá sjálfgefið en nauðsynlegt til að efla þekkingu, minnka fordóma og gefa öðrum von.

Valdefling, þjálfun og samstaða á jafningjagrunni.

Grófin geðverndarmiðstöð var formlega stofnuð 10. október 2013 sem er Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Grófin vinnur eftir hugmyndarfræði valdeflingar og batamódels á jafningjagrunni. Batamódelið felur í sér að hægt sé að ná bata af geðröskunum og valdeflingin er verkfæri sem stuðlar að bata. Unnið er með notendum, aðstandendum og þeim sem hafa áhuga á geðheilbrigðismálum hér norðan heiða. Við vitum af eigin reynslu og annarra að ákvörðun um að taka ábyrgð á eigin líðan skiptir sköpum í að snúa sjúkdómsferli yfir í bataferli. Við nýtum okkur m.a. reynslu Hugarafls sem við höfum verið í samstarfi við undanfarin ár við mótun Grófarinnar. Hugarafl notar valdeflingamódelið og starfsemi þeirra sýnir fram á mikinn árangur og hafa þau fjölmörg dæmi þar sem einstaklingar hafa fengið von og náð góðum bata ef ekki fullum bata.

Hvað hefur gerst á tveimur árum

Á  tveimur árum er starfið farið að gefa góða raun og fólk farið að virkja sig og um leið hjálpa öðrum að takast á við sínar geðraskanir og rjúfa sína einangrun. Fyrsta árið höfðum við opið kl. 13:00-16:00. Þar sem hópurinn fór ört stækkandi og það gekk vel var sálfræðingur ráðinn 1. október 2014 og lengdum við opnunartímann í 10:00-16:00. Það hefur sýnt sig eftir að dagdeild geðdeildar lokaði þá hurfu vandamálin ekki og fólk þarf hjálp hvort sem þú ert aðstandandi eða glímir við andleg veikindi eða einangrar þig. Hópastarf, fræðsla og forvarnir, bæði fyrir aðstandendur og notendur hefur skilað sér í auknum fjölda en í dag mæta að meðaltali 22 manns á dag. Erum þakklát Háskólanum á Akureyri fyrir að taka af skarið um samstarf við okkur og þar ber að þakka kennurunum Sólrúnu Óladóttir lektor í iðjuþjálfunarfræðideild og dr. Gísla Kort Kristóferssyni sérfræðingi í geðhjúkrun og lektor í heilbrigðisvísindadeild fyrir þeirra framtak. Þetta samstarf hefur m.a. falist í að iðjuþjálfanemar hafa verið með hópastarf hjá okkur og eins hafa hafa sálfræðinemar verið að koma að okkar starfi. Þetta sýnir mikilvægi þess að starfa saman á jafningjagrunni. Við höfum kynnt okkar starf á félagsvísindatorgi og tókum þátt í geðræktardegi í Háskólanum. Unghugar innan okkar raða hafa verið að eflast og er það nauðsynlegt úrræði fyrir ungt fólk að geta nýtt sameiginlega reynslu og eins að geta leitað til okkar sem eldri eru en fyrst og fremst að þeim sé sýnt traust og virðing eins og við leggjum upp með í Grófinni. Höfum haldið fræðsludaga þar sem Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsa-Eftirfylgdar á höfuðborgarsvæðinu og Hugarafls fræddi m.a. aðstandendur og tókst vel. Vorum með aðstandandafræðslu í nóvember með dr. Gísla Kort Kristóferssyni sérfræðingi í geðhjúkrun og lektor í heilbrigðisvísindadeild og var fullt hús enda mikilvægt að aðstandendur fái fræðslu þar sem þau hafi verið svolítið í lausu lofti. Munum halda áfram að fá góða fagmenn og reiknum með að næsta fræðsla verði í febrúar en verður auglýst þegar nær dregur. Við byrjuðum nú í haust að fara með geðfræðslu fyrir kennara og starfsfólk í grunnskólunum á Akureyri sem og á Hrafnagil og Grenivík. Við höfum farið í alla 9. bekki á þessum stöðum og einnig var foreldrum á Akureyri boðið upp á fræðslu. Við eigum ennþá eftir að fara í framhaldsskólana hér í bæ og í nágrannasveitarfélögum. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og að starfsfólk, kennarar,  ungmenni og foreldrar hafi orðið margs vísari um geðraskanir og hvernig sé að lifa með þær án þess að fá hjálp en líka hvað hægt er að gera með því að fá hjálp. Einlægar og góðar spurningar höfum við fengið sem og mikið þakklæti frá öllum hvort sem það er starfsfólk,kennarar, nemendur eða foreldrar. Fórum með fræðslu fyrir samfélagið á Grenivík  sem var frumkvæði kennara eftir okkur fræðslu í skólanum. Erum þakklát að geta látið gott af okkur leiða og vonandi að þessi fræðsla sé kominn til að vera.  Hvatningarverðlaun fengum við laugardaginn 3. október 2015. Það var forvarna- og fræðslusjóðurinn ,,Þú getur” sem veitti þessi verðlaun fyrir framúrskarandi forvarnar- og fræðslustarf sem vakið hefur athygli og hjálpað mörgum að stíga skrefið í átt að bættum lífsgæðum. Um leið var fjórum einstaklingum úr Grófinni sem eru í Háskólanámi veittir námstyrkir. Þetta er mikil viðurkenning á forvarnarstarfi Grófarinnar og gefur Grófarfólki aukinn kraft eftir að hafa tekið erfið skref í litlu samfélagi en sýnir að margt er hægt með samstilltu átaki. Aflið hefur fengið mikinn og góðan stuðning frá Akureyrarbæ og þingmönnum norðan heiða og er vel að því komið enda er þar unnið mjög svo þarft og óeigngjarnt starf undir erfiðum kringumstæðum. Mikilvægt er að  stjórn Akureyrarbæjar og ríki komi að málum og muni tryggja til framtíðar starfsemi Grófarinnar. Grófin hefur mikið forvarnargildi fyrir samfélagið og hjálpar fólki að rjúfa einangrun, að efla sín lífsgæði á jafningjagrunni. Andleg veikindi og vanlíðan munu alltaf vera til og fara ekki í manngreinarálit og því er enn mikilvægara að félagssamtök sem virka, séu með tryggan rekstur fyrir fólkið sem þarf á þessu að halda.  Það þarf ekki að finna upp hjólið þegar það er komið af stað en það er ýmislegt hægt með góðum stuðningi og opnum huga. Samvinna við geðdeild er mikilvæg og á næstunni munum við byrja með samherjaverkefni sem gæti vonandi nýst skjólstæðingum geðdeildar og samfélagsins.

Að lokum viljum við þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið og gefið sína vinnu auk allra styrkveitinga sem við höfum fengið en allt er þetta ómetanlegt fyrir okkar starf og gefur okkur tækifæri á að efla lífsgæði fólks og samfélagsins um leið. Við óskum öllum gleðilegs árs og þökkum samstarfið á liðnum árum.

Grófin er í Hafnarstræti 95 á 4. hæð í göngugötunni. (fyrir ofan Þekkingu). Sími 462- 3400.

Fyrir hönd Grófarinnar, Eymundur L.Eymundsson ráðgjafi og meðlimur í Grófinni