Það vantar ærlegri umræðu

Úlfar Hauksson, vélstjóri, fræðimaður og baráttumaður fyrir inngöngu Íslands í ESB, þekkir sig hvað best í vélarrúmi Kaldbaks EA. Í hans lífi rúmast bæði hafið og háskólinn.

Úlfar Hauksson, vélstjóri, fræðimaður og baráttumaður fyrir inngöngu Íslands í ESB, þekkir sig hvað best í vélarrúmi Kaldbaks EA. Í hans lífi rúmast bæði hafið og háskólinn.

„Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég klára doktorsnámið, það býr ótrúlegur sjóhundur innra með mér en vissulega togast á í mér akademían og sjómennskan,“ segir Úlfar Hauksson þegar við setjumst niður með kaffibolla í miðbæ Akureyrar.

Það er ekki á hverjum degi sem blaðamaður mælir sér mót við mann sem er stjórnmálafræðingur, sérfræðingur í evrópusamstarfi og evrópurétti, fyrrum stundakennari við HÍ og meðal núverandi prófdómara við stofnunina, sem jafnframt hefur sitt lífsviðurværi af sjómennsku. „Mér finnst gott báðum megin, bæði á sjónum og í fræðimennskunni,“ segir Úlfar hressilega þegar við tyllum okkur niður á kaffihúsi á stilltum og fögrum vetrarmorgni og lepjum latte eins og alræmdir lopatreflar í 101!

Úlfar er fæddur 9. janúar árið 1966, Akureyringur. Pabbi hans var sjómaður og mamma hans verkakona. Sjálfur segist hann snemma hafa orðið jafnaðarmaður eftir að hafa horft í ýmsar og ólíkar áttir á yngri árum eins og gengur. Úlfar er eindreginn ESB-áhugamaður og segist vera það á grunni þeirrar þekkingar sem hann hefur aflað sér.

„Pendúll hugmyndafræðinnar sveiflast aðeins til og fer svolítið eftir málefnum hvar áherslurnar liggja en þær rúmast samt alltaf innan ramma jafnaðarstefnunnar sem höfðar best til mín. Að mínu mati á að nálgast öll viðfangsefni með almennar leikreglur og jöfn tækifæri að leiðarljósi. Frávik frá þessum gildum eiga að heyra til algera undantekninga og neyðar. Stundum finnst mér þó eins og að ég verði róttækari með árunum en það er nú líklega andrúmsloftið sem kallar á slíkt. Ég reyni þó að hafa skynsemina að leiðarljósi. Ég er markaðssinnaður, kýs frjálst og opið markaðshagkerfi en það þarf að vera reglustýrt, það gleymist stundum,“ segir Úlfar þegar ég bið hann að lýsa eigin pólitísku áru.

Akureyri Vikublaði leikur forvitni að vita hvers konar bakgrunnur skóp þá útkomu sem saman fer í fræðimanninum og vélstjóranum á Kaldbak. Um ræturnar segir Úlfar að hann sé þriðji í röð fjögurra drengja foreldra sinna, hann hafi æft íþróttir og hafi flust á milli hverfa. Hann hafi ekki verið sérstakur námsmaður sem barn, hafi klárað grunnskólann í Glerárskóla en svo þreifað fyrir sér í rafvirkjun. Hann fann fjölina sína þegar hann hóf nám í vélstjórn og öðlaðist full réttindi sem vélfræðingur. Það vekur athygli blaðamanns að vélfræðinámið er hátt í 10 ára ferli ef litið er til námstíma, tímans sem fer í sveinspróf og sjótíma sem þarf til að öðlast full réttindi. Í því ljósi má halda því fram að lærður vélstjóri á sjó hafi á bak við sig næstum eins tímafreka menntun og sá sem lýkur sérnámi í læknisfræði.

