Margrét Erla Maack; Fjölhæft lúxus- og letidýr.

margret erla 3Margréti Erlu Maack þekkja flestir landsmenn. Hún er með fjölbreyttari ferilskrá en margur annar, á henni má meðal annars finna sirkusmær, plötusnúður, magadanskennari, dómari- og spurningahöfundur, femínisti, sjónvarpskona og fleira. Það er ekkert sem þessi fjölhæfa kona setur fyrir sig og okkur á felagi.is lék forvitni á að vita hvernig hún færi að þessu öllu. Ég sendi henni því línu.

Nú ert þú fjölhæf með meiru. Á ferilskrá þinni má meðal annars finna sirkusmær, dómari- og spurningahöfundur í Gettu Betur, sjónvarpskona, magadansmær, femínisti og meira til. Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér, hver er Margrét Erla Maack?

,,Ég er lúxus- og letidýr, elska að borða og er nákvæmlega þessi sem þú lýsir hér að ofan. Ég skilgreini mig mjög mikið út frá því sem ég vinn við, bæði því að það hefur yfirleitt gengið upp að fara að vinna við það sem að mér finnst skemmtilegt – að breyta áhugamálum í atvinnu. En svo er ég líka plötusnúður, karaokestjórnandi og alls konar annað sem ég man ekki. Sumir halda að ég sé rosalega orkumikil – sé alltaf í dagvinnu allan daginn, kenni svo 4 danstíma og stjórni svo karaoke um kvöldið. En það er alls ekki þannig – allt kemur í skorpum. Ég er mikið innan um fólk í vinnunni minni og hliðarvinnum en reglulega þarf ég að vera ein í þögn og hlaða batteríin.“

margret erla 2Þú vaktir athygli í Kastljósinu á sínum tíma og hefur nú fært þig yfir í Ísland í dag. Hvernig byrjaði þetta allt saman ?

..Fjölmiðlaferillinn byrjaði, eins og hjá svo mörgu góðu fólki, í skriftustarfi á RÚV. Svo fréttu Óli Palli og Hreinn Valdimars af því að ég væri að spila tónlist fyrir fullt af fólki um helgar og drifu mig í raddprufu og í framhaldi af því var ég á Rás 2. Svo varð Ragnhildur Steinunn ófrísk og mér bauðst að leysa af. Sú afleysing varð fjögur ár.“

Þú hefur líka slegið í gegn með magadanskennslu í Kramhúsinu. Hvernig hefur sú upplifun verið ? Hverjir stunda þetta helst?

,,Já ég er bæði að kenna magadans, Bollywood, Beyoncé og burlesque. Það kemur í miklum tískubylgjum hvað er vinsælt. Námskeiðin sækir alls konar fólk á öllum aldri, það er engin spes týpa. Ég kenni í Kramhúsinu og þar kemur fólk ekki til að verða eitthvað, bara til að vera. Ég fíla það attetjúd mjög vel. Skemmtilegast er að ná fólki út úr skelinni og fá það til að sjá að allir líkamar hafa eitthvað jákvætt þegar kemur að dansi. Það er t.d auðveldara að hrista sig ef maður er aðeins mjúkur. Ég hef aldrei verið týpan sem meikaði að fara í ræktina – ég var í dansi sem barn og unglingur og þetta er frábær alhliða hreyfing þar sem heilinn fær að svitna líka.“

margret erla 1Sem yfirlýstur femínisti, hvaða skilaboð hefurðu til ungs fólks varðandi femínisma almennt?

,,Djöfull eruð þið að standa ykkur vel. Ég var svo skíthrædd við að tjá mig í kringum tvítugt. Ég dýrka það sem hefur gerst á undanförnu ári í að rífa kjaft og vera töff.“

Sirkus Íslands hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hann fór fyrst af stað. Segðu okkur aðeins frá því ævintýri. Er það eitthvað sem að fólk ætti að fara og sjá?

