„Harkaleg og ólögmæt aðgerð“

Hörð deila er vegna uppsagnar eins af starfsmönnum Sýslumannsembættisins á Akureyri. Mynd: Völundur

Hörð deila er vegna uppsagnar eins af starfsmönnum Sýslumannsembættisins á Akureyri. Mynd: Völundur

Þorleifur Ananíasson, sem missti starf sitt hjá sýslumanni á Akureyri um síðustu áramót að sögn vegna sameiningar sýslumannsembætta, telur að hið opinbera hafi brotið á sér og komið illa fram þegar hann missti vinnuna, ári fyrir eftirlaunaaldur. Hann segir að uppsögnin hafi verið „harkaleg og ólögmæt“ aðgerð, þvert á vilja löggjafa þegar ákveðið var að sameina sýslumannsembætti en þegar sameining var samþykkt var gefið fyrirheit um að engir starfsmenn misstu störf vegna sameiningarinnar.

„Mér finnst einfaldlega óþolandi að gefast upp. Sýslumaður neitar að leysa málið þrátt fyrir tilraunir ráðuneytis til að fá hann til þess, en þeir segjast ekki geta sagt honum fyrir verkum. Það var kappsmál hjá ráðuneytinu að þessi sameining færi vel fram,“ segir Þorleifur.

Hann segir að það sem gert hafi baráttu hans svo erfiða frá upphafi sé að málið hafi skarast milli tveggja sýslumanna. Annars vegar Ásdísar Ármannsdóttur, sýslumanns áður á Siglufirði sem fyrir sameininguna var falið að gegna einnig embætti sýslumanns á Akureyri til eins árs eftir að Björn Jósef Arnviðarson fráfarandi sýslumaður lét af störfum um áramótin 2013-2014. Ásdís sagði Þorleifi upp en Svavar Pálsson tók við embætti sameinaðs sýslumanns um áramótin.

Vill ekki tjá sig að sinni

Ásdís vildi ekki tjá sig um deiluna á þessum tímapunkti þegar Akureyri vikublað bar ávirðingar Þorleifs undir hana. Svavar Pálsson sýslumaður á Norðurlandi er í sumarfríi, skrifstofustjóri sagðist þekkja málið en taldi ekki rétt að svara neinu að svo stöddu.

Þorleifur segir það staðreynd að honum hafi ekki verið boðið starf við nýtt embætti eins og gera átti samkvæmt lögum auk þess sem opinberum starfsmönnum beri að veita áminningu, hugsanlega tvær ef til stendur að segja þeim upp. „Þau nota hins vegar að mitt starf hafi verið lagt niður og ég hafi ekki viljað læra ný störf. Það er hein og klár lygi og orð gegn orði þar sem þau geta hvergi lagt fram nein gögn því til staðfestu.“

Leibbi

Þorleifur Ananíasson segist ætla að berjast út fyrir gröf og dauða fyrir réttlæti í kjölfar atvinnumissis. Hann ber sýslumenn þungum sökum en álitaefni virðist hvort uppsögn hans fól í sér brot á um að allir starfsmenn sýslumannsembætta héldu starfi sínu við sameiningu.

Mun berjast út fyrir gröf og dauða

Í bréfi sem Þorleifur sendi Svavari Pálssyni sýslumanni í vor boðar Þorleifur að hans máli fari senn fyrir Umboðsmann Alþingis. „Ég mun aldrei sætta mig við atvinnumissinn bótalaust og mun berjast út yfir gröf og dauða ef það er hægt þar sem ég tel þessa gjörð ósanngjarna og ólöglega hvað sem hver segir,“ skrifar Þorleifur þar.

Þorleifur segist í bréfinu eini starfsmaður gömlu Sýslumannsembætta landsins sem ekki fékk áframhaldandi ráðningu. Hann geti engan veginn trúað því að hann sé sá eini sem taldist óhæfur til strafs í nýju embætti. „Mér er vel kunnugt um að þið segið ástæðuna rekstrarlega og ekki hafi verið pláss fyrir mig. Sé svo þá stendur enn eftir sú staðreynd að ég fékk aldrei áminningu eða formlegt boð um nýtt starf.“

Upplifði niðurlægingu

Þorleifur segir aðmikil rafræn bréfaskipti hafi farið fram milli hans, sýslumanns, innanríkisráðuneytisins og SFR. Honum hafi verið sagt upp á síðasta degi septembermánaðar árið 2014 með þriggja mánaða uppsagnafresti. „Ég mótmælti þá þegar harðlega og taldi uppsögnina ólöglega og tæplega í verkahring Ásdísar þar sem Svavar væri að taka við embættinu og neitaði að skrifa undir plaggið. Þetta var á miðjum vinnudegi, ég kláraði daginn og þá þrjá mánuði sem fylgdu. Sá tími var ömurlegur. Ásdís var svo elskuleg að senda fljótlega öllu starfsfólki embættisins tölvupóst án þess að bera það undir mig, þar sem hún bað fólk um að vera gott við mig á þessum erfiðu tímum vegna uppsagnarinnar. Algjör niðurlæging að mínu mati. Smám saman voru verkefnin síðan tínd af mér og fljótlega gat ég lítið annað gert en mæta og sitja að mestu aðgerðalaus vikum saman. Þetta hefur síðan verið notað sem dæmi um að engin verkefni hafi verið fyrir mig hjá embættinu,“ segir Þorleifur og bætir við að síðustu daga hans hjá embættinu hafi verið „búið að flysja utan af mér allt sem hægt var og maður sat eftir eins og auli og varð að svara spurningum og meinlegum athugasemdum viðskiptavina sem þó vildu manni ekkert illt.“

Bar ríkinu að finna ný verkefni?

Sem fyrr segir vildi enginn innan kerfisins tjá sig um málið undir nafni á þessum tímapunkti. Blaðinu var við rannsóknarvinnu málsins bent á að sýslumenn teldu að mál Þorleifs væri hvorki dæmi um brot á ákvæðum um að ólögmætt sé að segja starfsmanni upp nema að lokinni áminningu né að uppsögnin hafi verið brot á lögum um að allir starfsmenn sýslumannsembætta héldu störfum við sameininguna. Hvað fyrra atriðið varðaði ættu áminningar aðeins við ef um brot væri að ræða en Þorleifi hefði verið sagt upp vegna verkefnaskorts, hluti af hans störfum hafi breyst í rafræn verkefni. Einnig hefði honum verið sagt upp fyrir sameininguna, en um það gætu skapast áhöld fyrir dómstólum þar sem sameining hafði verið ákveðin þegar Þorleifi var sagt upp. Þá er bent á að starfsmenn ríkisins séu með vel varinn rétt í svona málum og e.t.v. hafi það verið hlutverk sýslumanns að finna Þorleifi ný verkefni þegar rafrænar breytingar höfðu áhrif á störf hans. Það kunni því að verða dómstóla að meta hvort t.d. vel útfært og rökstutt hagsmunamat hefði átt að fara fram áður en niðurstaðan varð sú að segja Þorleifi upp. -BÞ

Akureyri vikublað 25. júní 2015