Eins og að verða undir vörubíl

Grétar Þór Eyþórsson prófessor við Háskólann á Akureyri á son með Downs heilkenni, Gunna, sem hefur kennt kennaranum margt. Í viðtali við Akureyri vikublað lýsir prófessorinn m.a. hvernig áfall breyttist í sigur. Þá spáir hann í hin pólitísku spil sem sumpart eru fordæmalaus nú um stundir. Mynd: Völundur

Grétar Þór Eyþórsson prófessor við Háskólann á Akureyri á son með Downs heilkenni, Gunna, sem hefur kennt kennaranum margt. Í viðtali við Akureyri vikublað lýsir prófessorinn m.a. hvernig áfall breyttist í sigur. Þá spáir hann í hin pólitísku spil sem sumpart eru fordæmalaus nú um stundir. Mynd: Völundur

Grétar, þú ert prófessor við HA en þú ert „tveggja ferla maður“ ekki satt? Þú hefur ekki alltaf starfað innan akademíunnar – hvað varð til þess að þú tókst doktorspróf?

,,Það er rétt. Eftir stúdentsprófið langaði mig til að gera að minnsta kosti hlé á bóknámi. Ég er af ættum byggingariðnaðarmanna, pabbi málarameistari og móðurafi minn var múrarameistari. Þetta var því alltaf nálægt manni og ég hafði frá barnsbeini unnið byggingarvinnu með skóla. Eitthvað heillaði mig við múrverkið og ég fór í það eftir stúdentinn og kláraði það síðan. Það var síðan ekki löngu eftir sveinsprófið að ég slasaðist í vinnu og þá varð mér ljóst að líklegast yrði ég ekki gamall í faginu. Því ákvað ég að söðla um og hóf nám í stjórnmálafræðinni 1986, þá að verða 27 ára. Eftir BA prófið 1989 var haldið beint til Gautaborgar í Svíþjóð, en þar átti ég síðan eftir að búa meira og minna í 10 ár. Doktorsprófið var eiginlega aldrei í sigtinu hjá mér enda taldi ég menntunina á mínu sviði, sveitarstjórnarmálum, frekar praktíska og vænlega til atvinnumöguleika. Þegar gamla kreppan á árunum 1991-1993 stóð sem hæst var ég á leið heim að loknu Ph. Licentiat prófi, en á árinu 1993 bauðst mér síðan nokkuð óvænt launuð staða doktorsnema í 4 ár. Það gerði útslagið og áfram var haldið. Þessu lauk ég síðan um áramót 1998/1999. Tvö síðustu árin í doktorsnáminu yfirgaf ég háskólann og réðst til Norrænu ráðherranefndarinnar sem verkefnisstjóri við eina af stofnunum hennar. Í tvö ár starfaði ég við að þróa aðferðafræði við gæðastjórnun og gæðamælingar í starfi norrænna stofnana á sviði félagsþjónustu. Sú menntun og reynsla sem ég sótti mér út eru mér ómetanlegt nesti á lífsleiðinni og hafa reynst mér til heilla í lífi og starfi síðan.“

Kennslan er gefandi

Er alltaf gaman að kenna? Hvað er það sem keyrir þig sem háskólakennara áfram?

Þetta spilar saman. Kennsla er gefandi því hún heldur manni í fremur einmanalegu starfi í tengslum við fólk. Kennsla og umræður við ungt ferskt fólk heldur manni líka alltaf uppfærðum í því hvernig þankagangurinn í þjóðfélaginu þróast. Það er nauðsynlegt og kemur í veg fyrir að maður lokist í einhverjum svokölluðum turni sem maður fer sjaldan út úr. Rannsóknirnar eru þó mín ær og kýr og ég gæti ekki án þeirra verið. Að skapa nýja þekkingu. Því er rannsóknasamstarf bæði á innlendum og erlendum vettvangi mér mjög mikilvægt. Það heldur í mér lífinu, faglega. Ef ég ætlaði að sleppa því gæti ég alveg eins farið að kenna í framhaldsskóla.