,,Já algjörlega…en við erum í vetrarham núna og engar opinberar sýningar í gangi núna. Lee Nelson er forsprakkinn og stofnaði hóp í kringum þetta áhugamál árið 2007, við sem að vorum í þeim upprunalega hópi erum þarna ennþá langflest. Þrjú eru að læra sirkuslistir til BA-prófs í Rotterdam og svo er Lee duglegur að fá bæði kennara hingað fyrir okkur og senda okkur á námstefnur erlendis. Í sumar og í fyrrasumar ferðuðumst við um landið með sirkustjaldið okkar, en á veturnar erum við að smíða ný atriði, taka að okkur skemmtanir fyrir fyrirtæki og prívatveislur, og svo að kenna krökkum sirkuslistir í sirkusskólanum okkar. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það er ekki hægt að starfa um alla eilífð við sirkusinn og okkur þykir svo vænt um batteríið að það verður að búa til græðlinga sem að taka svo við. Starf okkar snýst að svo miklu leyti um að koma sirkusmenningunni af stað – og að fá virka í athugasemdum til að hætta að líkja dóti sem að þeir hata við sirkus. ALÞINGI ER NÚ BARA EINHVER SIRKUS HA. Fólk er ekki að meina að þar á bak við séu þrotlausar æfingar, fórnir og ást á því sem að fólk er að gera. Í sirkusnum sé ég um fullorðinssýninguna okkar, Skinnsemi, sem er cabarettsirkus sem að fer oft yfir strikið. Ég vann á svona fullorðins sirkusstað í New York 2007 samhliða því að vera í masterclass í magadansi og varð algjörlega heilluð. Mér þykir ógeðslega vænt um Skinnsemi. Það er svo skrýtið konsept og það gengur upp. Við vinnum með s-in þrjú, sirkus, sexý og skrýtið og djögglum því fram og til baka svo fólk hefur ekki hugmynd um hvað kemur næst. Að fá fullorðið fólk til að standa á öndinni er æðislegt. Við erum líka ennþá að græða svo mikið á því að fólk kemur gjarnan í sirkusinn með litlar væntingar, heldur að við séum ekki á heimsmælikvarða. Alltaf eftir sýningar er einhver sem að spyr okkur hvað séu margir Íslendingar í hópnum og svarið er „Allir nema tveir“. Það kemur fólki á óvart: „Líka stelpan í reipinu ? Og loftfimleikafólkið ? Og strákurinn í málmhjólinu ? Og stelpan með eldhúllahringina ?“ Margir í hópnum eru líka að vinna við sirkusinn í fullu starfi allt árið um kring. Við erum stærsta sjálfstæða leikhús landsins. Ég er helvíti montin af okkur og kompaníið og verkefnin eru alltaf að stækka og dafna. En þetta er ógeðslega erfitt og oft langar okkur að kyrkja hvort annað, við erum öll metnaðarfull og brennum fyrir sirkusinn og vinnum mjög náið saman. Það getur tekið á. Sirkusinn er ekki bara dans á rósum…og línum.“

margret erlaAð lokum, sem farsæl fjölmiðlakona, hvaða ráð hefurðu handa ungu og upprennandi fjölmiðlafólki sem er ef til vill að stíga sín fyrstu skref í þessum bransa?

,,Besta starf sem að hægt er að komast í í upphafi er að verða skrifta. Þú lærir allt. Allt tæknidót, framleiðsluferli og vinnsla er eitthvað sem að maður er með puttana í. Ég lít á mig sem dagskrágerðarkonu en ekki blaðamann, ég segi sögur og tala við fólk sem að er ekkert endilega alltaf verið að tala við. Gefðu þér tíma í að tala við viðmælendur. Ef viðmælanda líður ekki vel – og það sést, kemur það bara út eins og sá sem er að búa til innslagið eða fréttina sé bara léleg týpa, nema ef takmarkið er að sauma að fólki. Vala Matt sagði mér þegar ég var að byrja: „Leyfðu þér að hlægja“ Og það er hollt að taka breik frá fjölmiðlabransanum við og við.“

Við þökkum Margréti kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að sitja fyrir svörum og hvetjum lesendur eindregið til þess að kynna sér starfsemi hennar hjá Kramhúsinu og Skinnsemi svo fátt eitt sé nefnt 🙂 Fyrir þá sem hafa áhuga á magadansi er hægt að nálgast allar upplýsingar á facebook síðu Margrétar: Danskennsla Margrétar Erlu Maack.