Ókeypis tónleikar

Sangit_Surabhi_1Um hvítasunnuhelgina, sunnudag 24. maí, heldur Songs of the Soul ókeypis tónleika í Hofi, þar sem flutt verður tónlist eftir Sri Chinmoy í flutningi 5 hljómsveita frá 5 löndum.

Songs of the Soul er tónleikaverkefni sem sérhæfir sig í flutningi á tónlist eftir Sri Chinmoy og hefur haldið tónleika í hátt í 40 löndum síðustu 7 árin. Tónleikarnir eru ávallt ókeypis og ávallt fjölbreyttir, en fjöldi hljómsveita víðsvegar að úr heiminum kemur fram og túlkar tónlist Sri Chinmoy á mismunandi hátt.

Á tónleikunum á Íslandi koma fram fimm hljómsveitir frá fimm löndum:

Sangit Surabhi er kvennahljómsveit frá Kanada sem einkennist af sannkölluðum englasöng og hjartnæmu samspili gítars og fiðlu.

Liðsmenn Sangit Desh koma frá Finnlandi og Kólumbíu og eiga bakgrunn í klassískri, djass- og söngleikjatónlist, en flytja nú andlega tónlist Sri Chinmoy á kraftmikinn og grípandi hátt.

Austrið mætir vestrinu í flutningi Pavaka & Parichayaka. Pavaka Ritchot var hluti af kanadísku rokksenunni á árum áður, en túlkar nú tónlist Sri Chinmoy með gítar og söng. Ásamt honum spilar Parichayaka Hammerl á indverskt harmóníum.

Blossoms er hljómsveit fjögurra systkina frá Austurríki, sem öll eru jafnvíg á fjölda hljóðfæra sem og söng.

Kyrrð og kraftur er hljómsveit Sri Chinmoy setursins á Íslandi. Tónlist sveitarinnar kristallast í nafninu, en hún leitast við að draga fram jafnt þann innri frið, sem og þann andlega kraft sem býr í tónlist Sri Chinmoy.

Akureyri vikublað 21. maí 2015