Andleg næring og endurhæfing

Þú átt dreng, Gumma, sem þú skrifar oft fallega um á facebook, hefur hann kennt þér kennaranum eitthvað?

Gummi eða Guðmundur Ásgeir, fæddist í Svíþjóð árið 1997. Hann er þriðja barn mitt og þáverandi konu minnar. Það kom fljótt í ljós að hann fæddist með Downs heilkenni. Að fá slíkt framan í sig var eins og að verða undir vörubíl. Áfallið var mikið og á næstu tveimur árunum var þetta erfiður baggi að bera með fullri vinnu og svo því að klára doktorinn. En það hafðist og allt gekk þetta merkilega vel. Gummi hefur til allrar lukku verið heilsuhraustur og félagslega mjög sterkur, opinn, ræðinn og skapgóður. Þessi atriði eru ótrúlega mikilvæg einstaklingi eins og honum. Það hefur líka gert foreldrunum uppeldið auðveldara.

Það sem maður hefur lært af því að eiga barn eins og hann er nú ýmislegt, allt jákvætt. Gleðin, hreinskiptnin og hrekkleysið eru áberandi. Við sem teljumst eðlileg erum gjarnan að dragast með áhyggjur af hlutum, stöndum í átökum og jafnvel plotti og ýmisskonar misjafnlega heiðarlegum hlutum og leiðindum. Allt svoleiðis er víðsfjarri þegar Gummi er annars vegar. Hann er ekki móttækilegur fyrir slíku og það er ekki hægt að vera í svona gír þegar hann er nálægur. Þessvegna er hann hérna fyrir norðan hjá mér eins oft og mögulegt er, en hann hefur búið í Vestmannaeyjum með mömmu sinni og bróður síðustu 4 ár. Nærvera hans er mér mjög mikilvæg og er mér andleg næring og endurhæfing. Ég hef miklu meira út úr því að bralla eitthvað sniðugt með Gumma en að liggja yfir fræðibókum eða greinum á síðkvöldum.

Grétar kann vel við sig við Háskólann á Akureyri. Kona hans er Brynja Siguróladóttir.

Grétar kann vel við sig við Háskólann á Akureyri. Kona hans er Brynja Siguróladóttir.

Styrkur í íhaldsseminni

Þú hefur starfað við Háskólann á Bifröst, kennt í Reykjavík og svo hér – hver er helsti styrkleiki HA í samanburði við aðra háskóla landsins og hver er helsti veikleiki okkar norðlenska skóla?

Ég réði mig á Bifröst haustið 2005 og var þar allt til sumarsins 2008 en þá ákvað ég að taka skrefið aftur norður á bóginn. Það var bæði til að auka nálægðina við drengina sem þá voru yngri en einnig vegna þess að mér fundust þær fræðaáherslur sem HA var með m.a. á byggða og sveitarstjórnamál henta mér betur en raunin var á Bifröst. Engu að síður var það góð reynsla að vera í Borgarfirðinum og ég sé ekki eftir því að hafa prófað þetta. Það er nokkuð mikill munur á því milli ríkisháskóla og sjálfseignarstofnunar eins og Bifröst í því hversu öll ákvarðanataka og breytingar ganga hraðar fyrir sig í einkarekstrarforminu. Maður gat fengið hugmynd og ef hún var góð var hún orðin að veruleika áður en maður vissi af. Í ríkisrekstrarforminu eru ferlin flóknari og seinlegri en um leið lýðræðislegri – stundum finnst manni samt lýðræðið og allar nefndirnar sem þurfa að kinka kolli yfir einhverju vera að bera skilvirknina ofurliði. Tíðar og hraðar breytingar, aðlögun að aðstæðum getur verið gott upp að vissu marki. Of mikið af þeim í þessum bransa getur orkað tvímælis og því má segja að ákveðinn styrkur liggi í íhaldsseminni og seinagangnum.

