Dagur tónlistarskólanna og óperan Mærþöll

Maertholl_myndTónlistarskólinn á Akureyri heldur upp á dag tónlistarskólanna í Hofi þann 14. febrúar næstkomandi.  Hof mun iða af lífi og tónlist þennan dag en dagskráin hefst með söng í Hamragili kl 12:45. Klukkan 13 hefst svo hljóðfærakynning og hljóðfærasmiðja opnar jafnframt. Fernir tónleikar verða í Hömrum; kl 13, 14, 15 og 16 þar sem m.a. koma fram strengja- og blásarasveitir auk fjölda annarra atriða og verður fjölbreytnin í fyrirrúmi.  Ókeypis er á alla tónleikana, kynningarnar og smiðjurnar og eru allir hjartanlega velkomnir til okkar.

Klukkan 20 um kvöldið heldur söngdeild skólans svo sitt fjórða óperublót. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikið í lagt. Daníel Þorsteinsson stjórnar tæplega 30 manna hljómsveit og Ívar Helgason leikstýrir hópnum í óperunni Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur en þetta er í fyrsta sinn sem íslensk ópera er flutt í Hofi.

Mærþöll er  byggð á gömlu ævintýri. Í sögunni um Mærþöll kynnumst við þremur álagaglöðum álfkonum, sorgmæddri hertogafrú, vitgrönnum hertoga, ágjörnum féhirði, latri vinnukonu, kúski og kærustunni hans. Ekki má gleyma hinum hrifnæma prinsi Pétri og hertogadótturinni Mærþöll sem getur grátið gulli, þótt það sé álitamál hvort það færi henni hamingju. Sagan höfðar bæði til barna og fullorðinna; gleði, sorgir, ástarmál, álög og óvæntar uppákomur.

Miðaverð á Mærþöll er kr. 1500 og miðasala er á www.menningarhus.is