Flugrúta til Keflavíkur

FlugstodStaðhæft er í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Gray Line að beint flug til Akureyrar hafi ekki gengið upp og sem viðbragð við því sé mikilvægt að koma á fót rútu sem keyri milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar.

„Beint flug til Akureyrar hefur verið reynt og ekki gengið upp. Vafalítið mun koma að því að slíkar ferðir geti orðið sjálfbær kostur. En meðan verið er að skapa þann markað teljum við farsælast að byggja á þeirri staðreynd að mestallt millilandaflug fer um Keflavíkurflugvöll. Sá flugvöllur þjónar öllum áfangastöðum erlendis en viðbúið er að beint flug til Akureyrar tengist aðeins einum áfangastað erlendis,“ segir Þórir Garðarsson hjá Gray Line.

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur undanfarna mánuði skoðað möguleikann á því að bjóða beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Þannig yrði að hluta til mætt þörfum farþega í millilandaflugi sem eiga erindi norður eða að norðan.

„Hugmyndin er að ferðirnar verði í tengslum við komur og brottfarir á Keflavíkurflugvelli síðdegis,“ segir Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.

„Með þessu móti gætu farþegar verið komnir til Akureyrar fyrir miðnætti sama dag og þeir lenda. Á sama hátt gætu þeir náð síðdegisflugi frá Keflavíkurflugvelli sama dag og þeir leggja af stað frá Akureyri,“ segir Þórir.

Megináherslan í markaðssetningu Norðurlands ætti því að beinast áfram að flugfarþegum sem fara um Keflavikurflugvöll, enda fari þar um 9 af hverjum 10 ferðamönnum sem hingað koma að sögn Þóris. Ljóst er að þetta viðhorf er mjög umdeilt meðal Norðlendinga en þó kunna ýmsir að fagna nýrri rútuleið, þótt kannanir hafi mælt að það myndu fjölga utanferðum Akureyringa stórlega ef hægt væri að fljúga út beint frá Akureyrarflugvelli.

Að mati Gray Line geta beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar stuðlað að lengri dvöl ferðamanna fyrir norðan og verið ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eiga aðeins erindi þangað og ætla ekki að stoppa á höfuðborgarsvæðinu.

Skoðanir meðal bæjarbúa á Akureyri virðast skiptar og telja ýmsir langt í frá fullreynt með beint flug frá Akureyri. Töluverð ánægja hefur eigi að síður mælst með flugrútuframtakið á samskiptasíðum á netinu, miðað við óbreytt ástand. -BÞ

Akureyri vikublað 10. júlí 2015