Landsbyggðin þarf sterkari rödd í mótun ferðaþjónustunnar

Skúli Gautason. Lenti í sjokki þegar hann sá áganginn við Gullna hringinn nýverið, vandamálið stærra en séð hefur verið fyrir. Hann vill markaðssetja Ísland þannig að við beinum erlendum gestum í auknum mæli að hinu manngerða, enda þolir steinsteypt gólf umferð betur en viðkvæm náttúra.

Skúli Gautason. Lenti í sjokki þegar hann sá áganginn við Gullna hringinn nýverið, vandamálið stærra en séð hefur verið fyrir. Hann vill markaðssetja Ísland þannig að við beinum erlendum gestum í auknum mæli að hinu manngerða, enda þolir steinsteypt gólf umferð betur en viðkvæm náttúra.

Skúli Gautason kveður 15. ágúst næstkomandi stól framkvæmdastjóra Akureyrarstofu. Hann hefur gegnt því starfi í eitt ár meðan Þórgnýr Dýrfjörð tók sér námsleyfi frá störfum. Skúli er landsmönnum að góðu kunnur vegna ýmissa starfa sinna, bæði sem listamaður og í opinberu atvinnulífi. Í viðtali við Akureyri vikublað ræðir Skúli m.a. blóma menningarlífs á Akureyri, galdur samtalsins, tækifæri ferðaþjónustu en einnig þær hættur sem við blasa vegna aukins ágangs ferðamanna í viðkvæmri náttúru Íslands.

Hvað er þér efst í huga, Skúli, nú þegar styttist í að þú ljúkir starfsári sínu sem framkvæmdastjóri hjá Akureyrarstofu?

„Þetta hefur verið mjög fjölbreytilegt og áhugavert starf. Maður hefur þurft að halda mörgum boltum á lofti í einu. Það tók tíma að setja sig inn í starfið og kannski er það svolítið sorglegt að þá fyrst að maður er kominn inn í alla hluti, þurfi maður að hætta.“

Stendur eitthvað eitt upp úr þeirri reynslu sem þú hefur aflað þér sem framkvæmdastjóri Akureyrarstofu síðustu misseri?

„Ég hef reynt að fá stjórnendur menningarstofnana í bænum til að tala meira saman. Ég hef nefnilega tröllatrú á öllu sem kallast samstarf og samvinna, samtali fólks á millum. Ég held að mikil tækifæri séu fólgin í að menn hittist og ræði saman, ég hef beitt mér fyrir slíku. Oftar en ekki er hægt að haga seglum þannig að samlegðaráhrif og markvissara meningarlíf geti skapast jafnvel með minni tilkostnaði – bara með því einu að fólk í ólíkum kimum tali saman. Við þurfum að varast að vera eylönd og ég hef reynt að koma þeirri hugsun áleiðis.“

Kallar aukin samvinna stundum á fleiri „árekstra“ – er ekki veröldin full af því sem kallað hefur verið „heimaríkir hundar“?

„Það geta auðvitað alltaf komið upp einhverjir árekstrar en ég held að mikil tækifæri séu í þeirri hugsun að menn líti ekki á menningarstörf sín, svo maður ræði þau sérstaklega, sem samkeppni heldur samvinnu. Það er framtíðarverkefni að gera menningarlífið á Akureyri skilvirkara og sterkara, bæði meðal opinberra aðila og einkaaðila. Einn draumur eða hugmynd sem vert er að skoða er að allir menningaraðilar komi sér saman um að gera menningardagatal. Menn eru almennt farnir að skipuleggja sig með æ betri fyrirvara og kannski er ekkert því til fyrirstöðu að skipuleggja menningarviðburði heilu árin fram í tímann. Til að þetta verði mögulegt þarf þó hugarfarsbreytingu og mun meira samtal milli ólíkra stofnana og einkageirans, en ef það gengur upp væri hægt að dreifa menningadagatali í öll hús, jafnvel fyrir allt árið, þar væri hægt að sjá tímasetningar helstu opnana og svo framvegis.“

Hvernig hefur starfsemi Menningarfélags Akureyrar komið þér fyrir sjónir í þessu samhengi, þar er aukið samstarf stofnana á vegum bæjarins einmitt einn lykilþátta, ekki satt?

