Hvar liggja mörkin?

olis_vorurFyrir nokkrum dögum var frétt um unga starfsstúlku á Quiznos í Grafarholti ein heitasta frétt landsins. Hvers vegna ? Viðskiptavinur sem að hafði farið og pantað sér að borða náði því á myndband þegar starfsstúlkan missti hníf í gólfið en tók hann upp aftur og hélt áfram að útbúa samloku viðskiptavinarins með hnífnum. Viðskiptavininum var ekki skemmt og krafðist þess að fá nýja samloku sem hann fékk eftir orðaskipti við starfsstúlkuna. Í hneykslan sinni ákvað viðskiptavinurinn að birta myndbandið sem að hann tók af vinnubrögðum stúlkunnar og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á aðeins örfáum dögum höfðu rúmlega 25.000 manns séð myndbandið, helstu fjölmiðlar landsins höfðu tekið það upp á sína arma ásamt umfjöllun og fólk skiptist í tvær fylkingar um hvort það stóð með starfsstúlkunni eða viðskiptavininum. Margir hrylltu sig við þessu, aðrir bentu á að sýklainntaka gæti upp að vissu marki verið mannslíkamanum holl, það væri bara til þess að styrkja ónæmiskerfið.

Svo voru það þeir sem að veltu því fyrir sér hversu langt ætti að ganga. Hvar liggja mörkin ? Enginn vill fá mengaðan mat, sér í lagi frá stað sem að kennir sig við matargerð og vissulega er það ekki til eftirbreytni að nota áhöld sem hafa legið í gólfinu. Gólf á matsölustöðum eru oft gróðurstía sýkla eftir mikla umferð dag eftir dag og því vel skiljanlegt að mörgum finnist þetta atvik á Quiznos miður geðslegt. Og sú skoðun á alveg rétt á sér. Það sem er hins vegar vert að velta fyrir sér er hvort það hafi verið siðferðislega rétt af viðskiptavininum að birta myndbandið. Var það fljótfærni sökum pirrings hjá viðskiptavininum yfir aðstæðum ? Í frétt Vísis um málið 5.nóvember er haft eftir Sigríði Hrefnu Hrafnkelsdóttur framkvæmdastjóra smásölusviðs Olís, sem hýsir Quiznos, að þarna hafi orðið mannleg mistök og að stúlkan taki þetta afar nærri sér.

Og þar komum við að kjarna málsins. Öll gerum við mistök. Á hverjum einasta degi gerir eitthvert okkar mistök sem að við værum til í að taka til baka. Sum mistök eru stærri og alvarlegri en önnur, en eru samt sem áður í grunninn alltaf vegna þess að við erum mannleg, og það er mannlegt að gera mistök. Þessi stúlka gerði mistök en skyndilega voru rúmlega 25.000 manns búnir að sjá þau mistök og hafa á þeim skoðun. Slík athygli getur sest á sálartetur einstaklingsins sem fyrir henni verður, og alls ekkert allra að standa undir slíkri pressu. Hvar liggja mörkin ? Má maður eiga von á því að hvenær sem manni dettur í hug að klóra sér í rassinum á almannafæri, eða bora í nefið, að þá sé einhver með myndavél, tilbúinn fyrir sínar 15 mínútna frægð fyrir að birta myndband opinberlega af slíkum óskapnaði ?

Einhvers staðar í tækniþróunarferli 21.aldarinnar færðist valdið í hendur almennings. Fáfundnir eru þeir sem ekki eiga myndavélasíma, tilbúnir til þess að fanga augnablikið hvar og hvenær sem er. Greinahöfundur er í þeim hópi. En það getur verið hættulegt að setjast í dómarasætið án þess að kynna sér málsatvik. Sumir eru einfaldlega viðkvæmari en aðrir, maður veit aldrei hversu andlega sterkur einstaklingurinn sem að er settur á skotskífuna er og hversu vel hann/hún er í stakk búinn til þess að takast á við gagnrýnina sem fylgir í kjölfar þess að mannleg mistök þeirra séu opinberuð almenningi. Hvort sem að fólki finnist þessi mistök vera óafsakanleg eða ósanngjörn árás á starfsmann skyndibitastaðar, að þá hljótum við að vera sammála um að aðgát skal höfð í nærveru sálar.