Snorri njóti vafa en ekki nemendur

Brekkuskóli á Akureyri

Brekkuskóli á Akureyri

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segist ekki geta tjáð sig  eftir Snorra-dóminn í síðustu viku fyrr en málið hafi verið kynnt fyrir fulltrúum í bæjarráði. Farið verði yfir niðurstöður málsins á fundi í dag.  Verður tekin ákvörðun um hvort dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra verður áfrýjað til Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum blaðsins eru allar líkur á að sú verði niðurstaðan.

Blaðið hefur rætt við fjölda fólks í innsta hring fræðslu- og stjórnkerfis á Akureyri. Furða flestir sem studdu uppsögn Snorra frá Brekkuskóla á sínum tíma sig á því sem kallað er „tækniáhersla héraðsdóms“. Dómurinn líti framhjá víðtækum samfélagshagsmunum sem hafi að gera með rétt minnihlutahópa til jafnréttis. Fólk er þó almennt fremur tregt á þessu stigi til að koma fram undir nafni.

Þetta mál snýst ekki bara um einhverja peninga fyrir bæinn. Þetta mál snýst um hvort manni í opinberri stöðu sé stætt á að hegða sér eins og Snorri hefur hegðað sér. Menn virðast svolítið líta framhjá því að dómurinn er verulegt áfall fyrir börn í grunnskólum landsins,“ segir aðili innan stjórnkerfis bæjarins sem fylgst hefur vel með málinu.

Samkynhneigðum börnum hættar við sjálfsvígum

Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna fram á að samkynhneigð börn á grunnskólaaldri eru í mun meiri sjálfsvígshættu í samanburði við gagnkynhneigð börn. Blaðið hefur eftir íslenskum prófessor í sálfræði að grein um þetta muni birtast í virtu fagtímariti á næstunni. Bærinn fór ekki þá leið fyrir dómi að reyna að kalla til vitni um það sem Snorri kann að hafa sagt innan veggja skólastofanna. Er nú reifað hvort sú ákvörðun bæjarins hafi verið mistök. Ítrekað hafa nemendur stigið opinberlega fram, sérstaklega á samskiptaforritum svo á facebook og sagt farir sínar ekki sléttar. Þeim hafi sárnað viðhorf Snorra til þeirra sem samkynhneigðra einstaklinga en Snorri telur samkynhneigð til syndar.

Gunnar Gíslason

Gunnar Gíslason. „Við verðum að fara að horfa þannig á málefni skóla að nemendur njóti almennt vafans. Því tel ég þessa uppsögn enn fyllilega réttlætanlega.“

Fyrrverandi fræðslustjóri ver ákvörðunina

Það var Gunnar Gíslason, fyrrverandi fræðslustjóri bæjarins,  nú bæjarfulltrúi og oddviti sjálfstæðismanna á Akureyri, sem sagði Snorra Óskarssyni upp störfum sem kennara. Það var eftir að Snorri hafði látið ummæli falla á bloggsíðu sinni um trú og samkynhneigð, ummæli sem talin voru afar niðrandi gagnvart samkynhneigðum. Blaðið sendi Gunnari fyrirspurn vegna dómsins. Í svari hans kemur m.a. fram að kjarasamningsbundin réttindi Snorra ráði mestu um niðurstöðu þessa dóms og ekki sé talið réttlætanlegt að vitna til samþykkta sem Akureyrarbær hefur sett s.s. mannauðsstefnu. „Þá verður ekki séð að siðareglur stéttarfélags hafi hér gildi heldur. Þetta er umhugsunarvert og hlýtur að vekja upp spurningar um gildi siðareglna og samþykkta sveitarfélaga um framkomu og hegðan starfsmanna almennt. Ég tel því að dómurinn lúti fyrst og fremst að því að verja rétt starfsmannsins á grundvelli kjarasamnings hans og þeirra réttinda sem hann veitir. Starfsmaðurinn er því látinn njóta vafans en ekki nemendur. Það get ég ekki fallist á, því við verðum að fara að horfa þannig á málefni skóla að nemendur, börn og unglingar, njóti almennt vafans. Því tel ég þessa uppsögn enn fyllilega réttlætanlega,“ segir Gunnar Gíslason.

Leiðari Akureyri vikublaðs: Björn Þorláksson

FRÉTTASKÝRING: Björn Þorláksson

Deilt um hæfi bæjarins

Héraðsdómur hefur eigi að síður dæmt að Akureyrarbær hafi brotið á Snorra. Uppsögnin hafi verið ólögleg og ef lokaniðurstaðan verður fyrir dómi að bærinn hafi brotið á Snorra virðist ljóst að Snorri eigi tugmilljóna kröfu á bæinn. Snorri hefur verið launalaus frá 1. janúar árið 2013. Hann segir málið byggja á fordómum gegn sér.

Margir hafa farið mikinn á netinu í kjölfar dómsins síðustu daga. Segir sem dæmi Jóhann Ólafur Halldórsson, blaðamaður og fyrrum ritstjóri Dags, í stöðufærslu á facebook: „Er ekki alveg hætt að vera fréttnæmt að Akureyrarbær fari á afturendann í dómsmálum? Mætti ekki fara að nefna það við yfirvöld bæjarins hvort ekki sé ástæða til að hrófla við þeim sem sjá um lögfræðilegar ráðleggingar fyrir bæjarfélagið? Nema kannski skattgreiðendur á Akureyri hafi svona gaman af því að bera kostnaðinn af þessari framhaldssögu.“

Sverrir Páll Erlendsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri, fetar aðra stigu í sinni færslu um málið á facebook: „Mér finnst sérkennilegt að það fólk telji sig kristið og trúað sem prédikar misrétti og dauðahótun þeim sem eru í minnihlutahópum. Slíkt getur ekki verið guði þóknanlegt. Mér finnst líka sérkennilegt að Héraðsdómur Norðurlands skuli með dómi sínum samþykkja einelti í skólum.

Snorri Óskarsson

Snorri Óskarsson. „Vill fá að kenna á ný. Hyggst höfða skaðabótamál.

Je suis Snorri?

Aðrir fagna dóminum og segja að brottrekstur Snorra hafi verið aðför að tjáningarfrelsinu. Þannig sé niðurstaðan íslensk útgáfa af „je suis Charlie“. Hvort sem Snorri hafi ógeðfelldar skoðanir eða ekki tryggi stjórnarskráin honum rétt til að tjá þær.

Snorri hefur lýst áhuga á að fá að snúa aftur til kennslustarfa. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er lítill áhugi á því hjá akureyrskum fræðsluyfirvöldum. Hefur verið horft til dómafordæmis þar sem menntastofnun var dæmd brotleg vegna ólögmætrar uppsagnar kennara en skólanum þó ekki gert að ráða aftur kennarann. Viðmælendur segja að um svo mikið hagsmunamál sé að ræða samfélagslega,  að allir hópar þjóðfélagsins sitji  við sama borð innan grunnskólanna,  að jafnvel séu miklar líkur á að farið verði með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu ef það mun einnig tapast í Hæstarétti. Mörg fordæmi séu fyrir því að MDE hafi dæmt íslenska ríkið brotlegt eftir að íslenskir dómstólar hafi einblínt of þröngt á persónuatriði í úrskurðum sínum fremur en að líta til breiðra almannahagsmuna og þá ekki síst jafnaðar borgaranna. –BÞ

Akureyri vikublað 16. apríl 2016