Lægsta hlutfall þjónustustarfa í Eyjafirði

Í Vesturbæ Reykjavíkur, störfuðu tæplega 90% við þjónustugreinar, en hlutfallið var lægst í Eyjafirði.Mynd: Völundur

Í Vesturbæ Reykjavíkur, störfuðu tæplega 90% við þjónustugreinar, en hlutfallið var lægst í Eyjafirði.Mynd: Völundur

Í Hagtíðindum Hagstofunnar má lesa ýmsar upplýsingar í Manntalinu árið 2011 sem er sameiginlegt verkefni allra aðildarlanda að Evrópska efnahagssvæðinu. Sambærilegt manntal var tekið um allan heim með sameiginlegri aðferðafræði að undirlagi Sameinuðu þjóðanna. Hagstofan setti saman nýja svæðaskiptingu til að gera betur grein fyrir niðurstöðum manntalsins. Landinu er skipt upp í 2 meginsvæði, höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Hvort meginsvæðið um sig er síðan skipt upp í 2 aðalsvæði. Höfuðborgarsvæðið samanstendur af Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur, en landsbyggðin af suðursvæði og norðursvæði. 3 talningarsvæði eru á Akureyri.

Þegar litið er til talningarsvæða kemur í ljós breytileiki milli svæða sem ekki hefur reynst jafnskýr þegar talnaefni af þessu tagi er gert upp eftir hefðbundinni skiptingu í sveitarfélög og landsvæði. Þannig er mikill mismunur á því hvar innflytjendur búa, eða hvernig menntunarstaða skiptist eftir búsetu. Þá er atvinnuþátttaka mismunandi eftir talningarsvæðum, sem og atvinnuleysi og við hvað menn starfa. Heimilis- og fjölskylduaðstæður eru nokkuð svipaðar um land allt, en mjög er misjafnt hversu margir búa í eignaríbúðum eftir talningarsvæðum.

STRJÁLBÝLAST Í ÞINGEYJARSÝSLUM

Að meðaltali búa um 7.500 á hverju svæði. Strjálbýlast er norðausturhorn landsins, Þingeyjarsýslur austan Eyjafjarðar. Þar býr að meðaltali 1 íbúi á hverja 4 ferkílómetra. Vesturbær suður í Reykjavík er hins vegar þéttbýlasta talningarsvæðið. Þar búa 5.110 íbúar á ferkílómetra. Alls bjuggu 93,8% mannfjöldans í þéttbýli í árslok 2011. Með þéttbýli er átt við þéttbýlisstaði þar sem íbúarnir eru 200 eða fleiri. Þetta hlutfall var yfir 60% á öllum talningarsvæðum nema tveimur, Þingeyjarsýslum austan Eyjafjarðar þar sem það var 55,4% og Skaftafells- og Rangárvallasýslum þar sem það var 56,9%. Alls voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu hinn 31. desember, þ.e. byggðakjarnar þar sem íbúar voru 200 manns eða fleiri.

HALLAR Á KONUR ÚTI Á LANDI

Langstærsti staðurinn var Stór-Reykjavík, þar sem bjuggu 197.565 íbúar. Næst fjölmennasti þéttbýlisstaðurinn var Akureyri og nágrenni með 17.638 íbúa. Kynjaskipting er misjöfn enda hefur loðað við landsbyggðir að konur flytjist burt á undan körlum. Á höfuðborgarsvæðinu var 981 karl árið 2011 á móti hverjum 1.000 konum, en 1.047 karlar á hverjar 1.000 konur á landsbyggðinni. Hlutfallslega voru karlar flestir í Fjarðabyggð og Suðurfjörðum þar sem voru 1.164 karlar fyrir hverjar 1.000 konur. Í Smáranum og Fífuhvammi voru hins vegar fæstir karlar að tiltölu við konur, en þar voru karlarnir 928 fyrir hverjar 1.000 konur.

Að meðaltali bjuggu 71,7% heimilanna í eignaríbúð hinn 31. desember 2011. Séreignarhlutfallið var hæst í Vestmannaeyjum, þar sem 84,6% einkaheimilanna voru í eigin íbúð. Lægst var það í miðborg Reykjavíkur þar sem 44,8% heimilanna voru í eignaríbúð. Ekki var teljandi munur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hvað þetta hlutfall varðar.

EYFIRSKT ATVINNULÍF GAMALDAGS

Þjónustugreinar eru algengustu atvinnugreinarnar á öllum talningarsvæðum landsins. Í Vesturbæ Reykjavíkur, norður og suður, störfuðu tæplega 90% við þjónustugreinar, en hlutfallið var lægst í Eyjafirði þar sem 53,1% starfandi fólks unnu í þeim atvinnugreinum. Á átta öðrum talningarsvæðum var þetta hlutfall undir 60% í lok árs 2011. Hlutfall starfa við landbúnað og fiskveiðar var hæst á Vesturlandi norðan Skarðsheiðar, 20,9% en Húnaþing og Skagafjörður fylgdu fast á eftir með 20,7%. Á landinu öllu var þetta hlutfall 5,9% hinn 31. desember 2011, 2,1% á höfuðborgarsvæðinu en 12,5% á landsbyggðinni. –BÞ

Akureyri vikublað 26. mars 2015