Það var mjög góð ákvörðun að flytja hingað norður

Guðrún Karítas Garðarsdóttir, verslunarstjóri í Eymundsson á Akureyri. Þakkar VMA búsetu sína, botnar lítið í forgangsröðun stjórnvalda og vill bækur burt úr matvörubúðum. Mynd: Völundur

Guðrún Karítas Garðarsdóttir, verslunarstjóri í Eymundsson á Akureyri. Þakkar VMA búsetu sína, botnar lítið í forgangsröðun stjórnvalda og vill bækur burt úr matvörubúðum. Mynd: Völundur

Guðrún Karítas Garðarsdóttir, verslunarstjóri bókabúðarinnar Eymundsson við Hafnarstræti á Akureyri, er sennilega betur inni í bóksölu á Norðurlandi en flestir aðrir. Hún metur stöðu bókarinnar sumpart sterka hér á landi en telur að ógnir steðji að. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður virðisaukaskattur á bækur hækkaður. Lýsir Guðrún Karítas áhyggjum af þeirri fyrirætlan. Þá segist hún andsnúin því að bækur séu seldar í stórmörkuðum fyrir jólin.

 

Við tyllum okkur niður á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar til að ræða ýmsar spurningar sem varða stöðu bókarinnar í menningu okkar Íslendinga. En fyrst langar mann að kynnast persónunni. Fram kemur fljótlega í spjalli okkar að það má þakka Verkmenntaskólanum á Akureyri að Guðrún Karítas býr hér fyrir norðan.

„Reykjavík er frábær en ég kann betur við mig hér fyrir norðan þótt allt mitt fólk sé í Reykjavík. Það urðu tímamót hjá mér áramótin 2009-2010. Þá vildi ég byrja nýtt líf og dætur mínar sem þá voru 12 og 16 ára gamlar tóku vel í nýtt upphaf – breytingar. Af því að sú eldri hafði greinst með einhverfu kom starfsbraut VMA afar sterkt inn þegar við fórum að velta fyrir okkur menntamöguleikum hennar. Ég bar starfsbraut VMA saman við aðrar námsleiðir í öðrum skólum í Reykjavík. VMA virtist einfaldlega henta betur dóttur minni en nokkur annar skóli og það gerði útslagið.“

VMA stórkostlegur skóli

Hún segist ekki sjá eftir þessari ákvörðun.

„Dóttir mín hefur nú útskrifast eftir 4 ára nám á starfsbraut VMA og ég verð bara að segja að okkur finnst VMA stórkostlegur skóli, starfsmenn brautarinnar eiga mikinn heiður skilið. Hún er núna komin í nám við Húsmæðraskólann í Hallormsstað og kemur flott heim í jólafríið til að hjálpa mömmu að baka! Það verður mjög gott að fá hana heim. Dætur mínar eru duglegar stelpur, þær bjarga mér oft. Þær vilja báðar búa hérna sem segir mér að hér líður okkur vel og að það var mjög góð ákvörðun að flytjast hingað norður.“

Fjölskyldan er blönduð fjölskylda eða samsett fjölskylda eins og það kallast líka. Hún samanstendur af Guðrúnu Karítas og fyrrnefndum dætrum, Védísi Elvu og Ásdísi Eir. Eiginmaður Guðrúnar Karítasar er Böðvar Kristjánsson. Hann á tvö börn, Kristbjörgu og Jón „…og svo er það sameiningarbarnið okkar, kötturinn Leó,“ segir Guðrún Karítas og hlær.

Ólst upp í Bókabílnum

Ég spyr hvort hún hafi séð fyrir sér sem barn að hún ætti eftir að vinna í bókabúð.

„Nei, ég hugleiddi það nú aldrei. En ég hafði lengi átt mér draum að starfa við eitthvað skapandi, en þrátt fyrir það valdi ég aðra menntun sem þó nýtist mér vel í dag þannig að þetta kemur allt heim og saman.“

Varstu bókaormur sem barn?