Auðvelt að álpast út af sakramentinu

Þú ert oft fenginn til að fjalla um pólitík í landsfréttum, en sagt hefur verið að stjórnmálafræðilega menntaðir álitsgjafar séu sjaldnast hlutlausir. Hannes Hólmsteinn er t.d. brennimerktur hægrinu, Eiríkur Bergmann hefur verið vændur um vinstri innrætingu. Ertu sammála þeirri gagnrýni sem stundum hefur komið fram á pólitíska álitsgjafa að þeir gangi stundum dulinna erinda?

Þessir svokölluðu álitsgjafar sem fjölmiðlarnir leita reglulega til eru auðvitað með mjög mismunandi bakgrunn, þeir eiga sér sinn bakgrunn og fortíð eins og annað fólk. Álitsgjafi sem vill láta taka sig alvarlega verður hinsvegar að leitast við að feta hinn hlutlausa veg. Kollegum mínum tekst þetta nú í velflestum tilvikum finnst mér og ég reyni mitt besta. Ætli maður að fara út fyrir hlutleysið getur maður fljótt lent útaf sakramentinu. Svo eru þeir sem gjarnan gefa álit sitt en eru mjög pólitískt hlutdrægir en eru kannski ekki að fara dult með það, hvorki tengingar sínar né heldur í málflutningi. Þannig er t.d. Hannes Hólmsteinn. Hann er ekkert í feluleik með sínar skoðanir. Fyrir vikið er sjaldan leitað til hans ef verið er að leita eftir sem hlutlausustu mati. Það er reyndar mín reynsla að ráðamenn og stjórnmálamenn hvar í flokki sem eru, reyna mjög oft að gera lítið úr álitsgjöfunum ef það sem þeir segja er ekki í línu við þeirra skoðanir og hagsmuni. Þar eru viðbrögð forsætisráðherra við grein Eiríks Bergmann ekkert nýtt undir sólinni.

Píratar bóla eða ekki?

Ef ég bið þig að segja nokkur orð um hið pólitíska landslag samtímans, þá hættir mönnum e.t.v. að jafnaði til að meta eigin samtíma oft sem merkilegri en aðra tíma, jafnvel fordæmalausan, en eru ekki fordæmalausir tímar ef þú horfir yfir sviðið í heild sinni t.d. hvað varðar mælingar í skoðanakönnunum á fylgi flokka? Hvað skýrir sem dæmi háflug Pírata – þeir nálgast jafnvel 40% fylgi í sumum könnunum – eru dæmi um annað eins í sögunni að nýr flokkur fái svo mikinn stuðning?

Menn hafa nokkuð togast á um það hvort háflug Pírata í könnunum síðustu mánuði sé fordæmalaust eða ekki. Hvort þetta sé enn ein bólan sem svo springur? Víst höfum við séð flokka mælast óvænt mjög hátt en falla síðan fljótt eða missa flugið á endanum. Það sem mér sýnist vera sérstakt í þessu með gengi Píratanna er að sé horft til niðurstaðna kannana yfir lengra tímabil hófst flugtak þeirra þegar í desember 2014 þó það hafi reyndar ekki náð núverandi hæðum fyrr en febrúar/mars 2015. Það má nú minna á að til dæmis Framsóknarflokkurinn hófst hátt á loft í könnunum eftir áramótin 2012/2013 í aðdraganda kosninganna og mældist aftur og aftur með yfir 30%. Það endaði reyndar í 24,4%. Við höfum líka dæmi um „rakettur“ sem komið hafa beint niður, til dæmis Samstöðuna hennar Lilju Mósesdóttur sem skaust upp á himininn og nær beint niður aftur. En við vitum reyndar ekkert hvar þetta nokkuð sérstaka tilvik með Píratana endar. Það er líka langt eftir af kjörtímabilinu og þeir gætu þessvegna flogið hátt allan þennan tíma. Svo er spurning hvort fólkið sem svarar í könnunum fylgir þeim alla leið í kjörklefann. Er fólk að gefa sig upp á þá í einhverskonar mótmælaskyni og pirringi gagnvart stjórnmálaum og stjórnkerfi? Eða Alþingi sem lítur út útávið eins og leikvöllur fullur af frekum og ofdekruðum krökkum. Ég tel vonlaust að svara því, þótt mér finnist yfir 30% kjörfylgi þeirra ótrúlegt. En hvað veit maður?

