Geymt en ekki gleymt – Bræður og systir tekin af lífi

Laxdalshús. Reynitréð umtalaða er til hægri á myndinni.

Laxdalshús. Reynitréð umtalaða er til hægri á myndinni.

Talið er að síðasta aftakan í Eyjafirði hafi farið fram fyrir rúmum 260 árum. Aftakan var í tengslum við morðmál þar sem þrír bræður komu við sögu. Bræðurnir Jón yngri og Helgi Sigurðssynir frá Kálfagerði myrtu þriðja bróðurinn, Jón eldri Sigurðsson. Við verknaðinn nutu þeir aðstoðar manns að nafni Bjarni Árnason. Aftaka bræðranna tveggja og Bjarna fór fram hjá Efri-Klofasteinum í Möðrufellshrauni við bæinn Möðrufell í Eyjafjarðarsveit.

Snemma árs 1751 hvarf fórnarlambið, Jón eldri. Nokkrum dögum áður höfðu bræðurnir og nafnarnir Jón eldri og Jón yngri ætlað sér að ræna bóndann á bænum Hrísum. Þeim tókst ekki ætlunarverkið og voru handsamaðir. Jón eldri komst þó undan nokkru síðar og ekkert spurðist til hans fyrr en viku seinna þegar lík hans fannst í Eyjafjarðará. Af ummerkjum á líkinu að dæma virtist sem honum hefði verið drekkt í ánni. Grunur beindist fljótt að bræðrum hans, Helga 17 ára og Jóni yngri 19 ára. Síðar kom ástæða morðsins í ljós. Banamennirnir óttuðust að Jón eldri kæmi upp um afbrot þeirra.Fleiri dauðadómum var framfylgt hjá Efri-Klofasteinum í Möðrufellshrauni fyrr á öldum. Fræg er sagan af tveimur systkinum sem tekin voru þar af lífi. Þau voru dæmd fyrir sifjaspell en héldu fram sakleysi sínu allt fram á síðustu stundu. Á dánarstundu báðu þau Guð um að sanna sakleysi þeirra um leið og blóð þeirra rann niður hraunsprungurnar. Þar óx síðar mikið og stórt reynitré sem stóð af sér veður og vind í hundruðir ára. Hér er sennilega um eitt frægasta reynitré landsins að ræða. Sögurnar um bræðurna og systkinin tengjast órjúfanlegum böndum þar sem dauðarefsingu var framfylgt í báðum málum í Möðrufellshrauni. Eftir að reynitréð var fellt árið 1551 var sverasti hluti stofnsins notaður sem höggstokkur við aftökur í hrauninu m.a. á bræðrunum Jóni yngri, Helga og vitorðsmanni þeirra Bjarna Árnasyni.

Reynitréð við Laxdalshús er talið vera komið af reynitrénu fræga í Möðrufellshrauni. Tréð var gróðursett á 19. öld og margoft var reynt að höggva það – það óx alltaf upp að nýju!

Akureyri vikublað 29. janúar 2015