„Við höfum öll átt okkar fyrsta dag hér“

Aðalinngangur Kristneshælis þar sem starfsfólk tók á móti veiku fólkinu. Ennþá tekur yfirlæknir Hælisins, Jónas Rafnar, á móti gestum í forstofu þar sem stór brjóstmynd af honum stendur.

Aðalinngangur Kristneshælis þar sem starfsfólk tók á móti veiku fólkinu. Ennþá tekur yfirlæknir Hælisins, Jónas Rafnar, á móti gestum í forstofu þar sem stór brjóstmynd af honum stendur.

Vígsla Kristneshælis í Eyjafirði fór fram 1. nóvember árið 1927. Fjórir fyrstu vistmenn Hælisins voru lagðir inn 17. nóvember sama ár. Fjöldi innlagna jókst jafnt og þétt næstu ár og áratugi. Fyrstu árin eftir að Hælið tók til starfa var sjaldgæft að fólk kæmi þangað til dvalar um skemmri tíma. Jafnan varð dvölin lengri en fólk kærði sig um. Mögulega einhverjir mánuðir, jafnvel nokkur ár. Hvernig ætli fólki hafið liðið með að fá slíkan úrskurð. Að þurfa að yfirgefa heimilið og ferðast kannski um langan veg til þess að leggjast inn á berklahæli þar sem dauðinn var daglegt brauð?

Niðurstaðan er smitandi berklar

Eftir að hafa farið í gegnum skoðun hjá lækni lá niðurstaðan fyrir. Sjúklingurinn vonaði hið besta en bjóst við hinu versta. Sumir urðu að ósk sinni. Aðrir ekki. Undan því var ekki skorist. Smitandi berklar og Kristneshæli því næsti áfangastaður. Án nokkurs vafa hefur það verið erfiður biti að kyngja að vera send/ur til vistar á Kristneshæli, vitandi að margir sem þangað höfðu farið, áttu þaðan ekki afturkvæmt. Í hugum margra jafngilti dvöl á Kristneshæli dauðadómi. Hins vegar báru menn harm sinn í hljóði. Ef berklasjúklingi leið illa, hélt hann því út af fyrir sig. Samfélag berklasjúkra einkenndist að þeirri hugsun að gera ekki of mikið úr harminum – þótt mikill væri – og enn síður að tala um hann. Það tíðkaðist einfaldlega ekki að bera vandamál sín á borð annarra. Hver hafði sinn djöful að draga.

„Heimferð“ að Kristneshæli

Nú var ekki um annað að ræða en að fara í einangrun í Eyjafirði. Draga fram ferðatöskuna, setja í hana föt og svo fleiri föt. Í lista einum sem gefinn var út til leiðsagnar verðandi sjúklingum má glöggt sjá að ekki var tjaldað til einnar nætur. Lesa mátti um þann fatnað sem sjúklingunum bar að hafa meðferðis við komuna á berklaæli. Listinn skiptist í fjóra hluta; vetrar- og sumarfatnaður fyrir karla og konur. Ef rýnt er í listann má t.d. sjá hvers lags vetrarflíkum konum var ætlað að nota á meðan dvölinni stóð: „1 vetrarkápa, 2 ullarkjólar (eða pils og peysu), 2 ullarpeysur (rúmtreyjur),1 golftreyja, 1regnkápa, 3 nærfatnað (ullarbuxur, og skyrtur og normal eða silki), 2 undirkjóla, 1 korselett, 1 slopp, 3 náttföt, 12 vasaklúta, 1 gönguskó, 1 götuskó, 1 inniskó, 1 snjóhlífar.“ Gjarnan var laumað með einhverju lesefni og skriffærum, snyrtidóti og nokkrum ljósmyndum af ástvinum. Annað varð eftir heima. Því næst voru betri fötin dregin fram, hárið greitt og vinir, kunningjar og fjölskyldumeðlimir kvaddir. Við svo búið var lagt af stað í átt að hinu nýja heimili, Kristneshæli. Þegar þangað var komið var ef til vill aðeins um tvennt að velja. Láta svartsýni og vonleysi ráða för eða takast á við örlögin og gera sem best úr þeim. Seinni kosturinn varð val flestra.

Erfitt ferðalag

Fólkið sem kom til dvalar á Kristneshæli kom misjafnlega langt að. Margir komu úr Eyjafirðinum og sveitunum í kring en aðrir úr fjarlægari byggðarlögum. Flutningurinn að heiman og á Kristneshæli reyndist mörgum erfiður, sérstaklega þeim sem þurftu um langan veg að fara. Í einstaka tilfellum gekk það svo langt að sjúklingarnir voru nær dauða en lífi þegar á Hælið var komið. Rétt er að hafa í huga að heilsufarslegar aðstæður viðkomandi einstaklinga voru oft á tíðum bágbornar áður en lagt var upp í ferðalagið. Þá var og allur aðbúnaður til flutninga annar og forneskjulegri en gerist nú á tímum og vetur oft harðir. Veturinn 1937 var 16 ára piltur úr Svarfaðardal að læra smíðar á Dalvík. Pilturinn sá hafði verið kvefaður í nokkurn tíma áður en hann fékk slæmt hóstakast á leið heim eftir vinnu. Svo slæmur var hóstinn að blóð kom upp úr lungunum. Eftir að hafa greinst með berkla lá fyrir að ferð í Kristnes var óumflýjanleg. Veður var svo slæmt að ekki var talið skynsamlegt að fara í ferð sem þessa, sérstaklega fyrir fársjúkan mann. Auk þess voru vegir ófærir svo pilturinn þurfti því að dveljast heima í viku. Ennþá var landleiðin ófær en heilsunni hrakaði og því var tekin ákvörðun um að sigla frá Dalvík til Akureyrar. Eyjafjörðurinn var ísi lagður langt norður fyrir Akureyri svo gengið var á land á Svalbarsströnd. Pilturinn ungi fékk bóndann á bænum Sigluvík til að sigla með sig áfram þann hluta sem skipið komst ekki eða að Krossanesi. Þar steig hann frá borði upp á ísilagðan sjóinn og gekk þaðan til Akureyrar. Vegna snjóþyngsla var ekki hægt að fara fram í Kristnes og því hélt hann til hjá vinafólki á Akureyri í nokkra daga. Eftir að hafa upplifað fordóma vegna sjúkdómsins og hræðslu í sinn garð af hálfu heimilisfólksins varð hann sér út um gönguskíði og gekk á þeim inn Eyjafjörðinn í átt að Kristnesi.