„Ég hef lengi verið mikill talsmaður stofnunar Menningarfélags Akureyrar og sýnist sem félagið sé að fara mjög vel af stað. Þar erum við akkúrat með gott dæmi um þrjár stofnanir undir einum hatti og þar innanndyra hefur nú þegar átt sér stað gott samtal.“

Skorti á það áður en LA, SN og Hof voru undir einum hatti?

„Ég hef séð leikhússtjóra LA í gegnum árin starfa hér að menningarmálum sem eyland, því miður, þá hafa viðkomandi ekki haft neinn til að spegla hugmyndir sínar í. Nú er verið að dæla hugmyndum frá ýmsum uppsprettum, það er komið upp gott teymi fagfólks, ný heildarhugsun. Ég bind miklar vonir við menningarfélagið en auðvitað mun taka tíma að hrista af sér barnasjúkdómana, en ég vona að stjórnendur opni félagið enn meira en þegar er gagnvart hinum almenna bæjarbúa.“

Fylgir aukin fagmennska sannarlega þeim breytingum sem gerðar hafa verið á listrænum stofnunum á vegum bæjarins að þínu viti?

„Það held ég já, en ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þessar stofnanir hafi verið reknar ágætlega áður.“

Hvað með t.d. fjárhagsvanda LA?

„Tímabundin fjárhagsvandræði eru alls ekki endilega dæmi um skort á fagmennsku, t.d. hefur verið ágætis upplýsingagjöf um reksturinn hjá LA en ég held að lifandi samtal og samstarf leiði til aukinnar fagmennsku.“

Millilandaflug yrði vítamínsprengja

Nú er starf framkvæmdastjóra Akureyrarstofu margtóna, þú hefur svo dæmi sé nefnt með rekstur menningarmála að gera og stefnu en nokkur hluti starfsins hverfist einnig um annars konar atvinnumál og markaðsmál. Hefur það sem dæmi ekki verið á þinni könnu að vinna að málum sem hafa beint með ferðaþjónustu að gera?

„Ferðamennska, listir og menning eru greinar sem hafa fléttast æ meira saman síðustu tvo áratugina. Það er ekki ýkja langt síðan hugtakið menningartengd ferðaþjónusta kom fyrst fram, Jón á Kirkjubóli á heiðurinn af því. Nú er nánast sjálfgefið að fólk hugsi um ferðaþjónustu og menningarlíf sem tvær hliðar á sama teningi, ég held að það sé góð stefna. Stór hluti af ferðamönnum vill njóta menningar í því landi sem þeir heimsækja og eðlilegt er að hafa þetta undir saman hatti þótt þjóðir hafi ólíkan hátt á. Í Írlandi eru ferðamennska til að mynda undir sama hatti og samgöngumál. En það er vissulega áskorun oft að finna jafnvægið, mér finnst við hér í bænum á nokkuð góðri leið og vissulega eru menningar- og ferðamál atvinnumál.“

Um fátt viðist meira rætt á götuhornum Akureyrar meðal bæjarbúa en þá ósk margra að fá beint millilandaflug frá Akureyri til umheimsins, helst áætlunarflug. Er unnið að því þjóðþrifamáli sem skyldi?

„Mín bjargfasta trú er að það myndi verða algjör vítamínsprengja inn í bæði ferðamannalífið og mannlífið allt á Norðausturhorninu ef við fengjum beint millilandaflug til Akureyrar. Það yrði til heilla, ekki bara fyrir okkur hér heldur landið allt sem og gestina okkar. Beint flug myndi jafna dreifingu ferðamanna á landinu og veitir ekki af. Ég fór um daginn með hóp ferðamanna hinn svokallaða Gullna hring fyrir sunnan og það var áður en aðaltraffíkin hófst. Samt var ástandið þannig að ég upplifði ástandið við Gullfoss og Geysi þannig að allt var gjörsamlega sprungið og drukknað vegna mannfjölda. Ég var í sjokki yfir þessu, hafði hreinlega ekki áttað mig á hve alvarlegt vandamálið er orðið. Sumir ferðamannastaðir bera álagið engan veginn, það að fá beint flug til Akureyrar yrði kannski einfaldasta, skilvirkasta og markvissasta leiðin til að leysa hluta þessa vandamáls.“

Fráfarandi framkvæmdastjóri Akureyrarstofu: Gríðarleg áhrif af útnefningu Lonely Planet fyrir Akureyri.