Framsókn gæti rétt úr kútnum

Hver er þín skýring á hnignandi gengi Framsóknarflokksins sem t.d. Eiríkur Bergmann hefur greint sem popúlískan þjóðernisflokk?

Framsóknarflokkurinn vann auðvitað stórsigur í kosningunum 2013 en hefur ekki haldist á því fylgi í könnunum að minnsta kosti. En hann er kannski ekki á ókunnugum slóðum í fylgi, þrátt fyrir allt. Flokknum virðist ekki vera launaðar skuldaleiðréttingarnar í könnunum og raunar benda fyrstu kannanir til þess að kjósendur yppi öxlum yfir fyrstu tíðindum af afléttingu gjaldeyrishaftanna, einhverju sem virðist ekki vera umdeilt að hafi tekist vel. Niðurstaða skuldaleiðréttinganna var hinsvegar mun umdeildari. Bæði var það gagnrýnt að nota þetta fé í að greiða niður skuldir millistéttarinnar og að leiðréttingarnar hafi alls ekki verið jafn miklar og lofað var. En hvorugt hefur orðið til að rífa upp fallandi fylgi flokksins í könnunum. Í ljósi sögunnar myndi maður því hallast að því að á endanum fá Framsókn eitthvað meira en mælingar gefa til kynna. En við vitum ekkert um hvað gerist fram til 2017 og hverju verður spilað út í kosningabaráttunnni þá. Við vitum ekki almennilega hver verða kosningamál þeirra kosninga. En það er ljóst að bæði Framsókn og forseti lýðveldisins hafa unnið sína síðustu kosningasigra með skírskotunum til þjóðernishyggju og tortryggni við Evrópusamstarfið. Kjörlendi þess var á árunum eftir Hrunið. Mér er til efs að sá jarðvegur verði jafn frjór árið 2016 og 2017.

Klofinn gagnvart ESB-aðild

ESB-aðild eða öllu heldur að almenningur fái að sjá samning um aðild og greiða atkvæði er mörgum kappsmál og bent hefur verið á að slit Gunnars Braga séu í hópi „lýðræðislegra banabita“ Gunnars Braga utanríkisráðherra ef svo mætti að orði komast – kannanir fóru að mæla mikinn kipp Pírata eftir það mál – hver er þín persónulega skoðun á aðild að ESB eða ekki?

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að Pírataáhrifin hafi verið komin af stað áður en þessi umsóknarslit komu upp og get reyndar sýnt það með gögnum um niðurstöður kannana. Því verði að grípa til fleiri skýringa en ESB æfinga Gunnars Braga og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar. Við skulum heldur ekki gleyma því að kannanafylgisaukning Píratanna er á kostnað allra hinna, ekkert síður Evrópuflokkanna Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. Í maí síðastliðnum voru allir aðrir þingflokkar en Píratar með lægstu mánaðarmælingu kjörtímabilsins! Ég tel mig nú vera óþægilega klofinn þegar kemur að afstöðu til ESB. Það myndu fylgja því margir kostir, en margt þyrfti að ná góðum samningum um eins og til dæmis sjávarútveginn og landbúnaðinn. Mér finnst þó persónulega að það hafi verið hreinn óþarfi að reyna að slíta þessu umsóknaferli formlega. Því ekki að eiga það virkt í skúffunni til síðari tíma brúks ef aðstæður eru aðrar eða vilji landsmanna stendur meira í þá átt en nú er?