Mái hélt menntaðar ræður

„Mér er sjómennskan í blóð borin, ég fór fyrst á sjó með pabba 7-8 ára gamall, þá sem farþegi á Súlunni á sumarloðnu, þrjú sumur í röð. Þessir túrar voru ein til tvær vikur og þarna lágu leiðir okkar Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, fyrst saman. Ég er örugglega einn örfárra núverandi starfsmanna Samherjasamsteypunnar sem hef verið með Máa á sjó. Baldvin Þorsteinsson, pabbi Þorsteins Más, var þá skipstjóri á Súlunni og Þorsteinn Már var í sumarafleysingum samhliða námi Noregi og hélt menntaðar ræður yfir köllunum eins og honum bar skylda til sem menntuðum manni. Mér fannst þetta mjög spennandi líf að fara á sjó, við sigldum stundum allt til Jan Mayen og stundum sá maður móta fyrir Grænlandi úr fjarska. Veðrið var yfirleitt gott og bjartar nætur, ýmislegt spennandi brallað um borð. Sérstaklega er mér minnisstætt seinasta árið mitt, þegar ég er sennilega 10 ára, þá fékk maður að atast með körlunum um borð, dró nót og hífði spil. Út frá vinnuvernd og öryggi barna þætti það sennilega ekki gott í dag,“ segir Úlfar og glottir.

Á daginn kemur að Úlfar hefur verið á sjó meira og minna síðan hann var 16 ára gamall. Sem háseti á Sléttbak fer hann fyrsta túrinn. Svo mikil var einurðin að hann lét það ekki aftra sér að sama dag og hann átti að fara á sjóinn meiddist hann í íþróttakeppni, fór illa úr lið á fingri. „Læknirinn sem meðhöndlaði meiðslin sagði að ég ætti að hafa hægt um mig í tvær vikur“. Ekki varð Úlfar við því, enda hafði hann lengi beðið fyrstu launuðu sjómennskunnar. Í stað þess að fara heim og slaka á gekk hann um borð í skipið og beint í 14 daga túr. „Ég lét mér ekki segjast.“

UlfarHefur lent í þremur ásiglingum á sjó

Ekki verður sagt að sjómennska Úlfars hafi orðið tíðindalaus. Ber þar hæst að Úlfar hefur í þrígang lent í árekstri við önnur skip úti á sjó. Í fyrsta skipti var hann í loðnutúr um borð í Súlunni norðan við land í þokusudda.

„Við vorum nýbúnir að taka inn nótina, ég í koju sofandi þegar ég vakna við að annað loðnuskip hafi siglt á okkur og setti gat á Súluna og nuddaði fram eftir allri síðu.“ Enginn meiddist og hægt var að sigla í land.

Önnur ákeyrslan varð nokkru síðar þegar Úlfar var á nítjánda ári. Þá var hann um borð í Harðbak sumarið 1984 og mátti litlu muna að illa færi. „Við fengum eitt stykki sovéskt farþegaskip í síðuna vestur á Strandagrunni. Við vorum á veiðum, nýbúnir að kasta trollinu í svarta þoku. Allt í einu birtist skip á radarnum og stefnir á okkur á fullri ferð. Reynt var að kalla skipið uppi en allt kom fyrir ekki. Svo fáum við þetta risaskip, með rauða stjörnu, hamar og sigð í stafnmerki, af miklum krafti á okkur og við höggið lagðist Harðbakur á hliðina. Það var algjör mildi að sá sovéski skyldi ekki sökkva okkur. Harðbakur var á þessum tíma stærsta skipið í flotanum og segja má að við hefðum legið vel við höggi og verið rétta skipið til að taka það á okkur. Flest önnur hefðu sennilega orðið hafsbotninum að bráð. Þetta var svaka ákeyrsla, við gátum siglt í land en skipið stórskemmdist,“ segir Úlfar og útskýrir fyrir blaðamanni í áframhaldinu að siglingatæki hafi á þessum tíma ekki verið öruggari en svo að slys sem þessi gátu hent í vondu skyggni án fyrirvara.

Aftur kom Harðbakur við sögu og enn var Úlfar staddur á Strandagrunni þegar hann upplifði þriðja áreksturinn á sjó. Það var í svokölluðu reglugerðarhólfi sem nýbúið var að opna og mikið gekk á við veiðar.

