Að ganga

Sverrir Páll Erlendsson

Sverrir Páll Erlendsson

Aðsend grein Sverrir Páll

Vísir menn hafa sagt að það sé einhver hollasta líkamsræktin og ekki síður besta endurhæfingin að ganga. Þetta alþekkta fyrirbæri, að vera á tveimur fótum og færa þá reglubundið hvorn fram fyrir annan. Og ekki of hratt. Þá gæti maður óvart farið að hlaupa og það á ekki að gera nema ef maður þarf alveg sérstaklega að flýta sér eða ætlar að setja Íslandsmet í 200 eða 400 metra hlaupi, eins og Kolbeinn Höður nemandi minn. Síst dytti mér í hug að reyna að hafa roð við honum á spretti.

Nú er það svo að misjafnt hafast menn og konur að þegar gengið er. Sumir fá til dæmis þær furðulegu flugur í höfuðið að ganga helst alltaf upp á við og þvælast þá upp um fjöll og firnindi. Ég hef aldrei heillast af því sem heitið getur. Hef farið upp á Hólshyrnu (fjallið sem Japanir höfðu sem fyrirmynd þegar þeir bjuggu til Fusijama) og rölt upp á Hverfjall og Vindbelg, en aldrei til dæmis á Súlur, hvað þá Kerlingu, enda tiltölulega lítið upp á kvenhöndina. En nú er það svo að þeir sem fara upp verða að koma niður. Það er eitt af gagnlegustu eðlisfræðilögmálum sem ég hef um ævina lært að það sem fer upp hlýtur að koma niður, eins og skáldið í útlöndum sagði: „What goes up, must come down.“ Í því sambandi rifjast upp fyrir mér eitt sem pabbi sagði mér forðum. Einn af hinum fjölmörgu Jónum á Siglufirði var með pabba og fleirum í Fjáreigendafélagi Siglufjarðar. Þar var ekkert verið að díla með aflandskrónur, heldur var þetta félagsskapur rollukarlanna heima. Og þeir þurftu að reka á fjall á vorin og smala á haustin. Pabbi sagði mér að Jón hefði verið eins og fjallageit. Hann bókstaflega sveif að því er virtist fyrirhafnarlaust upp hvert fjallið á fætur öðru, en þegar fara átti niður komst hann varla úr spori, hnén leyfðu ekki svoleiðis álag. Best gekk honum niðurleiðin með því að ganga aftur á bak.

Hjá mér er ganga sem sagt eiginlega að mestu bundin við lárétt landslag eða að minnsta kosti ekki með lífshættulegum halla. Ég hef að vísu aldrei staðið við viðtækið heima og gengið í sömu sporum í Morgunleikfiminni, sem er einhver besti þáttur á gömlu Gufunni og bráðskemmtilegur í ofanálag. Skemmtilegust þykir mér æfingin: „Setjist á stólinn. Hafið bakið beint. Réttið svo upp handleggina og veifið örmunum frá hægri til vinstri…“ Þá sé ég ævinlega fyrir mér eftirlaunafólk, sem rífur armana af stólunum sínum og sveiflar þeim yfir höfði sér.

Úr Krossanesborgum.

Úr Krossanesborgum.

Nú haga atvikin því þannig að ég geng meira á sumrin en á veturna. Það á sér ýmsar skýringar, til dæmis þá að á sumrin er oftast vel fært um gangbrautir og stíga. Og það mega bæjaryfirvöld eiga að úrval gangbrauta og gangstíga hér um og við bæinn er með ólíkindum gott. Það hafa líka stundum verið gefin út kort með göngustígum, og mætti gera það oftar. Annars vegar er nauðsynlegt að hafa gott kort af gönguleiðum innan bæjar og í næsta nágrenninu og hins vegar kort af leiðum utan byggðakjarnans. Hjólamenn, sem áttu mikinn þátt í að leggja flókna og skemmtilega stíga um Kjarnaskóg, gáfu út kort, sem þyrfti að endurbæta og auka og gefa út aftur. Þar er afar skemmtilegt að ganga um, en þar er þó sá hængur á að maður sér ekkert nema tré og svo niður á stíginn og upp í himininn. Þess vegna mætti líka gefa út kort með gönguleiðum í Krossanesborgum, en þar er útsýni mikið, ber í móum, fuglar út um allt og listaverk náttúrunnar á öðru hverju strái. Eitt af þessum ævintýralöndum

Þeir sem eiga hund fara með hann út að ganga. Það er örugglega gaman að eiga hund, en það þarf að hafa fyrir því. Ennþá flóknara er það þegar fólk er með tvo, þrjá, fjóra hunda, sem vilja hver fara í sína áttina. En þessum útigöngum með hunda fylgir oftar en ekki hundaskítur. Það er ekki eins algengt og var að eigandinn láti skítinn eftir liggja, en kemur þó fyrir. Flestir taka afurðina í poka, en stundum er honum kastað inn í næsta garð eða blómabeð, inn fyrir girðingu á golfvellinum, ofan í skurð eða undir stein. Nábúi minn dró í hitteðfyrra allmarga hundaskítspoka út úr sprungu sem var í bílskúrsveggnum hjá honum. En það er þó ekki lengur eins nauðsynlegt og áður var að vera með augu á tánum til að stíga ekki ofan í dellu á gangbrautinni.

Ég er oftast einn á göngu og hlusta á raddir náttúrunnar. Um tíma gekk ég með músík í eyrunum en varð allt í einu leiður á því. Gangan og umhverfið gefa mér það sem ég þarf. Oft mæti ég einhverjum sem ég þekki og það er gaman, og það er líka gaman að mæta öðrum. Einhvern veginn finnst mér bæði rétt og kurteislegt að heilsa fólki sem ég mæti, en oft er eins og fólki þyki það óþarfa afskiptasemi, heilsar að minnsta kosti ekki að fyrra bragði. Kannski lít ég út eins og glæpamaður.

Vetrargöngur eru góðar en ég er ekki eins duglegur við þær. Hvort tveggja er að þá er oft ekki eins vel fært um gangstíga og á sumrin og stundum er hálkan ógurleg og ég er með verra bak en svo að ég þoli að detta eða rykkjast snöggt til. Nei, þetta er ekki aldurinn, bara bakið. En nú er eins og bærinn hafi eignast fyrirtaks apparat sem notað er til að moka gangstíga – og gerir það vel. Ég fór í göngu í yndislegu veðri síðast þegar hér var umtalsverður snjór og ég fylltist fögnuði og sælu yfir því hversu greiðfært var. Vel hreinsað og hálkuvarið breitt svæði til dæmis fyrir neðan Samlagið og ofan við Eikarlundinn, hjá Jólasveinabrekkunni og upp og niður með Miðhúsaveginum sunnan við Teigana. Það var gaman að ganga á svona vel ruddu. Um kvöldið fór á að vísu á tónleika niður í bæ og þá voru gangstéttarnar við Hamarstíg og Oddeyrargötu nánast ófærar. Mér datt í hug að þar væri notuð aðferðin sem ég sá á höfuðborgarsvæðinu um jólin. Þá komu smágerð moksturstæki og ruddu gangstéttarnar vel og vandlega. Skömmu síðar komu stórvirk tæki og mokuðu snjónum af götunum upp á gangstéttarnar!

Pistillinn birtist fyrst í Akureyri vikublaði 12. mars 2015