Of snemmt að afskrifa BF

Fyrir rúmu ári var Björt framtíð einn helsti sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna 2014. Flokkurinn virðist nú vera að þurrkast út samkvæmt könnunum, hver er skýring þess?

Björt Framtíð var einn helsti sigurvegari síðustu sveitarstjórnarkosninga. Að vinna 11 fulltrúa í kosningunum var góður sigur, annað er ekki hægt að segja. Og BF hefur vissulega verið að tapa fyrra kannanafylgi. Nýjasta könnun MMR sýnir að þeir eru þó stöðugir í ca. 7%. Því er ein mæling upp á 3% eitthvað sem við skulum geyma að telja benda til þess að flokkurinn sé að þurrkast út. En fylgið hefur dvínað og flokkurinn hefur ekki flugið sem Píratar fá. Ætli Píratarnir hafi ekki stolið Jón Gnarr effektinum frá Bjartri Framtíð? Það er ekki ósennileg skýring. En við skulum þó spyrja að leikslokum með flokkinn. Hann er með fulltrúa kjörna í sveitarstjórnum víða um land. Bara sú kjölfesta og bakland getur fleytt flokkum áleiðis þegar kemur að þingkosningum.

Litlar sviptingar í akureyrskri sveitarsthórnarpólitík

Ef við horfum hingað til Akureyrar mældist í könnun um daginn fremur lítill áhugi almennings á bæjarstjórnmnálum, hátt í annar hver svarandi í netkönnun hafði ekki skoðun á því hvort meirihlutaflokkarnir stæðu sig vel eða illa – er það slæmt fyrir lýðræðið og kemur það á óvart hve almenningur er áhugalaus um pólitík?

Með undantekningunni frá 2010 þegar L-listinn sópaði til sín fylgi, óvænt, hefur nú ekki oft verið mikill hasar eða sviptingar í kringum pólitíkina hér á Akureyri. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að svo margir láti sér fátt um finnast. Það gæti líka verið birtingarmynd þess að engin sérstök mál séu að valda meirihlutanum miklum vandræðum. Að minnsta kosti ætti það þá að sjást í meiri viðbrögðum við spurningunni. Svo skulum við ekki gleyma því að kjörsókn í fyrra náði áður óþekktum lægðum og áhugaleysi og skeytingarleysi virðast vera þar að baki. Þetta tengist eflaust eitthvað viðvarandi vantrausti á Alþingi. En auðvitað eru þetta ekki góð tíðindi fyrir þá sem vilja virkt borgaralýðræði og áhuga á pólitík.

Hefur áhyggjur af öldruðum og öryrkjum

Hver væru þín skilaboð til stjórnmálamanna landsins ef þú hefðir aðgengi að helstu ráðamönnum í eins og einn dag?

Veit nú ekki hvort það á að vera í mínum verkahring að senda skilaboð af þessu tagi. Líklega best að ég höggvi í þann knérunn sem ég hjó í um daginn varðandi áhyggjur mínar af kjörum öryrkja og aldraðra og sendi ráðamönnum skýra orðsendingu um að þeir þyrftu að fara að gefa skýrari svör en áður hafa fengist varðandi ákvarðanir um þau kjör. Að mínu mati hefur það verið brýnasta mál yfirstandandi kjarasamninga að sátt náist um að nokkuð sem heiti laun undir 300.000 á mánuði fyrir fulla vinnu sé skilgreint sem það lágmark sem þegna þjóðfélagsins eiga að fá í sinn hlut. Annað jaðrar við útskúfun. Bótaþegar verða auðvitað að fylgja á eftir í þessu. Það verður að vera viðurkennt að okkar minnstu bræður þurfi ekki að geta á von á því að lifa eins og hundar og uppá ættingja komin. Þetta er forgangsmálið núna að mínu viti. Þetta verður atvinnulífið og samneyslan að viðurkenna og bera.

Hver yrðu skilaboð þín til þjóðarinnar?

„Think global, act local“, eins og Lennon sagði.

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur Jónsson

Akureyri vikublað 2. júlí 2015