Kærleikur. Aðeins fyrir útvalda?

Eiffel-Tower-Paris-FranceÞað hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með fréttum síðustu 2 sólahringa að hörmulegir atburðir áttu sér stað í París í Frakklandi, föstudaginn 13.nóvember síðastliðinn. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Frakklandi og landamærunum lokað. 129 manns létust, rúmlega 300 liggja særðir á sjúkrahúsum borgarinnar, þar af 99 alvarlega slasaðir. Langflestir hinna látnu týndu lífi í Bataclan tónleikahöllinni þar sem að bandaríska hljómsveitin The Eagles of Deth Metal stóð fyrir rokktónleikum. Aðrir létust fyrir utan knattspyrnuhöllina Stade de France þar sem að vináttuleikur milli Frakklands og Þýskalands stóð yfir. Enn aðrir létust fyrir utan kaffihús og bari. Þetta eru skæðustu hryðjuverk í Evrópu síðan sprengingarnar í Madríd áttu sér stað árið 2004. Öfgasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á verknaðinum og strax var hafist handa við að sjóða saman svar við þessum árásum. Nágrannaþjóðir Frakklands fylktu liði á bak við og þá og fleiri lönd til viðbótar hétu þeim aðstoð sína í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Samfélagsmiðlar létu ekki sitt eftir liggja. Strax daginn eftir árásirnar flæddu samúðarkveðjur til frönsku þjóðarinnar yfir internetið, fólk minntist fórnarlambanna með ýmsum hætti og byggingar í borgum víðs vegar um heiminn voru lýstar upp í frönsku fánalitunum. Augu heimsins hvíldu á Frakklandi. Hér á Íslandi voru það tónleikahúsið Harpan, Þjóðleikhúsið og minnismerkið fyrir framan Keflavíkurflugvöll sem að tóku á sig frönsku fánalitina. Dómstóll götunnar var einnig virkjaður með öllu því sem hann hefur upp á að bjóða. Að venju skiptist fólk í þrjár fylkingar. Þá öfgafyllstu sem að voru búnir að greina ástandið á eigin spýtur alveg í þaula strax og þetta gerðist og búnir að komast að þeirri niðurstöðu að þetta væru „fjandans múslimarnir“ og þeim ætti að útrýma til þess að koma í veg fyrir frekari árásir. Þá sem vildu taka hippa lífsviðhorfið á þetta og boða frið um gjörvalla veröld með því að fara sér hægt í ásökunum þangað til að allt væri komið upp á yfirborðið. Og þá sem settu sig einhvers staðar þar á milli.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með fréttaflutningi af atburðarrásinni síðustu daga og setja það í samhengi við hvernig almenningur hefur brugðist við. Spyrja má hvort að þessar árásir á Evrópu séu tilkomin vegna vestrænnar menningar sinnar sem er sem þyrnir í augum öfgamanna sem að halda uppi allt öðrum gildum, siðum og venjum, eða hvort að þetta sé eins og margir vilja meina, einfaldlega árás á Frakkland vegna þátttöku þeirra í Sýrlandsstríðinu. Vissulega er vitað að árásirnar í janúar á Charlie Hebdo voru vegna skopteikninga af Múhammed spámanni sem að fór verulega fyrir brjóstið á mörgum öfgatrúarmönnum. Skopmynd af spámanninum sem birtist í danska blaðinu Jyllands Posten árið 2006 hefur orðið til þess að höfundur teikninganna hefur þurft að fara huldu höfði síðan að myndin birtist. Í fljótu bragði virðist sem öfgatrúarmenn séu að beina spjótum sínum að þeim sem ráðist hafa á þeirra heimaland og stráfellt þar fleiri hundruðir ef ekki þúsundir óbreyttra borgara. Getur verið að það sé að skila því að öfgamenn styrkjast í reiði sinni og hefndarþorsta?

