Sigga Dögg

Jón Óðinn Waage skrifar.

Jón Óðinn Waage skrifar.

Jón Óðinn Waage skrifar.

Fjórtán ára sonur minn kom heim úr skólanum og sagðist aldrei ætla að stunda kynlíf.

Fjórtán ára fósturdóttir mín kom heim úr skólanum með smokk, sagðist eiga að prófa hann.

Mér fannst ég vera að missa tökin á uppeldinu, hvað var eiginlega í gangi í þessu skólakerfi?

Svarið var að bæði höfðu verið á fyrirlestri hjá Siggu Dögg kynfræðingi. Þegar við foreldrar fengum síðan boð um að mæta líka á fyrirlestur hjá Siggu Dögg þá mætti ég fyrstur manna.

Fyrirlesturinn var frábær, mikið vildi ég að mín kynslóð hefði fengið svona fræðslu. Sigga Dögg er að vinna magnað starf.

Ég var svo einfaldur í þessum málaflokki að þegar vinur minn í barnaskóla fór að stríða nokkrum stelpum og kalla þær túrista þá hélt ég að það væri vegna þess að þær hefðu verið í ferðalagi. Skildi ekkert hvað þær tóku þessari stríðni illa.

Þegar að ég losaði sæði í fyrsta skipti þá fékk ég áfall, hélt ég hefði pissað á mig.

Þegar ég var 14 ára komst ég yfir bókina Sjafnaryndi. Það var kennslubók í kynlífi. Þar las ég meðal annars þann fróðleik að sæði væri gott fyrir húðina.

Ég tók þetta bókstaflega. Nuddaði því fyrst á magann, en það var merkilegt hvað varð mikið úr þessu litla magni. Að maganum loknum var bringan smurð. Afgangurinn fór á andlitið.

Ég hef alla tíð síðan haft mjög sterka húð og þar er varla hrukku að sjá.

Það var samt alltaf dálítið sérstakt þegar mamma kom heim og kyssti mig á kinnina.

Pistillinn birtist fyrst í Akureyri vikublaði 29. janúar 2015