„Þú mátt ekki gráta, það er svo gaman hérna“

Börnum sem dvöldust á Hælinu þótti jafnan spennandi að koma þangað. Fyrir mörg þeirra var það ævintýri líkast. Kvöld eitt í mars árið 1940 kom 8 ára gömul stúlka úr Ólafsfirði á Hælið í fylgd með foreldrum sínum. Stúlkan hafði lítinn skilning á þessu ferðalagi og áttaði sig yfirhöfuð ekki á því að hún væri lasin. Hjúkrunarkona tók á móti þeim og var henni mikið í mun að gera komu fjölskyldunnar sem þægilegasta á þessari erfiðu stund. Eftir að hafa mælt nokkur vel valin orð sagðist hún ætla að sýna þeim nýja herbergið. Þar var búið um ungu stúlkuna og henni komið í rúm. Þar lagðist hún til hvílu með glöðu geði, þess fullviss að mamma og pabbi svæfu í næsta herbergi. Nokkrum mínútum síðar kom hjúkrunarkonan aftur inn til hennar og spurði hana hvort hún vildi ekki sjá þegar mamma hennar og pabbi færu. Í sakleysi sínu rölti stúlkan með hjúkrunarkonunni fram á gang og að glugga sem sneri að hælislóðinni við aðalinnganginn. Út um gluggann sá hún á eftir foreldrum sínum fjarlægjast Hælið og þá fyrst varð henni ljóst hvernig í pottinn væri búið. Mikil sorg ríkti í litlu barnshjarta þetta kvöld og um nóttina á Kristneshæli. Morguninn eftir þegar Jónas Rafnar yfirlæknir fór á stofugang gekk hann upp að stúlkunni. Hann sá að hún átti bágt, horfði í augun á henni og sagði: „Já þetta gengur nú ekki, þú mátt ekki gráta, það er svo gaman hérna.” Eitthvað var það í fasi Jónasar á þessu augnabliki sem varð til þess að stúlkan frá Ólafsfirði undi hag sínum vel upp frá þessu. Tæpu ári síðar var hún komin heim til Ólafsfjarðar eftir að hafa öðlast, að eigin sögn, ákaflega dýrmæta reynslu í gegnum samskipti við fólkið á Hælinu.

Huggunarorð sjúklings

Ekki var það eingöngu starfsfólkið sem lagði sig fram við að auðvelda komu nýrra sjúklinga. Oft var meiri styrkur fólginn í þeim huggunarorðum sem bárust af vörum þeirra sem fyrir voru á Hælinu og höfðu gengið í gegnum sömu erfiðleika. Veturinn 1957 kom ung kona úr Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu inn á Hælið sem sjúklingur. Aðdragandinn að komunni hafði reynst henni erfiður og ekki tók betra við þegar á áfangastað var komið. Allt svo nýtt og framandi, mörg ókunnug andlit og kvíðablendnar tilfinningar gagnvart framtíðinni. Að kvöldi fyrsta dags, eftir að hafa reikað um auða ganga Hælisins og hugsað með söknuði til heimahaganna, opnuðust dyr á stofu nr. 8. Fram á ganginn kom grannvaxin, eldri kona og virtist sem hún skynjaði vanlíðan hins nýja vistmanns. Þær tóku tal saman og eftir nokkur orðaskipti mælti konan: „Við, sem hér erum, höfum nú öll átt okkar fyrsta dag hér og ættum því að skilja hvern sem gengur í gegnum þá reynslu.” Þetta stutta spjall gerði gæfumuninn og eftir það gekk ungu konunni úr Fnjóskadalnum vel að aðlagst hinu nýju umhverfi. Síðar átti hún eftir að reynast Hælinu og öðrum sjúklingum vel á sviði félagsmála.

Endalaus bið

Ætla má að fyrstu skrefin inn fyrir þröskuldinn við útidyrnar á norðurhlið Hælisins hafi reynst mörgum erfið. Starfsfólkið lagði sig þó í líma við að gera komuna sem auðveldasta. Þegar bifreið sjúklingsins hafði rennt upp að hælisbyggingunni komu tvær hvítklæddar hjúkrunarkonur til móts við sjúklinginn. Þar var hann boðinn velkominn og ef ástæða þótti til var honum lyft upp og borinn inn á stofu. Við tók tími aðlögunar og sáttar hjá flestum. Margir höfðu lítið við að vera annað en bíða. Bíða eftir að kynnast nýja heimilinu. Bíða eftir að kynnast fólkinu. Bíða eftir að ná bata. Hjá sumum var biðin endalaus.

Í tengslum við útgáfu á sögu berklasjúklinga á Kristneshæli hefur verið opnuð sérstök síða á Fésbókinni. Þar er hægt að skoða gamlar myndir frá Hælinu, fylgjast með útgáfunni og hjálpa til við heimildaöflun.

Akureyri vikublað 29. janúar 2015

Grenndargralid