„Við vorum nýbúnir að hífa og komnir á smá ferð. Ég var nú orðinn nokkuð vanur svona uppákomum og þegar sett var á fulla ferð afturábak vissi ég hvað klukkan sló og sagði við skipsfélaga mína að nú værum við að lenda í árekstri. Þarna keyrðum við á Frosta frá Grenivík og það sem meira var að bróðir minn var þar stýrirmaður í brú og þegar Frosti skoppaði aftur með síðunni á Harðbak horfðumst við bræður í augu. Það var nokkuð sérstakt. Það kom smá gat á Harðbak en að öðru leyti fór þetta nú allt vel. En auðvitað er það með nokkrum ólíkindum að sami maður skuli lenda í þremur ákeyrslum á sjó því þær eru nú sem betur fer sjaldgæfar.“

Ég spyr Úlfar hvort hann hafi þrátt fyrir þessi skakkaföll og þrátt fyrir að hafa margsinnis lent í illviðrum á sjó aldrei borið ugg í brjósti úti á hafi. Hann segist ekki minnast þess að honum hafi liðið eins og í lífshættu en eigi að síður sé sjómannsstarfið stundum varasamt. „Sem dæmi höfum við á Kaldbak verið að sækja á Noregsmið í Barentshaf hluta úr ári og ýtum væntalega fljótlega úr vör og siglum yfir Atlantsála. Það er stundum strembin sigling. Við ferðumst yfir eitt erfiðasta hafsvæði heims á alversta árstíma hvað varðar líkur á illviðri og ísingu. Ef eitthvað gerist mitt á milli Noregs og Íslands þá verðum við ekkert sóttir. En ef maður væri stöðugt að velta sér upp úr slíku væri maður ekki í þessu starfi. Annars eru öryggismál sjómanna mun betri í dag en þegar ég byrjaði til sjós.“

Frá hafinu yfir í háskóla

Úr ólgusjó Ægis, vindum við okkur yfir í önnur höf, djúp mennta og fræða.

„Ég hef alltaf verið bókhneigður, hef alltaf haft gaman að sögu, samfélagsfræði, landfræði og útiveru. Það æxlast svo þannig að þegar ég var loks kominn með öll vélstjóraréttindi og búinn að ráða mig á Harðbak ákveð ég að venda kvæði mínu í kross, segi upp starfinu á sjónum og byrja í háskóla. Leiðin liggur fljótt í stjórnmálafræði sem lá vel fyrir mér. Einhver sagði að stjórnmálafræði væri eins og sagnfræði með skýringum. Það hentar mér og mínu áhugasviði mjög vel.“

Römm er sú taug sem rekka dregur og tryggðarbönd Úlfars við sjóinn rofnuðu ekki. Í háskólanámi sínu lagði Úlfar áherslu á að rannsaka sjávarútvegsstefnu ESB með hugsanlega aðild Íslands í huga. Hann kláraði BA-nám frá HÍ og síðar MA-gráðu í Evrópufræðum, með Evrópurétt sem valfag, frá KU Leuven í Belgíu. Að loknu MA-námi gaf Úlfar út bók, “Gert út frá Brussel?”, byggða á lokaritgerðunum sínum um sjávarútvegsstefnu ESB. Hann bendir á að Ísland tengist Evrópulöndum tryggðarböndum, við sækjum okkar menningararf þangað, öll okkar stjórnsýsla byggist upp á evrópskum hefðum og því hafi rannsóknarefnið verið lógískt, ekki síst vegna þeirra tengingar sem hann hafi haft við sjómennskuna. Um svipað leyti og Úlfar kemst að því að Ísland eigi heima í ESB og að sjávarútvegur ætti ekki að verða fyrirstaða samnings fer hann að skrifa greinar í Moggann og tala fyrir ESB-aðild. Hann lendir fljótlega í útistöðum við andstæðinga ESB-aðildar svo sem Ragnar Arnalds fyrrum ráðherra og þingmann. Síðan hefur fátt breyst að hans sögn. „Því miður hefur Evrópuumræðan hér á landi nánast ekkert þróast á þeim 20 árum sem liðin eru síðan ég fór fyrst að skrifa um þessi mál. Umræðan er jafn yfirborðskennd og áður.“

Alið á ótta í nafni nasjónalisma

-Ein þeirra skýringa sem nefnd hefur verið sem fyrirstaða gegn aðild að ESB er þjóðernishyggja, ertu sammála því?

