Fjöregg í fangi trölla

Íslensk náttúra er ómetanleg ósnortin. Þess vegna verður að fara varlega í að raska henni.Mynd: Völundur

Íslensk náttúra er ómetanleg ósnortin. Þess vegna verður að fara varlega í að raska henni.Mynd: Völundur

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra og þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, segir að ekki sé hægt að kalla það neitt annað en „hneyksli“ þegar stjórnin geri breytingar á Rammaáætlun sem verði til þess að svæði sem áður voru í bið verði virkjuð. „Það mun geysa styrjöld um þetta mál,“ segir Steingrímur.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir: Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra farinn í fýlu.

Þetta kom fram á opnum fundi á Akureyri um virkjanir og náttúruvernd í síðustu viku, fundi sem VG efndi til en var öðrum opinn. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, flutti framsögu. Hún var harðorð um þær breytingar sem gerðar hafa verið á Rammaáætlun, og sagði það „gríðarleg vonbrigði“ að horfa upp á hvernig það ferli sem tilraun hefði verið gerð um að ná sátt um væri nú orðið að einu helsta bitbeini þjóðarinnar.

Ómetanleg verðmæti í hættu

„Þetta er það mál sem hefur hvað helst skipt fólki í fylkingar,“ sagði Katrín og bætti við: „Ég hefði sjálf viljað setja miklu fleiri virkjanakosti í verndarflokk en varð að gefa eftir á sínum tíma. En nú er gengið svo fram af manni að það nær engu tali. Ráðherra byggir tillögu sína upphaflega á verkefnastjórn Rammaáætunar en svo bætast við breytingartillögur, fimm nýir kostir koma inn, þar af tveir sem voru aldrei kláraðir í undirbúningsvinnu. Þetta verða óafturkræfar aðgerðir en samt felast stórkostleg verðmæti í hinum ósnortnu víðernum okkar, hinum mestu í Evrópu. Þess vegna koma ferðamennirnir hingað. Þessi náttúra er hluti af okkur en hún stendur líka utan okkar. Við erum með svo mikil verðmæti að okkur ber að vernda þau og skila þeim áfram til næstu kynslóða.“

Fullt út úr dyrum. „Mannréttindafrekju öryrkjanna“ bar á góma á opnum fundi um orkumál og náttúruvernd á Akureyri í síðustu viku. Katrín Jakobsdóttir segir það ekki mannréttindamál þótt hún sé með gróðurofnæmi og geti því illa sofið í tjaldi úti í náttúrunni. Mynd: Völundur

Fullt út úr dyrum. „Mannréttindafrekju öryrkjanna“ bar á góma á opnum fundi um orkumál og náttúruvernd á Akureyri í síðustu viku. Katrín Jakobsdóttir segir það ekki mannréttindamál þótt hún sé með gróðurofnæmi og geti því illa sofið í tjaldi úti í náttúrunni. Mynd: Völundur

Margir tóku til máls á fundinum sem var fjölsóttur. Hörmung þótti að náttúruverndarsinnar þyrftu að verja tíma sínum í varnir gegn „rányrkju“ eins og einn gestanna orðaði það. Þá var rætt um náttúrupassamálið en það er „eitt furðulegasta mál“ sem Katrín Jakobsdóttir hefur orððið vitni að samkvæmt hennar eigin orðum á fundinum. „Ráðherra kom fram með málið, varði miklum tíma í það, gafst svo upp fyrir því í sjálfri framsögunni en segist samt enga aðra tekjuöflun vilja sjá – því þið eruð svo leiðinleg að vera ekki sammála mér!“

