Ætlar ekki að hætta fyrr en réttlætinu er fullnægt

Valgerður Þorsteinsdóttir segir að í Grímsey snúist allt um heiður hússins. Eyjan sé klofin í tvær fylkingar. Mynd: Völundur

Valgerður Þorsteinsdóttir segir að í Grímsey snúist allt um heiður hússins. Eyjan sé klofin í tvær fylkingar. Mynd: Völundur

Valgerður Þorsteinsdóttir segist hafa orðið fyrir margítrekaðri kynferðislegri misnotkun af hálfu manns á miðjum aldri þegar hún vann sem barn úti í Grímsey. Brotin áttu sér einnig stað í Reykjavík að hennar sögn. Akureyri Vikublað fjallaði í síðustu viku um að grunur um kynferðisbrot í eyjunni hefði aukið á vanda Grímseyinga sem nú heyja varnarbaráttu upp á líf og dauða gegn því að byggð leggist í eyði. Hinn meinti kynferðisglæpur hefur klofið eyjaskeggja í tvær fylkingar þar sem meintur gerandi tengist einni útgerðinni í eyjunni. Í viðtalinu hér á eftir kemur m.a. fram að meintum geranda sé ekki vært í eyjunni en á sama tíma hafa opinberir aðilar kallað eftir samstöðu eyjaskeggja til að leysa kvóta- og byggðavandann. Viðtalið hér á eftir veltir því almennt upp hvort brot gegn einstaklingi sé einnig brot gegn samfélagi. Samfélagslegar afleiðingar kunna að verða nánast fordæmalausar ef allt fer á versta veg í Grímsey.

Brotin byrjuðu þegar ég var 14 ára

Valgerður rekur ættir sínar til Grímseyjar og vann þar á sumrin um árabil. Hún er 21 árs gömul, nemi við Verkmenntaskólann á Akureyri og í Tónlistarskólanum á Akureyri. Brotin sem hún segir að hafi verið framin hafi byrjað þegar hún var fjórtán ára gömul. Þau áttu sér að jafnaði stað yfir miðjan dag þar sem hún var ein við vinnu sína í útgerð fjölskyldu sinnar. Frændskapur og mikil vinátta var milli fjölskyldu Valgerðar og geranda að hennar sögn.

„Brotin byrjuðu fermingarsumarið mitt, þá var ég 14 ára. Hann kom líka suður stundum á veturna þannig að þetta gerðist ekki bara úti í Grímsey,“ segir Valgerður þar sem við höfum mælt okkur mót á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar.

Það var ekki einföld ákvörðun fyrir Valgerði að segja sína sögu opinberlega en þar sem henni hefur borist til eyrna að sumt fólk, og þá sérstaklega fjölskylda meints geranda, véfengi að fótur sé fyrir nauðgunarkærunni, segist hún hafa ákveðið að standa með sjálfri sér og taka slaginn. Lögreglan á Akureyri hefur lokið rannsókn í hinu meinta nauðgunarmáli og málið verið sent Ríkissakóknara.

Viðtal:Björn Þorláksson

Viðtal:Björn Þorláksson

Naut mikillar virðingar

Valgerður hefur gengið í gegnum dimma dali. Hún segir að þá myrku göngu megi gagngert skýra með því að hún hafi síendurtekið orðið fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi af hálfu manns sem naut mikillar virðingar í Grímsey.

„Dóttir mannsins og mamma mín voru æskuvinkonur, það var mikil tenging þar á milli, og þær bjuggu í sama bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði, þá byrjaði þetta fermingarárið mitt, í kringum verslunarmannahelgi, þá var ég að passa barnabörn hans og börn skyld honum, og þar var ég ein svo að hann var í “kjöraðstæðum”. Sumarið þar á eftir er ég að stokka í fyrirtækinu hans afa, oft ein að stokka og hann fer að venja komur sínar til mín á daginn og nýtir sér aðstæður, og stelpurnar sem voru að stokka með mér það sumar og nokkrir fleiri síðar geta vottað það. Það var traust á milli okkar vegna tengslanna. Hann misnotar þetta traust, ég fann mjög fyrir hans valdi. Hann misnotar stöðu sína.“

“Þá fer mér vonandi að batna”

Voru þetta nauðganir?

„Já, auðvitað er það nauðgun þegar þú færð 14 ára stelpu til að leggjast.“

Mörg skipti?

„Já, og svo líka í heimsóknum í Reykjavík á veturna þar sem ég bjó þá.“

Einhver vitni?

„Nei, þeir sem misnota börn hafa vit á að láta ekki nein vitni verða að því. Svo þegar ég verð 17 ára eignast ég kærasta og er ótrúlega hamingjusöm með honum. Þá fæ ég einhvern styrk og hef náð þroska til að segja manninum að hætta, þá er ég að verða fullorðin og gat sagt nei. Þegar maður er 14 ára er erfiðara að segja nei. Svo einhvern veginn loka ég á þetta, bæli þessa reynslu, svo er það í fyrra sem ég heyri að maðurinn sé orðinn mjög þunglyndur, hann dílar við geðræn vandamál, enginn skilur af hverju og enginn veit hvers vegna. Allir vorkenna honum voða mikið og þá finn ég pirringinn og andúðina rísa í eigin brjósti, þessi gömlu brot koma aftur upp í hugann, ég var búin að geyma þau innra með mér árum saman. Svo er það í janúar fyrir sléttu ári 2014 sem ég sit á Bláu könnunni með vinkonum mínum. Þá hringir hann, ég þekkti númerið og svaraði, vildi vita hvort hann ætlaði að biðjast fyrirgefningar. En þá var hann bara að hringja til að spyrja hvort ég hefði nokkuð sagt einhverjum frá þessu, hvort það væri ekki bara okkar á milli. Ég sagði honum að ég hefði ekki sagt neitt. Þegar hann heyrði það, segir hann: “Það er gott að heyra, þá fer mér vonandi að batna”.

