Þrír nemendur frá Akureyri hlutu styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ.

???Þrír nemendur frá Akureyri tóku í síðustu viku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands.

Í umsögn um nemana þrjá segir:

Rósa Ingibjörg Tómasdóttir útskrifaðist frá Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir skemmstu. Hún hefur látið að sér kveða í tónlist og lokið miðstigsprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Rósa var afar virk í félagsstarfi Verkmenntaskólans og hefur einnig komið að kórstjórn í Glerárkirkju. Þá æfði hún sund norðan heiða í fjölmörg ár. Rósa stefnir á nám í læknisfræði.

Sigríður Diljá Vagnsdóttir brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri fyrr í júní með ágætiseinkunn. Hún er ættuð úr Þingeyjarsveit og hefur unnið á sauðfjár- og kúabúi foreldra sinna frá blautu barnsbeini. Sigríður fann sína háskólagrein, íslensku, á síðasta Háskóladegi í Háskóla Íslands og hyggst að loknu námi starfa sem íslenskukennari í framhaldsskóla.

Tryggvi Unnsteinsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri fyrr í mánuðinum. Hann hefur lagt stund á gítarnám ásamt því að sækja ýmis námskeið á vegum Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þá keppti hann á Ólympíuleikunum í eðlisfræði fyrir Íslands hönd í fyrra. Tryggvi kom á Háskóladaginn í Háskóla Íslands fyrr á árinu og þar tók hann ákvörðun um að innrita sig í nám í jarðeðlisfræði í haust.

???

Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir móðir Rósu tók við styrknum fyrir hönd dóttur sinnar.

???

Sigríður Diljá Vagnsdóttir ásamt Kristínu Ingólfsdóttur fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

???

Rúnar Unnsteinsson bróðir Tryggva tók við styrknum fyrir hönd bróður síns.