Sæstrengur myndi hækka raforkuverð innanlands

Mikið var rætt um fyrirhugaða línu um Sprengisand, ákall umhverfissinna að fá Landsnet tl að leggja jarðstrengi en ekki loftlínur þar sem því verður við komið, ekki síst nálægt Akureyri, það er Kröflulínu og Blöndulínu. Meint frekja Landsnets kom oft til umræðu, Landsnet og Landsvirkjun eru stofnanir sem kallaðar eru ríki í ríkinu. Umdeildar yfirlýsingar forstjóra þessarar tveggja ríkisfyrirtækja bar á góma og minnti Katrín Jakobsdóttir á að ýmis ummæli forstjóra Landsvirkjunar, féllu ekki án pólitískra heimilda frá iðnaðarráðherra. Þá var mikið spurt og rætt um hugmyndir á sæstreng til Evrópu. Fram kom í umræðu um sæstrenginn að miklar líkur væru vegna EES-skuldbindinga Íslendinga, að ef gott verð fæst fyrir útflutt rafmagn til Evrópu muni það hækka raforkuverð innanlands og auka álögur á almenna notendur innanlands. Ekki var þó laust við að fundargestir greindu örlítinn viðhorfsmun hjá Katrínu Jakobsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni gagnvart hugmyndinni um sæstreng. Katrín varaði við að hann yrði fjármagnaður af einkaaðilum en stofnkostnaður mun mikill.

„Hvað þyrfti mikla orku til að sæstrengur bæri sig? Tja, örfáir virkjanakostir í viðbót, segja sumir, en ef þessi risaframkvæmd verður að veruleika mun koma fram krafa um meira og meira rafmagn sem verður beintengd hækkun á raforkiverði innanlands. Ég vil stíga varlega til jarðar. Til að þessi sæstrengshugmynd gangi upp verðum við að framleiða gríðarlega orku. Þeir sem tala með því segja; Jæja, þá erum við ekki að leggja orkuna undir álver en við erum samt að leggja allt landiðð undir.“

Steingrímur J. Sigfússon sagði að ein rök með sæstreng væru hámarksnýting á orkunni í stað þess að geyma forða til vara fyrir stóriðjurnar í öryggisskyni vegna t.d. álframleiðslu, orku sem annars lægi dauð í kerfinu.“Þetta eru langsterkustu rökin fyrir sæstreng. Umhverfisflokkar í Evrópu, græn samtök í t.d. Hollandi og Bretlandi styðja sæstreng af því að það bæti nýtingu orku og minnki notkun á kolum og kjarnorku. Ísland býr þó ekki við sambærilegar aðstæður,“ sagði fyrrum fjármálaráðherra þjóðarinnar.

Steingrímur_J._Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon: Varar við ofríki Landsnets og frekju. Ný lög gætu fært orkugeiranum mikil völd til að vinna nánast allar rimmur við skipulagsyfirvöld sveitarfélaga ef upp koma deilur.

Landsnet nálægt alræðisvaldi með lagabreytingum

Einna fyrirferðarmest á fundinum var umræða um atlöguna að skipulagsvaldi sveitarfélaga sem felst í fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á lögum og í þingsályktunartillögu, breytingar sem munu auka vald Landsnets enn frekar og finnst mörgum yfrið nóg fyrir. Steingrímur J. Sigfússon sagði að staða fyrirhugaðar kerfisáætlunar Landsnets væri allt of sterk. „Landsnet mun ráða lögum og lögum um leið og þetta verður samþykkt. Ef fyrirhuguð breyting fer svona í gegn víkur skipulagsvald sveitarfélaga, þeim er þá skylt að samþykkja það sem Landsnet ákvarðar að gera og enginn kemur neinum vörnum við. Sveitarfélög verða svipt skipulagsyfirvaldinu.“

Frekja öryrkjanna?