„Já, ég var bókaormur, varð læs fjögurra ára gömul og lifði fyrir bókabílinn í Reykjavík. Bókabíllinn kom tvisvar í viku, það var hrópað og kallað þegar hann kom í hverfin. Ég man enn lyktina inni í honum, svo valdi maður rétti af hlaðborðinu og fór heim með fullan poka. Legið í bókum þangað til hann kom næst.“

Í ljós kemur að Astrid Lindgren er sá höfundur sem Guðrún Karítas hreifst mest af sem barn. Emil í Kattholti var í sérstöku uppáhaldi en hún nefnir einnig Fimm fræknu, Öddu bækurnar og Frank og Jóa. Af innlendum höfundum var Guðrún Helgadóttir í uppáhaldi.

VerdmunurMikil áskorun að stýra búðinni

Þegar Guðrún Karítas hóf störf sem verslunarstjóri Eymundsson á Akureyri segir hún að umfang reskstrar búðarinnar hafi komið henni mest á óvart. Hún sé rekstrarfræðingur að mennt og hafi bæði unnið hjá fjármálafyrirtækjum og í endurskoðun þegar tækifærið gafst árið 2011 að kúvenda starfsferlinum.

„Ég bara stökk út í djúpu laugina og er enn að læra. Sem dæmi hafði ég áður aldrei haft forræði yfir fólki en í bókabúðinni starfa um 30 starfsmenn þegar mest er þannig að þetta hefur verið mikil áskorun. Það fer mikill tími í starfsmannamál, alls konar mál koma upp. Þetta er ekki bara bókabúð heldur líka ritfangaverslun, í búðinni er fyrirtækjaþjónusta og heildsala sem ég sé reyndar ekki um, búðin er kraftmikill staður. Svo er líka kaffihús sem er aðskilið frá okkar rekstri. Öll þessi starfsemi verður til þess að Eymundsson er dálítið svona félagsheimilið í göngugötunni.“

Bækur hverfi úr stórmörkuðum

Eftir að hafa rætt ýmis mál út og suður spyr ég hvaða skoðun verslunarstjóri Eymundsson á Akureyri hafi á bóksölu í matvörubúðum. Verðkannanir hafa sýnt að það getur munað hátt í 2.000 krónum á verði nýrrar íslenskrar skáldsögu hvort hún er keypt í Bónus eða bókabúð. Þar með er þó ekki öll sagan sögð að mati verslunarstjórans.

„Mér finnst að það eigi að hætta bóksölu í matvöruverslunum, ég vildi helst að bækur væru bara seldar í bókabúðum. Þetta byggi ég því að bóksalar selja titla allt árið um kring, það eru bóksalar sem sjá um menninguna, sjá um að selja skáldin og halda verkum þeirra á lífi allt árið um kring. Athugaðu að hvaða rithöfundur eða einyrki sem er getur gengið inn til okkar bóksala með hugverk sitt allan ársins hring, okkur ber skylda til að selja allar bækur. En stórmarkaðir velja aðallega bækur fyrir jólin sem líklegar eru til að seljast í miklu magni og svo henda þeir öllum bókum aftur út 2. janúar ár hvert.“

En eru það ekki sterk rök fyrir neytendur að bækur eru oft mun ódýrari í matvörubúðum en bókaverslunum?

„Ég vil meina að stórmarkaðirnir séu að selja út bækurnar á sama verði og þeir kaupa þær inn. Einhvers staðar þurfa þeir að borga upp tapið. Ég held að þeir ýti kostnaðinum við bækurnar upp í matvöruverðið. Ég held að stórmarkaðir ættu bara að einbeita sér að matnum, nógu dýr er hann. Ég trúi því ekki að stórmarkaðir selji bækur með tapi. Ef það er þannig að forlögin selji þeim bækur á undirverði er það hreinlega blaut tuska í andlit okkar heilsársbóksala í bókabúðum.“

Undarleg forgangsröðun stjórnvalda

Bóksölum hefur fækkað ört jafnt í norðlensku héraði sem á heimvísu. Ekki alls fyrir löngu voru fimm bókabúðir á Akureyri – nú er bara ein eftir. Guðrún Karítas segist viss um að Eymundsson á Akureyri lifi allar breytingar af en henni hrýs hugur við virðisaukaskatti á bækur sem nú stendur til að hækka samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