„Já, þar er sterkur snertiflötur, auðvitað eru margar skýringar á þessari umræðu sem mér finnst oft markast fremur af fáfræði og sleggjudómum en skynsemi. Þjóðernishyggjuþátturinn virðist einn gildasti þráðurinn í umræðunni, það er alið á sérstöðu okkar Íslendinga og alið á ótta um að eitthvað verði tekið frá okkur. En ættum við að þurfa að óttast örlög okkar innan ESB? Þjóðum sem gengið hafa í bandalagið hefur undantekningarlaust vegnað vel innan sambandsins þótt átök og ágreiningur séu innan bandalaga á öllum tímum. Þetta á við um Grikkland sem og aðrar þjóðir þó að Grikkir sigli ólgusjó nú um stundir. Heilt yfir hefur þetta samstarf í sögulegu ljósi gengið afar vel og sérstaða okkar er ekki meiri en svo að það sem hefur reynst vel hjá nágrannaþjóðum okkar reynist vel hjá okkur þegar upp er staðið og á reynir.“

Úlfar segir óumdeilt að EES-samningurinn árið 1993 hafi fært Íslendingum gríðarlegar réttarbætur, ekki síst á sviði neytenda- og málskotsréttar. “Svanur Kristjánsson prófessor hefur sagt að EES-samningurinn hafi fært Íslendingum meira lýðfrelsi en minna lýðræði af því að kjörnir fulltrúar okkar taki ekki ákvarðanir með hinum ESB löndunum um mál sem okkur varða, vegna þess að við erum ekki aðilar að ESB. Og varðandi áhrif smáþjóða þá hafa þau sterka rödd og áhrif innan ESB í skjóli sérþekkingar. Um það eru mýmörg dæmi.”

En hvað segir Úlfar um þau rök sem iðulega heyrast í opinberri umræðu að ein ástæða andúðar á ESB sé að hagsmunaaðilar, og önnur ráðandi öfl, sem þyrftu að mæta nýjum áskorunum ef Ísland gengi í ESB, geri sér far um að ala á ótta borgaranna, ekki vegna þess að þeir séu sjálfir fullir af þjóðernishyggju heldur vegna þess að þeir séu klókir?

Lítil framtíð í íslensku spillingunni

„Jú, kannski er eitthvað til í því en það er mikill misskilningur ef þjóðin heldur að það sé betra að halda í séríslenskt sérgæslukerfi sem er í raun ekkert annað en spilling en að ganga í ESB. Hagur Íslendinga myndi batna við inngöngu, annað er misskilningur. Eflaust er auðvelt að ná til hluta þjóðarinnar með því að nálgast hjartaræturnar á grunni þjóðernishyggju, ræða endalaust hve sérstök við séum og nota ýmis óttarök og ala á andúð. Það eru hagsmunir sumra að hafa óbreytt ástand en í mínum huga er óumdeilt að hagur hins almenna Íslendings myndi batna við aðild að ESB og gefa okkur grunn til að ná langþráðum stöðugleika. Það munu skapast ný tækifæri, bæði í verslun og þjónustu, í sjávarútvegi og landbúnaði. Samt er orðræðan alltaf sú sama. Það er alið á tortryggni gagnvart öllu sem að utan kemur. Það var alið á tortryggni gegn EFTA, alið á tortryggni gegn EES og núna gegn ESB. Orðræðan er sú sama.“

Eitt af því sem ESB-andstæðingar hafa haldið á lofti er að Vinstri stjórnin hefði betur byrjað á að láta samningamenn Íslands reyna að ná lendingu við ESB vegna sjávarútvegsins fremur en að geyma stærsta málið þangað til síðast. Aðspurður segir Úlfar um þetta: „Það hefði verið á skjön við alla samningatækni að taka erfiðasta málið fyrst. Þú mætir ekki til fundar við samninganefnd sem þú þekkir ekki og byrjar á erfiðasta málinu. Ég hefði gert það sama og íslenska samninganefndin, ég hefði tekið sjávarútvegspakkann síðast. Menn byrja á að leysa þau mál sem ekki þarf mikið að fjasa um. Þá myndast traust og þá er kominn grunnur til að ræða þau mál síðar sem þarf að leysa með samningum.“

-En ertu sem sagt skilyrðislaus áhugamaður um inngöngu í ESB? Sérðu engin ljón í veginum?

