Nanna Lind sýnir í sal Myndlistarfélagsins

SjalfsmyndNanna Lind sýnir ljósmyndir í sal Myndlistarfélagsins  21. Febrúar klukkan 15:00-18:00 og sunnudaginn 22. febrúar 15:00-18:00.

Yfirskrift sýningarinnar – Sjálfsmynd – vísar til þess að hér eru ljósmyndir þar sem ljósmyndari og fyrirmynd eru ein og sama manneskjan.

Uppistaðan í sýningunni eru eins árs sjálfsmyndaverkefni sem unnið var frá 30. september 2007 til 29. september 2008. Þessi sýning er framhald og hluti af þessari „gömlu“ vinnu þegar ég lærði grunninn í ljósmyndun og vann að því hörðum höndum að ná tökum á tækinu sem ég var með í höndunum.

Samanlagt er hér um að ræða 520 myndir, þar af 500 smámyndir og er sú fyrsta tekin 20. júlí 2005 en sú nýjasta er frá 5. nóvember 2014.

10 sekúndur eru minn tímarammi. Í huganum hafði ég mynd sem síðan þurfti að útfæra og framkvæma á 10 sekúndum en það er sá tíma sem „self-timer-inn“ gefur manni. Það eru vissulega til leiðir fram hjá tímastillingunni en ég hef sett mér það sem markmið að ná að taka mínar sjálfsmyndir á sem styðstum tíma og í sem fæstum tilraunum.

Upphaflega voru flestar þessar myndir hugsaðar og teknar í lit en fyrir þessa sýningu ákvað ég að vinna þær upp aftur í svarthvítu.  Það er ákveðin sem áskorun felst í því að taka út bláan himinn og ljómandi jörð en útkoman er myndir sem endurspegla ljós og myrkur án lita.