Gagnkvæmar ásakanir um einelti

Andrea Hjálmsdóttir og Hallur Gunnarsson sendu þegar árið 2009 kvörtun til skólayfirvalda Brekkuskóla þar sem þau fóru fram á að Snorri Óskarsson kenndi ekki dætrum þeirra. Skólinn varð við ósk þeirra. Engum kennara ætti að líðast að leggja hluta barna í einelti að mati Andreu og Halls.

Andrea  og Hallur, foreldrar barna við Brekkuskóla

Í viðtali við foreldra á Akureyri í síðustu viku kom fram sú skoðun að það mætti kalla það einelti fremur en kennslu af hálfu Snorra hvernig hann hafi gert mannamun milli samkynhneigðra og gagnkynheigðra skólabarna með viðhorfum símum og yfirlýsingum.

Hallur Gunnarsson og Andrea Hjálmsdóttir, foreldrar barna í Brekkuskóla sem fóru fram á við Brekkuskóla að Snorri kæmi ekki nálægt því að kenna þeirra börnum, sögðu þá m.a. þetta:

„Það skiptir gríðarlegu máli að öll börn fái rými til að máta sína kynhneigð án þess að verða fyrir aðkasti. Þá erum við ekki að tala endilega um að lifa kynlífi heldur kannast við eigin kenndir hverjar sem þær eru. Það er gríðarleg ábyrgð að vera kennari og ekki síst þegar skoðanir kennara eru meiðandi og fjandsamlegar ákveðnum hópi fólks, jafnvel foreldrum, systkinum, vinum eða ættingjum nemenda skólans. Þetta er ekkert annað er einelti kennara sem elur á fordómum. Við erum ekki að fara fram á að allir kennarar hafi sömu lífsskoðanir og við sjálf, fjölbreytileiki er góður og allt það, en viðhorf Snorra ganga lengra en nokkru tali tekur, þau eru mannfjandsamleg,“ sögðu Andrea og Hallur.

Snorri Óskarsson

Snorri Óskarsson

SNORRI VÍSAR TIL GRÓUSAGNA

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra sem féll 10. apríl síðastliðinn kemur fram að Snorri sem missti starf sitt vegna ummæla sem bærinn taldi ólíðandi fyrir minnihlutahópahópinn samkynhneigð börn, segir að sér hafi verið bolað úr starfi á grundvelli ólögmætra sjónarmiða. Snorri segir að í stefnunni sjálfri sé lýst rógburði í sinn garð um að hann hafi rætt við nemendur um skaðsemi samkynhneigðar og fyrir slíku bornar Gróusögur. Við þeim Gróusögum hafi bærinn brugðist með því að færa Snorra til í starfi og láta hann stunda svonefndan „yndislestur“ á bókasafni. Þetta hafi verið mjög niðurlægjandi fyrir Snorra. „Það að færa fólk til í starfi að ófyrirsynju sé talið skólabókardæmi um einelti á vinnustað. Þótt rót þessa hafi ef til vill verið hjá foreldrum hafi skólayfirvöld ákveðið að taka þátt í því með foreldrunum fremur en að fá þá á móti sér og hafi því gengið í lið með þeim. Hafi skólayfirvöld þannig orðið vond fyrirmynd börnum sem kennt sé að gera ekki slíkt. Næst hafi það gerst að foreldrar hafi kvartað yfir viðhorfum stefnda en ekkert hafi hins vegar komið fram um að hann hafi látið nein viðhorf í ljós sem kennari, ekkert liggi fyrir í málinu um það. Hafi á ný verið brugðið á það ráð að halda eineltinu áfram. Hafi þá verið ákveðið að tilteknir árgangar myndu ekki hitta stefnda á bókasafninu. Sé þetta dæmigert þegar um einelti sé að ræða,“ segir í dóminum um sjónarmið Snorra.

Málið snýst því einum þræði um gagnkvæmar ásakanir um einelti. Foreldrar barna í Brekkuskóla hafa ítrekað bent á þann mikla valdamun milli barna og kennara, eigin máli til stuðnings.

_MG_5271HVER ERU MÖRK HATURSÁRÓÐURS?

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir þetta um áfrýjun bæjarins til Hæstaréttar vegna dómsmálsins: „Akureyrarbær lagði mikla áherslu á stjórnsýslurétt, vinnurétt og mannréttindi, þar með talið tjáningarfrelsið og mörk þess með vísan til hatursáróðurs í málflutningi sínum í héraðsdómi. Akureyrarbær mun áfram leggja áherslu á þau réttindi og fá til aðstoðar lögfræðing eða lögfræðistofu sem hefur m.a. sérstaka þekkingu á þessum málum.“

Bæjarstjóri segir einnig: „Eins og fram kemur í bókun bæjarráðs þá telur bæjarráð afar brýnt að fá úrskurð Hæstaréttar um mörk tjáningarfrelsis kennara í grunnskólum og ábyrgð þeirra þegar kemur að umfjöllun um minnihlutahópa.“ –BÞ

Akureyri vikublað 30. apríl 2015