Fráfarandi framkvæmdastjóri Akureyrarstofu: Gríðarleg áhrif af útnefningu Lonely Planet fyrir Akureyri.

Þú ert náttúruverndarsinni, ekki satt?

„Jú svo sannarlega. Okkar dýrmætasta eign er hreint, ómengað og sem mest ósnortið land. En það þarf að vega og meta málin. Ég get ekki hugsað mér að fá háspennumöstur vegna Blöndulínu yfir Skagafjörðinn og út Öxnadalinn, en á sama tíma er alveg ferlegt að geta ekki stungið skemmtiferðaskipunum í samband við rafmagn úr landi af því að það er ekki til næg raforka í það, svo þau þurfa að keyra ljósavélar sem mynda mengunarský í firðinum.“

Er persónuleg skoðun þín, án þess að ég sé endilega að varpa fram spurningum til þín sem embættismanns, sú að huga þurfi mun betur en raunin er að vandamálum sem kunna að skapast vegna stóraukins fjölda ferðamanna? Er kannski pólitísk tregða gegn því að dreifa álaginu betur þannig að Akureyri og Norðurland fengi betur að njóta á kostnað Keflavíkurflugsins?

„Mér finnst allavega kostulegt ef það á setja 14 milljarða í að stækka Leifsstöð núna í stað þess að lækka það um milljarð og setja hann í flughlað og bætta aðstöðu hér við flugvöllinn á Akureyri. “

En svo eru þeir líka til sem segja að Norðlendingar og við heimamenn hér þurfum að skapa frumkvæði fyrir breytingum, þurfum að berjast samstætt fyrir auknum tækifærum svo sem millilandaflugi. Stundum líður manni eins og fjöldi fólks hafi atvinnu af því að skoða endalaust einhverja möguleika í þessum efnum en ekkert gerist. Er svolítið ódýrt að skella allri skuldinni alltaf á „hina“?

„Ég deili þeirri tilfinningu að við höfumst ekki nóg að hér í héraði vegna þessa máls. Kannski verða svona mál að jafnaði til í reykfylltum bakhherbergjum en það þarf að fá þau betur upp á yfirborðið og einmitt vinna að ávinningi í sameiningu. Landsbyggðin verður að fá sterkari rödd í mótun ferðaþjónustunnar. Í fagráði ferðaþjónustunnar hjá Íslandsstofu sitja t.d. 12 manns, ábyggilega vænsta fólk, en þar af eru bara tveir sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar.“En óneitanlega er þversögn í stöðunni.

Goðafoll og Leihnúkssvæðið í hættu

Við viljum fá fleiri ferðamenn til okkar hlutfallslega miðað við höfuðborgarsvæðið, en það eru líka nú þegar dæmi um skaðlegan ágang hér á norðlenskri náttúru – ekki satt? Hnignunin er ekki aðeins bundin við Gullna hringinn?

„Það er rétt, að á sama tíma og við óskum eftir dreifðum ferðamönnum um landið er ég dauðhræddur um að við séum víða að gjalda fyrir ágang. Hér eru mörg verkefni óleyst. Það þyrfti að marka miklu fleiri göngustíga, byggja upp þjónustu, skapa störf sem snúast um upplýsingu til ferðamanna og verndun landsins, það verður að setja fjármagn í þetta. Ég hef þungar áhyggjur af því að átroðningur víða um land sé orðinn of mikill og eitt dæmi er ástandið við Goðafoss. Eins við Leirhnjúk. Þar þarf að byggja upp og vernda og það strax.“

Ber ástandið keim af hinni klassísku íslensku vertíðarhugsun fremur en fyrirhyggju?

