Akureyri vikublað á siglingu

BjörnÞeim bæjarbúum á Akureyri sem lesa Akureyri vikublað hefur fjölgað um fjögur prósentustig frá síðasta ári. Á sama tíma missa sjónvarpsdagskrárnar tvær, sem ekki búa yfir fréttatengdu efni töluverðan lestur. Hitt staðarblaðið á Akureyri, Vikudagur, stendur nánast í stað milli ára.

Þetta eru helstu niðurstöður úr netkönnun sem Háskólabrú Keilis vann en byggt er á svörum ríflega 700 Akureyringa. Spurt var: Hversu oft notar þú eftirtalda akureyrska fjölmiðla? Þegar prentmiðlarnir eru skoðaðir sérstaklega og niðurstöður bornar saman milli ára samkvæmt sambærilegri könnun Háskólabrúar Keilis sést að í mælingunni fyrir ári fletti fólk oftast Dagskránni vikulega, auglýsingaritinu sem Ásprent Stíll gefur út eða 73% Akureyringa. Dagskráin er enn mest lesin af reglulegri pappírsútgáfu á Akureyri en en missir sex prósentustig milli ára í lestri, fer úr 73% í 67%. N4 Dagskráin mældist í fyrra með 70% lestur í könnun Háskólabrúar Keilis en fellur nú niður um 4 prósentustig, fer í 66%. Vikudagur, sem er áskriftarblað, náði í fyrra til 24% bæjarbúa vikulega en bætir við sig einu prósentustigi milli árið þannig að fjórði hver bæjarbúi les Vikudag nú vikulega. Akureyri vikublað sem var hleypt af stokkunum síðla árs 2011, fríblað með gagnrýna fréttastefnu, mældist með vikulegan lestur hjá 42% bæjarbúa fyrir ári. Blaðið hefur nú bætt við sig 10 prósenta lestri milli ára eða fjórum prósentustigum, mælist nú með vikulegan lestur hjá 46% bæjarbúa. Hefur dregið saman um 10 prósentustig milli ára hjá Akureyri vikublaði og þeim pappírsauglýsingamiðli, Dagskránni, sem trónað hefur í efsta sætinu.

Volundurj-2013

Þóroddur Bjarnason prófessor segir það ögn sérkennilegt að auglýsingapésar hafi verið helsta upplýsingaveita Akureyringa, líkt og í litlum þorpum. En nú virðist orðin breyting á þar sem bæjarbúar fagna tilkomu ritstýrðra fréttamiðla

„Staðarfjölmiðlun virðist vera að sækja í sig veðrið á Akureyri, en lestur bæjarblaðanna ýmist eykst eða stendur í stað. Það er ekki að sjá að aukinn lestur Akureyrar vikublaðs sé á kostnað Vikudags, heldur virðist vaxandi eftirspurn eftir svæðisbundnum fréttum. Áherslur þessara tveggja fréttablaða eru líka ólíkar og þau gegna ólíkum hlutverkum í samfélaginu“, segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Hann telur ögn sérkennilegt að auglýsingapésar hafi verið helsta upplýsingaveita Akureyringa, líkt og í litlum þorpum. „Það er auðvitað arðvænlegt að prenta bara auglýsingar án þess að leggja í kostnað við fréttaefni, en slík útgáfa grefur undan rekstrargrundvelli fréttablaða og þar með almannarýminu. Þessi gamli tími gæti verið að líða undir lok.“

Að fréttablöð í héraði sæki í sig veðrið er ekki sjálfgefið ef horft er til minnkandi blaðalestrar á landsvísu. Sem dæmi um þróun fríblaðsins Fréttablaðsins má nefna að árið 2010 lásu 64% landsmanna Fréttablaðið á aldrinum 12-80 ára. Í apríl árið 2015 lásu 51% landsmanna Fréttablaðið sem er hrap um 13 prósentustig. Morgunblaðið, áður stórveldi, er nú með 28,3% lestur á landsvísu og DV 8,6%.

Vilberg Helgason kennari sem heldur utan um gerð könnunarinnar segir að rúmlega 700 manns hafi svarað ýmsum spurningum um samfélagið í póstnúmerum 600 og 603. Könnunin hafi verið opin á netinu í 5 daga. Til að viðhalda áreiðanleika hafi verið gerðar prufur til að sannreyna gildi könnunarinnar. Athuguð hafi verið tímaleg dreifing á bak við svör til að finna hvort óeðlilegar breytingar á niðurstöðum ættu sér stað. Eftir fyrstu 400 árin hafi svörin breyst lítið.

Akureyri vikublað 7. maí 2015