Ólík viðbrögð háskóla við alvarlegum ritstuldi

Úlfar Hauksson

Úlfar Hauksson

Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur og sjómaður á Akureyri, segir að það hljóti að vera áleitin spurning hvort Háskóli Íslands hafi árið 2001 brugðist rétt við þegar skólinn komst að þeirri niðurstöðu að framinn hefði verið ritstuldur með lokaverkefni frá lagadeild skólans. Höfundi ritgerðarinnar var gert að skrifa nýja ritgerð en hann hafði þegar útskrifast þegar stuldurinn komst upp. Úlfar Hauksson var maðurinn sem stolið var frá. Hann stígur nú opinberlega fram í fyrsta skipti og ræðir málið.

Úlfar segir að upp úr eigin rannsóknum á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafi hann unnið nokkrar greinar til birtingar í blöðum og tímaritum auk þess að skrifa almennt um Evrópumál. Á þessum tíma var Úlfar í góðu sambandi við Aðalstein Leifsson, sem þá var fulltrúi Íslands á sendiskrifstofu ESB í Osló, og sendi honum gjarnan greinar til yfirlestrar. Aðalsteinn hafi svo hringt í Úlfar þar sem hann var við nám í Belgíu og sagt að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson væri að skrifa kandídatsritgerð í lögfræði þar sem hann ætli sér að skoða svipaða hluti og Úlfar út frá fræðikenningum í lögfræði. Aðalsteinn hafi spurt Úlfar hvort það væri í lagi að hann myndi senda Vilhjálmi efni sem hann hefði í sínum fórum eftir Úlfar og benda Vilhjálmi á lokaritgerð Úlfars til afnota sem heimildir. „Ég gaf að sjálfsögðu leyfi til þess,“ segir Úlfar.

Fyrir tilviljun árið 2001 þegar Úlfar var að leggja drög að bók hafi hann átt erindi á Þjóðarbókhlöðuna og fletti þar upp í ritgerð Vilhjálms, en hann hafði fengið ábendingu um að það gæti verið fróðlegt án þess að frekari skýringar fylgdu. „Það er svo ekki flóknara en það að þegar ég opna ritgerðina sé ég orðréttan texta eftir mig án þess að nokkurrar heimildar sé getið og engar heimildir yfir höfuð, blaðsíðu eftir blaðsíðu. Þetta var mjög skrýtin upplifun,” segir Úlfar.

Hann tekur fram að þetta hafi honum þótt frekar fyndið til að byrja með en eftir umhugsun og eftir að hafa borið málið undir aðra og gert sér grein fyrir alvarleika málsins, hafi hann ákveðið að senda forseta lagadeildar HÍ bréf. „Nokkrum dögum síðar hefur Vilhjálmur svo samband við mig og vill hitta mig yfir kaffibolla. Við mælum okkur mót og það kemur á daginn að hann vill endilega að ég dragi kvörtun mína til baka. Ég svaraði honum að málið væri ekki lengur í mínum höndum. Á þessum tíma er Vilhjálmur töluvert mikið í Séð og heyrt, hann var þekktur. Þetta var á fimmtudegi ef ég man rétt og hann stingur upp á samkomulagi um að við tveir heitum því að ræða að minnsta kosti ekki málið að svo stöddu í fjölmiðlum. Kvöldið eftir er ég að horfa á sjónvarpið og hver er þá annar mættur í Ísland í dag en Villi sjálfur! Þar vísaði hann öllu á bug og fer að væna mig og fleiri um að fara með misjöfnum hætti með heimildir. Opinber umræða fer svo öll að snúast um hvort verið sé að ráðast á Villa.

Úlfar segir að Vilhjálmur hafi ítrekað sagt ósatt næstu daga. Hefðu það sem Úlfar kallar lygar Vilhjálms e.t.v. aldrei verið afhjúpaðar nema vegna þess að Aðalsteinn Leifsson hafi átt afrit af öllum tölvupóstum þar sem fram kom að málflutningur Vilhjálms hélt ekki vatni. „Þar kom skýrt fram að Aðalsteinn hafði nefnt að greinarnar væru eftir mig, greinar sem Vilhjálmur hafði afritað óbreyttar inn í eigin ritgerð. Ég hafði gert einhverjar innsláttarvillur eins og gengur og þær birtust óbreyttar í ritgerð Villa. Og eðlilega voru engar tilvísanir í textanum þar sem ég hafði tekið þær út þar sem þetta efni var ætlað til birtingar í dagblaði. Vilhjálmur hafði sem sagt ætlað sér að fara þá leið að hnýta í trúverðugleika allra sem að málinu komu, gera alla vafasama. Þess vegna reyndi hann að þyrla upp moldviðrinu en blessunarlega voru sönnunargögnin grjóthörð og þar með hrundi málsvörn hans.“

Úlfar getur þess að þegar hann hóf nám við HÍ hafi eitt það fyrsta sem nýnemar fengu að heyra verið að ritstuldur væri alvarlegasti glæpur sem hægt væri að fremja innan akademíunnar. Í Leuven í Belgíu, þar sem Úlfar nam, hafi nemendum verið vísað úr námi vegna ritstuldar í námsritgerðum í miðju námi. Þeir hinir sömu hafi fengið óafturkræfan stimpil á eigin ferilskrá og í raun verið úthýst úr fræðasamfélaginu. Mál Vilhjálms hafi verið fyrsta risamálið á þessu sviði við HÍ. Hannesarmálið hafi komið upp síðar. Lögfræðipróf Vilhjálms hafi svo verið afturkallað en skólinn hafði áður útskrifað hann. Málið hafi verið fordæmalaust. Vilhjálmi hafi verið boðið að skrifa aðra ritgerð sem hann gerði og hélt prófi sínu á þeim forsendum en hafi að vísu hótað málaferlum við HÍ.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Ég fullyrði að innan allra stærri háskólastofnana heimsins hefði viðkomandi ekki átt afturkvæmt í sömu stofnun,“ segir Úlfar sem setur spurningamerki við niðurstöðu málsins. Hins vegar hafi málið verið snúið “vegna þess að lagadeild hafði þegar útskrifað Vilhjálm út á stolna kandídatsritgerð”. Spurður hvort Vilhjálmur hafi síðar beðist afsökunar á ritstuldinum, neitar Úlfar því.

Blaðið spurði Vilhjálm H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmann hvort hann hefði ekki beðið Úlfar afsökunar. “Ef ég man þetta rétt hitti ég viðkomandi á Kaffibarnum og bað hann afsökunar. Eins bað ég viðkomandi afsökunar opinberlega í Íslandi í dag þar sem ég var í viðtali hjá Snorra Má Skúlasyni. Sú upptaka ætti að vera til hjá 365. Þú getur kynnt þér hana,” segir Vilhjálmur í svari til blaðsins.

Þú getur svo í framhaldinu skúbbað því að gos hafi hafist í Heimaey 1973. Gott að vita að Akureyri Vikublað er með puttann á púlsinum,” segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. –BÞ

Fréttin birtist í Akureyri vikublaði 5. febrúar 2015