Afleiðingar sjálfsmynda

woody-selfieKatrín Lilja Kolbeinsdóttir skrifar.

Það sem að af er ári hafa fleiri dáið við það eitt að taka sjálfsmyndir heldur en hafa látist af völdum hákarlaárásar. Þetta kemur fram í frétt breska vefmiðilsins telegraph. Þó að þetta hljómi fráleitt er þetta kannski ekkert svo galið þegar maður fer að skoða þetta. Við lifum á tækniöld og það er vægt til orða tekið. Tæknin í dag er orðin svo mikil og hröð að mannskepnan heldur varla í við hana. Fólk er ekki fyrr búið að kaupa sér nýjasta Iphone-inn og kannski búið að eiga hann í mánuð þegar það þarf að skipta honum út fyrir nýrri og vandaðri útgáfu af nákvæmlega sama síma. Oft fylgir þessu mikill kostnaður, en sá kostnaður er ekki aðeins talinn í peningum.

Með tilkomu svokallaðra snjallsíma hefur líf fólks í þróuðum samfélögum umturnast. Líf fólks kemst fyrir í einum síma, í honum er hægt að geyma nánast allar upplýsingar sem maður þarfnast í daglegu lífi. Dagbók, símanúmer, minnismiða, þú getur notað símann sem greiðslukort ef þú græjar þig nauðsynlegustu „öppum“, síminn fylgist með hversu mikið og vel þú sefur, hversu vel þú borðar og jafnvel hversu mikið þú hreyfir þig. Og svo getur fólk einnig tekið myndir af öllu, fest allt á upptöku, hvert einasta skref, hvern einasta andadrátt. Og það er þar sem að við komum að efni þessarar greinar. Áætlað er að um 1 trilljón mynda séu teknar á farsíma út um allan heim á ári hverju. Það er meira af myndum á hverjum einasta degi heldur en hefur verið tekið í allri mannkynsögunni fram að þessu. Fólk tekur myndir af matnum sínum, fjölskyldunni, ferðalögum, blómavösum, náttúrunni, fataskápnum, sjálfu sér. Bókstaflega öllu.

Selfie-HGEn það eru sjálfsmyndirnar eða svokallaðar „selfies“ sem að eru að vefjast fyrir greinahöfundi. Á hverjum einasta degi eru teknar óteljandi sjálfsmyndir sem eru að verða sumu fólki að aldurtila, vegna þess að fólk leggur mikið á sig til þess að ná hinni fullkomnu sjálfsmynd. Hvort sem að það er á klettabrún, á lestarteinum eða á þakbrún hárrar byggingar með fallegt útsýni í baksýn. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér, hver er tilgangurinn ? Erum við orðin svo háð því hvað öðrum finnst um okkur að við erum tilbúin til þess að leggja líf okkar að veði ? Fyrir hvað ? Hversu mörg like við fáum á myndina ? Er það jafnvel til þess að dást að sjálfum sér og auka þannig sjálfstraustið ? Eða er það til þess að fá staðfestingu á yfirburða fegurð viðkomandi aðila frá öðru fólki ?

„Selfies“ eru orðin alþjóðlega viðurkennd samfélagsfyrirbæri. Í mekka þessarar hegðunar, Bandaríkjunum, er fólk sem hefur orðið af því atvinnu að taka sjálfsmyndir af sér og birta á samfélagsmiðlum. Fjöldi fólks bíður í ofvæni eftir næstu mynd, sem þarf ekkert endilega að vera svo frábrugðin fyrri myndum, það virðist vera nóg að mynd birtist. Föt sem „stjarnan“ er í seljast í bílförmum, varan sem viðkomandi er að nota rýkur upp í sölu og svona mætti lengi telja.

Óhjákvæmilega hlýtur þetta að setja pressu á venjulegt fólk. Þetta kapphlaup að taka sem flestar sjálfsmyndir, líta sem best út og gera bókstaflega allt til þess að ná bestu myndinni er komið á þá braut að fólk er að láta lífið. Og það er þá sem maður hlýtur að stoppa og spyrja sig hvert við stefnum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu fyrirbæri hafa leitt það í ljós að þetta sjálfsmyndakapphlaup er meðal annars að valda því að óharðnaðir unglingar upplifa sjálfa sig með lélega og jafnvel brotna sjálfsmynd vegna þess að þeim finnst þau ekki standast samanburð við þá sem þau eru á annað borð að bera sig saman við og það geti haft grafalvarlegar afleiðingar. Hjá þeim sem finnst þeir hafa forskot í þessu kapphlaupi getur þetta sjálfsmyndaæði leitt til mikillar sjálfsdýrkunar, sem aftur leiðir svo til þess að viðkomandi aðili verður háður því að fólk dáist að honum/henni.

Enn sem komið er hafa ekki borist fregnir af alvarlegu sjálfsmyndaslysi hér á landi, og getur maður aðeins vonað að þróunin verði ekki slík.