Elísabet Geirmundsdóttir – Listakonan í Fjörunni

Volundurj-5986Fyrsta sýning ársins í Listasafninu á Akureyri er yfirlitssýning á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur. Þann 16. febrúar næstkomandi eru 100 ár frá fæðingu listakonunnar sem var að mestu sjálflærð en fékk tilsögn í gegnum norskan bréfaskóla auk nokkurra námskeiða hér á Akureyri.

Elísabet fæddist í Fjörunni eins og Innbærinn á Akureyri kallaðist þá og þar bjó hún alla tíð. Hún byggði þar hús ásamt eiginmanni sínum, Ágústi Ásgrímssyni, með stórum garði sem hún ræktaði af mikilli natni – allt frá matjurtum til skrautblóma. Elísabet og Ágúst eignuðust þrjú börn. Elísabet hafði einstakt næmi fyrir höggmyndalist og gerði styttur úr steinsteypu og tjörn í garðinn. Á veturna skapaði hún fögur snjólistaverk í garðinum og eru myndir af þremur þeirra á sýningunni. Einnig gerði hún styttur í gips og tré.

FJÖLBREYTTIR HÆFILEIKAR

Á sýningunni má sjá styttur Elísabetar (unnar úr ýmsum efnum), vatnslita- og blektússmyndir, teikningar, málverk og ljósmyndir af listakonunni. Hún samdi ljóð og lög og eru einhver laga hennar enn til í dag, skrifuð í nótum. Sjálf kunni hún ekki nótnaskrift. Bók um Elísabetu, Listakonan í Fjörunni, kom út árið 1989 gefin út af Delta Kappa Gamma – félagi kvenna í fræðslustörfum. Texti bókarinnar var unnin af Eddu Eiríksdóttur og reyndist bókin ómetanleg í vinnuferlinu við uppsetningu sýningarinnar.

Sýningin er fjölbreytt og gefur góða innsýn í listfengi og vinnusemi þessarar merku konu. Hún veiktist uppúr 35 ára aldri af heilaæxli og síðustu níu ár ævinnar má ætla að hún hafi verið kvalin. Hún náði að tjá hluta sorgar sinnar og kvala í sumum verka sýningarinnar og ljóðum í fyrrnefndri bók. Fyrri verk Elísabetar eru full af bjartsýni og glaðværð og því er sýningin ekki bara áhugaverð út frá öllum þeim efnislegu miðlum sem hún notaði heldur má segja að sýningin spanni tilfinningaskala lífsins; allt frá hreysti og lífsgleði til sorgar, örvæntingar og endaloka alltof stuttrar ævi.

Ásgrímur, annað barn Elísabetar og Ágústs, var um fermingu þegar hún kvaddi. Enn er merki Skautafélags Akureyrar það sama og hún teiknaði og Ásgrímur stílfærði síðar. Merkið sýnir Ágúst á skautum en þau hjónin þóttu eftirminnilegt skautapar, svo frísk, orkumikil og glæsileg. Á þeim tíma var Pollurinn oft ísilagður á veturna og stutt fyrir þau að fara og dansa saman á skautunum.

Dóttir Elísabetar, listakonan Iðunn Ágústsdóttir, opnar yfirlitssýningu í Listasafninu, Ketilhúsi 7. mars næstkomandi. Sýningarstjóri þeirrar sýningar er sonur Iðunnar, Eiríkur Arnar Magnússon myndlistarmaður, sem mun sama dag opna sýningu á eigin verkum í Mjólkurbúðinni auk þess sem barnabarn Elísabetar og nafna, Elísabet Ásgrímsdóttir, verður með í útskriftarsýningu Myndlistaskólans í vor. Þannig lifir listfengi „listakonunnar í Fjörunni“ augljóslega áfram í afkomendum hennar.

Kór Akureyrarkirkju er um þessar mundir að æfa lag eftir Elísabetu svo list hennar nær ekki bara til augna okkar bæjarbúa heldur einnig til eyrnanna.

SÝNINGARÖÐ Í VESTURSAL

Sýningin stendur til 8. mars og á sama tíma er í gangi sýningaröð sem inniheldur átta stuttar sýningar í vestursal Listasafnsins. Þessar sýningar opna á laugardögum á hefðbundinn máta kl. 15 og standa til fimmtudags en þá er haldið lokunarteiti (finissage) kl. 15. Þar gefst sýnendum tækifæri til að heyra viðbrögð áhorfenda við verkum sínum. Sýningarnar átta eru fjölbreyttar; listamennirnir bæði íslenskir og erlendir, skólagengnir og sjálflærðir, yngri og eldri. Sá sem kemur lengst að er frá Ástralíu, rétt útskrifaður úr námi og hefur dvalið í gestavinnustofu í Listhúsinu á Ólafsfirði. Hinir eru ýmist heimamenn eða hafa einhvern tímann búið á Akureyri. Sumar sýningarnar koma tilbúnar en aðrar eru í vinnslu allan sýningartímann og eru fyrst tilbúnar þegar lokun sýningarinnar á sér stað. Sýningadagskráin og formið eru nýtt stef í sýningahaldi á Ísland sem vonandi reynist hvetjandi fyrir bæjarbúa til að koma oft á safnið og skoða í leiðinni sýningu Elísabetar aftur og aftur. Oft breytist upplifun áhorfandans á sýningunni við endurtekið áhorf og nýjir hlutir koma í ljós.

Leiðsögn um sýningu Elísabetar er annan hvern fimmtudag kl. 12.15 – 12.45. Elísabet Ásgrímsdóttir mun fjalla um list ömmu sinnar á Þriðjudagsfyrirlestri í Ketilhúsinu þann 3. mars kl. 17. Aðgangur er ókeypis.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri.

Akureyri vikublað 12. febrúar 2015