Það er líka áhugavert að fylgjast með viðbrögðum heimsins þegar árásir eiga sér stað. Fyrir árásirnar í Frakklandi höfðu sprengjur sprungið hægri vinstri í Sýrlandi og kostað fjölmörg saklaus líf. En enginn sást biðja fyrir því fólki. Enginn snéri sér við þegar 40 manns létu lífið í Beirút þegar ISIS lét til skarar skríða þar, aðeins sólahring áður en veröldin fór á hliðina vegna Frakklands. Er nema von að íbúar í Arabalöndum séu farnir að upplifa þetta sem svo að heiminum standi á sama um sig ? Hvers vegna er þessu orðið svona misskipt ? Erum við ekki öll manneskjur ? Því hefur verið hent fram að við séum bara orðin svo vön fréttaflutningi af ófriði í miðausturlöndum að við séum orðin að einhverju leyti ónæm. En þegar eitthvað álíka gerist í friðsömu Evrópulandi þar sem að búa einstaklingar sem að eru að miklu meira leyti eins og við, með sömu gildi, siði og venjur, að þá séum við að vakna upp við vondan draum.

Er hryðjuverkaógn að aukast í heiminum? Það fer líklega eftir því hvernig litið er á það. Í þeim hluta heimsins sem við erum orðin dofin fyrir er þetta daglegt brauð. Þetta er þeirra líf. Stöðug ógn, stöðug hræðsla. Okkur finnst ógnin hins vegar farin að verða meiri þar sem að hún er komin nær okkur og hefur áhrif á fólk sem er líkara okkur heldur en fólkið í miðausturlöndum. Það þarf ekki endilega að þýða að ógnin sé að verða meiri, hún er bara komin nær. Stríð er engin nýlunda. Lönd hafa háð stríð síðan frá upphafi mannkyns. Þau hins vegar breytast. Nú er svo komið að tortryggnin í garð allra múslima er orðin slík að fólk er hætt að geta greint á milli sárþjáðra flóttamanna sem að óttast það sama og við, sem nauðsynlega þarfnast hjálpar, og öfgamannanna sem að standa fyrir þessum ótta. Landamærum er lokað, við snúum baki við þessu, talað er um „þetta lið“ sem eigi bara að halda sig heima hjá sér þar sem þau geti bara ógnað hvert öðru, og sumstaðar eru umræðurnar orðnar svo litaðar af hatri og heift að talað er um „þetta lið“ eins og þau séu allt önnur dýrategund, óæðri hinum mikla vestræna manni.

Sem betur fer að þá virðast samt sem áður ennþá vera til eitthvað eftir af hinu góða í heiminum. Í árásunum í París hjálpaðist fólk að við að aðstoða særða og þá skipti trúarskoðun viðkomandi engu máli. Þetta var særð manneskja sem að þarfnaðist hjálpar og enga spurninga var spurt. Allstaðar á jarðkringlunni er fólk að safnast saman og haldast í hendur, mynda einhvers konar mótefni gegn því hatri sem að fylgir slíkum árásum. Margir kjósa að svara þessu hatri með ást, og það á ekki bara við um íbúa Parísar sem neita að hlýða útgöngubanni og storma út á göturnar, staðráðnir í að endurheimta borgina sína. Það á við um alla sem búa yfir því sem við köllum samkennd. Næsta mál á dagskrá þyrfti því að vera að styrkja þennan kærleik enn frekar svo hann næði líka til þeirra sem eiga um sárt að binda í hinum daglega harmleik sem umvefur líf þeirra sem að búa í miðausturlöndum og þar sem að geisar stríð. Við getum snúið þessari þróun við, en við gerum það ekki með bænum á samfélagsmiðlum, við gerum það með því að breiða út ástina sem við eigum til, ekki bara handa þeim sem standa okkur nærri, heldur til allra sem þurfa á henni að halda.

11209477_10208202432357803_4193675224821566024_n Eiffel-Tower-Paris-France thousands-of-people-are-sharing-this-poem-that-says-we-shouldnt-just-be-praying-for-paris