„Bækur hafa hækkað í verði, það er ekki fyrir alla að kaupa bækur eins og staðan er í dag og ég hef miklar áhyggjur ef ríkisstjórnin hverfur ekki af þeirri braut að ætla nú að stórhækka álögur á bækur. Því er haldið fram að breytingin á virðisaukakerfinu sé gerð til að einfalda skattkerfið en auðvitað er það ekki rétt. Ég hefði viljað halda veiðigjöldunum þar sem þau voru en láta bæði mat og bækur vera. Á sama tíma og veiðigjald er lækkað, þar sem tugmilljarða hagnaður er hjá sumum útgerðum, er skorið niður í heilbrigðiskerfinu, skorið niður í félagsmálum, skorið niður í menningu og velferð. Við sjáum sem dæmi stöðu geðverndarmála hér á Akureyri núna, hún er afleit. Ég er á því að það eigi að vera 0% skattur á bókum enda eru útlendingar sem ræða við okkur starfsfólk Eymundsson hérna á Akureyri mjög hissa á að það sé hár skattur af bókum hjá þessari bókaþjóð. Við erum bókaþjóð en við þurfum að hugsa hvort við búum börnunum okkar upp á aðstæður sem verði til þess að þau geti líka sagt eftir nokkra áratugi: Já, við erum ennþá bókaþjóð. Það getur skipt sköpum hvernig umhverfi ríkið býr bókinni, hvort svarið verður nei eða já.“

Arnaldur og Yrsa enn á toppnum

Fyrir utan ýmsa veraldlega þætti sem líta má á sem ógn við bókarútgáfu kemur fram í spjalli okkar að Guðrún Karítas telur áhyggjuefni hve fáir höfundar séu að skrifa fyrir 12-16 ára börn hér á landi. „Það er gat í þessum hópi. Það eru til ævintýrabækur fyrir börn upp að ca. 12 ára gömlum og svo eru til bækur fyrir 16 plús en það er gat þarna á milli sem þarf að fylla.“

En hvaða bækur vilja Akureyringar helst kaupa fyrir þessi jól?

„Það eru bækur sögulegs eðlis, barnabækur, krimmarnir eru ennþá býsna öflugir, Arnaldur og Yrsa tróna á toppnum í sölu eins og verið hefur en árið í ár er svolítið sérstakt fyrir þær sakir að það er ekki mikið um útgáfu á ævisögum núna.“

Næstum önnur hver útgefin bók skiptir um eigendur í flóðinu

Hvað hefur verslunarstjóranum litist best á persónulega í útgáfu þessa árs?

„Persónulega er ég mjög hrifinn af Kristínu Steins þetta árið, hún er með flotta bók, Vonarlandið sem fjallar um þvottakonurnar í Reykjavík. Ég er líka mjög hrifin af Stundarfró Orra Harðar sem ég vil kalla nýtt Akureyrarskáld. Svo kikkar okkar akureyski Villi inn fyrir forvitna vísindakrakka og við gætum haldið lengi áfram.“

Til eru sögur um að síðustu dagana fyrir jól ráðist afkoma flestra höfunda og forlaga. Að langmestu viðskiptin eigi sér stað síðustu stundirnar sem bókabúðir hafi opið fyrir jól. Guðrún Karítas segir að mikið sé til í þessu, ef horft er í jólavertíðina eina og sér fari ríflega 40% sölunnar fram vikuna fyrir jól. Hennar mat er þó að allir myndu græða á því ef bóksala væri jafnari á ársgrunni. Hún segir að markaðssetning ein og sér tryggi ekki góða sölu á bók, álitsgjafar skipti líka miklu máli, til að mynda sjái starfsfólk Eymundsson á Akureyri iðulega kipp í sölu bókar daginn eftir lofsamlega umfjöllun um bókina í Kiljunni. Hún segir ekki vafamál að gagnrýni hafi áhrif á bóksölu, svo hafi eflaust eitthvað að segja ef höfundar séu iðnir við að lesa upp úr verkum sínum í desember.

Við ljúkum spjallinu á persónulegum nótum, eins og við hófum það. Guðrún Karítas upplýsir að hún hlakki til að liggja í bóklestri um jólin, sjálf sé hún ástríðulesandi í þeim skilningi að ef hún falli fyrir bók vilji hún helst fá að klára hana í einum rykk. Til þess henti jólafríið afar vel.

„Það er gaman að hafa bók í höndunum sem nær manni þannig að maður tími ekki að leggja hana frá sér fyrr en lestri er lokið.“

Taka eflaust margir undir það.

VIÐTAL Björn Þorláksson

MYNDIR Völundur Jónsson

Viðtalið birtist í Akureyri vikublað 11. desember 2014