„Já, það er talað um gullgrafaraæði og því miður er ég smeykur um að það eigi við í mörgum tilfellum. Mín persónulega skoðun er að það kunni að vera innbyggð í íslenska kerfið einhver skammtímahugsun. Svo er hitt vandamál að það fylgir því ákveðinn vandi að búa við kerfi sem byggir á fjögurra ára kjörtímabilum. Ekki síst þegar sú hefð líðst að henda öllu fyrir róða sem fyrri stjórn gerði og kúvenda. Okkur vantar svo átakanlega langtímahugsun.“

Ræðum aðeins framtíð Akureyrar sem ferðamannastaðar. Er ekki ljóst að útnefning Loneley Planet sem í raun setur Akureyri og nágrenni í efsta sæti yfir áhugaverða áfangastaði í heiminum mun hafa gríðarleg áhrif, hvað sem líður millilandafluginu?

„Ég held að þessi útnefning Lonely Planet sé jafnvel mikilvægari fyrir ferðamennsku á Norðurlandi en öll þau áhrif sem allt auglýsingafé sem hefur verið varið til að kynna ferðamannstaði á Íslandi samanlagt hefur skilað. En það er áhugavert og mótsagnakennt að það sem einna helst er talið Akureyri til tekna sé hve Akureyri er lítið þjökuð af ferðamennsku. Umfjöllunin mun valda því að ferðamennska snareykst hjá okkur. Sem er kannski í lagi ef við beinum ferðamönnum í ríkari mæli inn á manngerð svæði sem þola ágang.“

Stundum er sagt að listalífið, sköpunin, sé framsækin hér á landi en áhersla á gamaldags hugsun sé ráðandi í flestum stærri atvinnuvegum.

„Þegar ég ferðast erlendis hefur mér fundist mikilvægast að ná persónulegu sambandi við viðkomandi þjóð, til dæmis þegar leiðsögumaður gefur af sér á persónulegan hátt eða samsamar mig með menningu og sögu viðkomandi lands. Þannig næ ég persónulegri tengingu. Þarna eru tækifærin fólgin og þau eru nátengd skapandi greinum og skapandi hugsun. Það þýðir að þeir sem sinna ferðaþjónustu verða að vera skapandi og leggja upp úr því að vera persónulegir og gefandi í sínum samskiptum við erlenda gesti. Því er kannski gott að hugsa framtíðina einmitt ekki sem massaiðnað heldur að verðleggja Ísland hærra, vera selektívari og vandlátari hvaða ferðamenn við fáum til Íslands. Vanda okkur. Ef við vöndum okkur getur ferðaþjónustan orðið eitthvað sem skilar mörgum kynslóðum góðum arði, verður landi og þjóð til uppdráttar og sóma. Ef við verðum of gráðug brennur þetta upp.“

Þurfum að varast fjöldann

Þannig að þín skoðun er að áætlanir sem miðast endalaust við meiri og meiri fjölgun ferðamanna séu e.t.v. ekki bestar?

„Nei, við þurfum að vara okkur á fjöldanum. Við lifum í viðkvæmu landi og verðum að passa okkur. Þar sem eru byggingar og hús þolum við áganginn en við erum akkúrat að einblína á að selja allt hitt. Langstærstur hluti ferðamanna kemur til að sjá óspjallaða nátturu en við ættum að reyna að beina fólkinu með markvissum hætti að hinu manngerða og ekki síst menningunni.“

Hvað tekur við eftir 20. ágúst hjá þér?

„Ég veit ekki hvað tekur við, en ég hef ekki miklar áhyggjur af því að ég finni ekki skemmtileg verkefni. Ég er búinn að leggja snörur nokkuð víða og sé hvað kemur út úr því.“

VIÐTAL Björn Þorláksson

MYNDIR Völundur Jónsson

Akureyri vikublað 23. júlí 2015