Sárið opnast

,,Svo kemur kennaraverkfall og ég fer til Grímseyjar þegar kennsla liggur niðri að heimsækja ömmu og mína móðurfjölskyldu. Hann er þá enn að díla við þetta þunglyndi. Ég er í Grímsey í 2-3 vikur, vinkona mín er að vinna hjá honum. Ég fer og heimsæki hana í vinnuna og við erum að tala saman. Þá kemur hann og leitar eftir samúð. Hann segist svo rosalega veikur. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Þá segir hann: „Bara svo þú vitir það þá er ég búinn að segja [ ] frá þessu en hún má ekki vita að þú vitir það.“ Þá finn ég gömlu ónotin opnast, hann opnar á sárið, ég verð reið við bæði hann og hana, hvorugt þeirra ætlaði þá að gera neitt í þessu. Ég bjóst við að hún myndi hafa samband við mig eða tala við mig út af þessu, ég meina, þau eiga barnabörn á sama aldri og ég er á þegar hann gerir mér þetta. Það kom seinna í ljós að hann hafði ekki sagt henni satt.“

Allt logaði í sprengingum

Svo liðu vikur. Valgerður segist hafa dottið út úr skólanum eftir verkfallið. Hún fer að finna fyrir miklum andlegum erfiðleikum, þunglyndi og kvíða.

„Það er hrikalega erfitt hjá mér fram á sumarið en þá er hann orðinn rosalega hress, bara allt frábært og ekkert þunglyndi. Svo rennur upp dagurinn þegar ég ákveð að segja frá og legg fram kæru. Boltinn fer að rúlla, fjölskyldur okkar beggja frétta af því, allir í sjokki og margir reiðir. Eðlilega, þegar ég eignast börn munu þau aldrei nokkurn tímann fá að kynnast svona lífsreynslu. Ég veit fyrir víst að foreldrar í Grímsey vildu ekki hafa svona mann í nánasta umhverfi barnanna sinna. Ég leggst inn á geðdeild í lok sumars 2014 vegna kvíða og þunglyndis þegar allt logar í sprengingum, hann segir mig ljúga en ég veit ekki hvað hann sagði í yfirheyrslunni hjá lögreglunni. Fjölskyldan hans segir mig ljúga, eða trúir þá því sem hann hefur sagt um málið. Það er kannski eðlilegt að þau standi með honum, ég get ekki sett mig í þeirra spor, ég á nóg með sjálfa mig, en þá kemur á daginn að hann segir öllum að við höfum átt í ástarsambandi en þó ekki fyrr en ég var orðin 18 ára, sumsé lögráða. Þau flytja svo burt úr eyjunni.“

Hætti ekki fyrr en réttlætinu er fullnægt

Við ræðum drjúga stund ýmis mál sem samkomulag tekst um að greina ekki opinberlega frá að svo stöddu í ljósi þess að dómur hefur enn ekki fallið í málinu.

„Ég vil líka hvetja aðra þolendur til þess að segja frá. Þetta er ekki manni sjálfum að kenna, þetta er gerandanum að kenna. Og ekkert til þess að skammast sín fyrir, það er gerandinn sem þarf að skammast sín.“

Er Valgerður vongóð um að maðurinn verði dæmdur sekur?

„Ég reyni að hugsa sem minnst um þetta og einbeita mér að mínu daglega lífi, enda í fyrsta skipti í langan tíma sem að ég er í góðu andlegu jafnvægi. Það fór mikill tími og mikil vinna að ná á staðinn sem ég er komin á í dag. Ég ætla ekki að hætta fyrr en réttlætinu er fullnægt. Hann mun ekki komast upp með þetta. Það er rosalegur aldursmunur á okkur og að halda því fram að brotin sem áttu sér stað þegar ég var barn hafi í raun verið ástarsamband er hlægilegt og fjarri öllum raunveruleika. Börn eiga ekki í ástarsambandi við eldri menn kynferðislega. Það kallast misnotkun, eða nauðgun.“

Valgerður kemur blaðamanni fyrir sjónir sem trúverðug manneskja, stillt og yfirveguð þótt augljóslega þyki henni mjög erfitt á köflum að segja sína sögu.

Lítið samfélag sem má ekki vamm sitt vita

Rekurðu þessa sálrænu erfiðleika sem þú varðst fyrir gagngert til kynferðisbrotanna?

„Já, engin spurning.“

Kemur þér á óvart að fjöldi manns hafi mótmælt þeim fréttaflutningi sem verið hefur af málinu? Meðal annars hefur verið haldið fram að það komi engum við þótt „fólk sé að leika sér“ eða þótt „einhverjum verði eitthvað á“?”

„Nei, það kemur mér ekki á óvart. Sjálf fékk ég símhringingar vegna fyrstu fréttarinnar í Akureyri Vikublaði um málið, fólk fór um leið að benda mér á hana. Ég hafði ekkert að setja út á þennan fréttaflutning. Grímsey er lítið samfélag og eins og ég hef upplifað þetta frá því að ég man eftir mér, þá er það heiður hússins sem skiptir flest fólk í eyjunni máli.“

VIÐTAL: Björn Þorláksson

Viðtalið birtist í Akureyri vikublaði sem kemur út 22. janúar 2015