Hólmsteinn Snædal smiður tók til máls og ræddi m.a. framtíð Sprengisands. Burtséð frá hagsmunum orkugeirans kom Hólmsteinn inn á það sem hann kallaði „mannréttindafrekju öryrkjanna“. Sumir í þeirra hópi væru farnir að krefjast þess að Sprengisandur yrði hjólastólafær. „Það þorir enginn að vera á móti þeim. Þarf ekki bara uppbyggðan veg yfir allan Sprengisand ef taka á þarfir allra með í reikninginn? Þarfir til að njóta hálendisins sjónrænt og fara þar um?“ Þessu svaraði Katrín Jakobsdóttir: Hún sagði að það sem beindist gegn tilteknum einstaklingum væri ekki endilega mannréttindi fjöldans. Margir landsmenn, ófatlaðir, ættu þess ekki kost að sjá hálendið af því að þá skorti bifreið eða tækifæri til þess. Sjálf væri hún með gróðurofnæmi og gæti illa sofið í tjaldi. Það væri ekki mannréttindamál í hennar huga.

Mannskepnan varasamasta aflið

Nokkuð var á fundinum einnig rætt um verðmiða á óspjallaðri náttúru. Doktor Edward Huijbens landfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, sagði að búið væri að leggja mælistiku á efnisleg gæði íslenskrar náttúru en gagnrýndi að Hagfræðideild Háskólans sem hefði unnið úttekt á málinu tæki ekki með í reikninginn það sem hann kallaði tilvistarstöðu mannsins gagnvart náttúrunni. „Náttúran er hluti tilvistar okkar –eigum við að reyna að verðleggja allt – ég held ekki!“

Edward Huijbens doktor í landfræði: Tilvistarstaða mannsins gagnvart náttúrunni.

Edward Huijbens doktor í landfræði: Tilvistarstaða mannsins gagnvart náttúrunni.

Edward Huijbens sagði það grundvallaratriði í allri umræðu um þessi mál að náttúran fengi að njóta vafans. Það hefði verið markmiðið með Rammaáætlun að setja þá kosti í biðflokk sem skoða yrði betur. Edward fór nokkrum orðum um getu mannskepnunnar til að umbylta landslagi. „Hún er svo gríðarleg orðin að við erum nú rædd sem jarðsögulegt afl. Maðurinn flytur orðið meira set með gröfum og vörubílum en allir rofþættir náttúrulegir samanlagt.“

Hann ræddi einnig græðgina sem nánast óseðjandi púka, vaxandi skriðþunga kröfunnar að umbylta náttúrunni í þágu meintra framfara, í þágu rafmagnsframleiðslu. „Alltaf þegar einhver vill stoppa segir annar: Nei, við verðum að fá meira. Þetta er orðið að trúarhyggju að virkja og virkja.“ Um ósnortnu víðernin hér á landi sagði Dr. Edward að þau minntu okkur á að til væri eitthvað sem væri annað og stærra en bara við.“

Náttúra í höndum trölla

Á fundindum kom einnig fram hörð gagnrýni á Orkustofnun. Mikið var rætt um að öll umhverfisframtíð Íslands væri meira og mina í höndum trölla, það er Landsnets, Landsvirkjunar og Orkustofnunar. Orkustofnun hefði dustað rykið af eldgömlum hugmyndum nýverið um að eyðieggja nokkrar af okkar bestu laxveiðiám. „Ég treysti Orkustofnun ekki hót – hún er í liðinu með þeim sem vilja sífellt ryðja brautir fyrir fleiri virkjanir,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Atvinnulífið vantar meiri orku

Fulltrúar atvinnulífsins kvöddu sér hljóðs á fundinum, t.d. Unnsteinn Jónsson, verksmiðjustjóri hjá Vífifelli á Akureyri. Hann sagði mjög aðkallandi að fá meira rafmagn, það væri arfavitlaust að brenna olíu í iðnaðarframleiðslu norðanlands eins og mörg dæmi væru nú um vegna raforkuskorts. „Fyrirtæki hér geta ekki aukið rafmagnsnotkun, það er að óbreyttu ekki hægt að lofa meira rafmagni. Við erum að reyna að skipuleggja næstu 10 ár vinnslunnar hjá okkur, en hugurinn stefnir e.t.v. til þess að tvöfalda orkuþörfina með meiri framleiðslu. Hvað eigum við að gera? Fáum við orkuna eða ekki? Það verður að vera hægt að landa því með fyrirvara hvernig við leysum þetta með rafmagnsskortinn,“ sagði Unnsteinn.

