Hrekkjavakan nálgast!

Iphone-HalloweenSenn líður að Hrekkjavöku. Íslendingar ættu að vera orðnir þessari hátíð að góðu kunnir þrátt fyrir að hún sé ekki gömul hér á landi, samanborið við önnur lönd. Þessari hátíð hefur þó verið tekið fagnandi, sér í lagi af ungu fólki sem skemmtir sér alla jafna konunglega þegar þessi tími árs gengur í garð. Hér á eftir mun ég gera tilraun til þess að komast af því hvaðan þessi hátíð kemur, og hvernig hún fer alla jafna fram.

Uppruna hrekkjavöku má rekja aftur til fornrar heiðinnar athafnar sem Keltar héldu hátíðlega fyrir rúmlega 2000 árum. Þeir trúðu því að á meðan á svokallaðri Samhain hátíð stæði gætu hinir dánu gengið á meðal þeirra og hinir lifandi átt samskipti við þá. Samkvæmt bókinni „An American Holiday, An American History“ klæddust sumir Keltarnir draugabúningum svo að andarnir héldu að þeir væru framliðnir og myndu þess vegna láta þá í friði. Aðrir buðu öndunum upp á sælgæti til þess að friða þá.

6938330-happy-halloween-2013-wallpapersÍ Evrópu á miðöldum tók kaþólska kirkjan upp á þeim heiðna sið að láta fylgjendur sína klæðast búningum og fara hús úr húsi og betla gjafir. Það var fyrsta form af því sem kallað er „trick or treat“ og er orðið þekkt meðal barna erlendis á Hrekkjavökunni. Í Bretlandi á miðöldum fóru betlarar hús úr húsi og buðust til að biðja fyrir hinum dánu ef þeir fengju mat að launum. Þeir gengu um með holar rófur sem luktir, kertið innan í þeim táknaði sálir sem voru fastar í hreinsunareldi (Halloween – From Pagan Ritual to Party Night) Á 17.öld í Norður-Ameríku var farið að nota grasker í staðinn fyrir rófur, bæði vegna þess að það var til mikið af þeim og það var auðvelt að hola þau að innan og rista í þau.

Hrekkjavaka nefnist á enskri tungu Halloween en annar ritháttur yfir það er Hallowe‘en en það er stytting á nafninu All Hallow‘s Evening sem er kvöldið 31.október. Hvað varðar hinar verurnar sem oft eru tengdar við þessa hátíð, þ.e. vampírur og varúlfar, draugar, uppvakningar og nornir að þá hafa þær verið tengdar heimi hinna illu anda svo lengi sem elstu menn muna.

Í dag snýst hrekkjavakan lítið sem ekkert um að rifja upp gamla siði og venjur. Mörgum dögum fyrir hrekkjavökuna sjálfa fara verslanir að auglýsa varning tengdan þessari hátíð, svosem hrekkjavökunammi, grasker, skreytingar og búninga. Því í dag snýst hátíðin um það. Börn hafa gaman af þessari hátíð en þó virðist sem fullorðnir hafi jafnvel ennþá meira gaman af henni. Þetta er tækifæri fyrir fullorðna til þess að klæða sig upp sem alls kyns furðuverur og leika lausum hala, svolítið eins og að finna barnið í sjálfum sér aftur og hafa gaman.

HalloweenCookiesLítið fer fyrir þeirri hefð hér á landi að sníkja nammi með börnum á hrekkjavökunni eins og gert er erlendis, hún virðist meira snúast um að skreyta heima hjá sér og svo annað hvort fara í eitt eða tvö góð hrekkjavökupartý í góðra vina hópi eða halda eitt slíkt sjálf/ur. Mörg félög hafa tekið upp á því að halda hrekkjavökuball fyrir börn og fullorðna og verslanir á borð við Hókus Pókus og Partýbúðina flokka þetta með sem ein af stærri hátíðum sölulega séð, enda rjúka búningarir út mörgum dögum fyrir hátíðina sjálfa. Heilu vefsíðurnar eru tileinkaðar því einu að finna hinn fullkomna búning, sumir leiðbeina hvernig skal gera sinn eigin búning og aðrar síður snúast eingöngu um að ná förðuninni hárréttri.

Hrekkjavakan er komin til að vera og felagi.is hvetur alla til þess að taka þátt enda fátt skemmtilegra heldur en að klæða sig upp sem furðuvera og hreinlega bara láta eins og barn einstaka sinnum 🙂 Nóg er um að vera en í Gamla Bíó þann 30.október verða haldnir Halloween Útgáfutónleikar þar sem fram koma GKR, Marteinn, Alexander Jarl, Gervisikur og Shades of Reykjavík. Skemmtistaðir allstaðar á höfuðborgasvæðinu verða í hrekkjavökugírnum og því um að gera að láta þessa helgi ekki framhjá sér fara!