“Ég svara því hiklaust eftir að hafa rannsakað þessi mál að ég styð aðild. Það er margt sem bendir til þess að við gætum farið í ESB-viðræðurnar á grunni þess að við gætum náð sérsamningi um sjávarútveg. Hingað til hefur ekkert umsóknarríki sett sjávarútvegsmál á oddinn. Hins vegar hafa öll umsóknarríki náð sérákvæðum í sína aðildarsamninga. Ég hef nú orðað þetta þannig að sjómenn hafa aldrei sótt um aðild að ESB. Nú er kominn tími til að reyna á það og ná fram sérsamningi á þessu afmarkaða sviði.“

Skiptar skoðanir um borð

-Nú dettur manni í hug að skoðanir þínar um ESB gætu mætt andstöðu skipsfélaga þinna. Líður þér aldrei eins og gauksunga um borð í Kaldbak, að vilja ganga í ESB sem sumir tengdir sjávarútvegi líta nánast á sem landráð, svo aftur sé vikið að þjóðernisorðræðunni?

„Það er klárt mál að skoðanir eru mismunandi meðal sjómanna eins og í öðrum stéttum um hvort við eigum að ganga í ESB eða ekki. Mínir skipsfélagar eru svo sem ekkert að ræða þessi mál mikið en það eru alls staðar skiptar skoðanir byggðar á misgóðri þekkingu og misgóðum upplýsingum. Og mér ber skylda til sem menntuðum manni að halda menntaðar ræður yfir köllunum á Kaldbak. Og ég efast ekki um að þeim mun finnast þessi samlíking við gauksunga sniðug og ég á eftir að heyra hana glymja í mínum eyrum.”

Ónýt peningastefna

Hver eru brýnustu vandamálin sem við stöndum frammi fyrir núna utan aðildar, vandamál sem mögulega gætu orðið úr sögunni með aðild? Er þér peningastefna okkar Íslendinga að óbreyttu e.t.v. efst í huga?

„Já, það er klárt mál að það umhverfi sem okkur er boðið upp á í dag og varðar peningastefnuna er ekki alþýðu Íslendinga bjóðandi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvernig ástandið kemur niður á almenningi með lágum launum, háum vöxtum, rússíbanahagkerfi og því öllu, því þótt það sé svikalogn núna gefur það engin fyrirheit um lausnir til framtíðar. Við erum í höftum og nú eru mörg stórfyrirtæki að hugsa sér til hreyfings vegna gjaldeyrishaftanna. Það segir sig sjálft að lánakjör á íbúðamarkaði eru hrikaleg, menn teygja sig alla leið til Kanada eða Nýja Sjálands í leit að öðrum gjaldmiðli en hinum augljósa sem að mínu viti er evran. Evran er ekki fullkomin gjaldmiðill – ekki frekar en aðrir gjaldmiðlar en upptaka evru myndi skapa stöðugleika og bæta lífsgæði. Með því að halda íslensku krónunni sé ég ekki að það geti hyllt undir góðar og varanlegar breytingar. Krónan uppfyllir í raun ekki þær kröfur sem gerðar eru til gjaldmiðils. Hún er ekki mælikvarði á styrk eða veikleika hagkerfisins og hún er ekki mælikvarði á verðmæti. Hún er í raun skömmtunarseðill sem einungis er brúklegur innanlands á vöru og þjóunstu og í höftum. Það vantar ærlegri umræðu um hvað krónan kostar okkur mikið. Við höfum áður lifað við haftakerfi, fólk í fullu fjöri man þá tíð. Það var hægt að búa við höftin en mikill herkostnaður fylgir þeirri leið. Hinn kosturinn er að gerast aðilar að ESB og taka upp evru í fyllingu tímans. Aðrir möguleikar eru ekki raunhæfir. Menn eiga ekki að tala þannig að krónan geti aftur orðið að fljótandi mynt í viðskiptum þjóða í milli. Í besta falli verður hægt að létta höftum fyrir suma, þ.e. með sértækum aðgerðum á afmörkuðum sviðum, sem mun ala á spillingu og mismunun. Menn eiga að tala ærlega og menn verða að byrja á að spyrja: Viljum við vera þjóð í haftakerfi eða viljum við opið hagkerfi. Um það snýst valið.“

Lýkur þar með spjalli okkar Úlfars um háskóla og hafið – sem þegar vel er að gáð – verður ekki sundur skilið.

TEXTI Björn Þorláksson

MYND Völundur Jónsson

Viðtalið birtist í Akureyri vikublaði 5. febrúar 2015