Sterk staða Alcoa fyrir austan

Áður hafði töluverðu púðri verið varið í umræðu um að almenningur og minni fyrirtæki myndu gjalda fyrir þær áherslur sem stjórnvöld hefðu á að selja stóriðjunni nægt rafmagn – á ódýrasta raforkuverði í heimi á sama tíma og risavaxin álfyrirtæki hér innanlands greiða engan tekjuskatt, hugsanlega með skattabrögðum eins og m.a. Kastljós hfur fjallað um. Þá er Alcoa orðinn meriháttar gerandi á Austurfjörðum, heldur utan um ýmis mál og éttindi, boðar sveitarstjórnarmenn á sinn fund. Kristján Þór Júlíusson, oddviti sjálfstæðismanna í NA-kjördæmi og heilbrigðisráðherra sat slíkan fund ekki alls fyrir löngu eins og fjölmiðlar hafa fjallað um.

Eruði á móti rafmagni?

„Það var ömurlegt þegar stjórnin kom upp í umræðum um jarðstrengi á þingi um daginn og spurði: „Eruð þið á móti rafmagni?“ Það gerir mann nánast galinn að alltaf sé reynt að selja orkuna á ódýrasta verði til stórfyrirtækja en á sama tíma er spurt: Ætliði bara að lifa á loftinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður þessa stjórnarflokks sem mesta áherslu hefur lagt á umhverfisvernd á Íslandi.

Einn fundargesta orðaði ástandið þannig: „Upp er runnin ögurstund og ábyrgð fjölmiðla er mikil í því að afhjúpa fyrirætlanir þeirra sem fara með völdin, eiga peningana og leggja endalaust fjöregg allra landsmanna undir, annað hvort í eiginhagsmunaskyni eða vegna óendanlegrar skammsýni og gamaldags viðhorfa.“

Leiðari Akureyri vikublaðs: Björn Þorláksson

Náttúruvernd Björn Þorláksson

Kokkur sem treður mat oní kok

Framlagning iðnaðarráðherra á þingmálum er varða flutningskerfi raforku; breytingu á raforkulögum og þingsályktun um raflínur þykir eitt dæmið um forneskjuleg viðhorf. Ráðherra vill með þessu lögfesta löngu úrelta stefnu Landsnets í jarðstrengjamálum, eins og Ólafur Valsson hefur orðað það í grein. „Stefna þessi hefur sætt mikilli og réttmætri gagnrýni og er hún á skjön við viðteknar og nútímalegri venjur annars staðar í heiminum,“ skrifar Ólafur Valsson sem hefur sem landeigandi hagsmuna að gæta að loftlínur raski ekki umhverfi hans.

Andri Snær Magnason, sem e.t.v. er þekktastur fyrir bók sína, Draumalandið, skrifar í færslu á facebook: „Rafmagns og hitareikningurinn minn í fyrra var um 240.000. Það er í sjálfu sér ekki mikið. Ef af hverju þarf hluti af þessum peningum að fara í ofstækisfullan HÁPÓLITÍSKAN lobbíisma sem krefst alvirkjunar Íslands? Hver er heimspekin á bak við þetta batterí SAMORKU? Af hverju þarf hitaveitunotandi á Suðurlandi að styrkja innrás inn á Hálendið? Af hverju þarf sá sem notar rafmagn að sýna einhverskonar undirgefni og hlýða í einu öllu þeim sem kann að framleiða rafmagn. Það er svipað og að vera með kokk í vinnu sem liti á það sem hlutverk sitt að troða mat ofan í kokið á okkur eins og hann væri að rækta foi gras. SAMORKA á að þjóna, hún á ekki að ríkja og stjórnin þar á öll að víkja.“

Akureyri vikublað 13. maí 2015