Börn sem leyna sorg

Björn Þorláksson skrifar

Björn Þorláksson skrifar

“Börn eru meistarar í að leyna sorginni”.

Svo sagði í merkilegri frétt sem mbl.is birti í síðustu viku. Þar var fjallað um að gefa í skóinn, þann samanburð sem getur orðið meðal nemenda þegar þeir hittast í skólastofunni. Einn fær kannski brotinn sleikjó í skóinn en annar rándýrt leikfang. Var haft eftir félagsráðgjafa að börn foreldra sem hafa lítið milli handanna festist stundum í vítahring lygarinnar þegar kemur að því að segja frá gjöfum jólasveinanna. Þau láti þá oft eins og þau hafi fengið meira í skóinn en reyndin varð, börn séu meistarar í að leyna sorg sinni.

Þetta var góð blaðamennska, svo ég tali fyrir sjálfan mig sem lesanda. Þessi tilvitnun lætur mig ekki í friði. Ég fór í framhaldinu að velta fyrir mér hvort efnishyggjuelementin séu orðin svo sterk í menningu okkar þjóðar, allt niður í leikskólastigið, að í stað þess að börn velti fyrir sér, hamingju, gleði, öryggi, ástríki ættingja, hvatningu, heiðarleika og frelsi til að börnin fái að vera þau sjálf í samanburði sínum, sé búið að smætta líf barnanna okkar niður í að sá sem fái dýrasta hlutinn í skóinn sé æðsta viðmiðið í skólanum. Hvaða séns eiga þá börn fátækra foreldra á félagslegum hreyfanleika? Þvílík andleg fátækt sem fylgir slíkri efnishyggju – en það læra börnin sem fyrir þeim er haft!

Án jafnaðar erum við tvístruð út og suður. Því meiri ójöfnuður, því meiri óréttur. Ójöfnuður skekkir lýðræðið, ójöfnuður skapar tækifæri hjá fáum á kostnað fjöldans. Ójöfnuður veitir forréttindahópum of mikil völd, tekur mennskuna úr samfélaginu. Efnishyggja sem einblínir á veraldlegt ríkidæmi treður niður andleg verðmæti. Samt er það þannig að á efsta degi hefur ekki einn einasti jarðarbúi látið hafa það eftir sér að hið veraldlega hafi skipt mestu máli. Þá sér fólk eftir að hafa ekki varið fleiri gæðastundum með ástvinum, hafa ekki skapað fleiri andlegar stundir. Enginn tekur með sér auð milli heima en kannski komast fagrar hugsanir milli vídda.

Það er kúnst að lifa, kúnst að deyja, kúnst að velja, og hafna. Hitt verður ekki séð að það eigi að verða áhyggjuefni að fá í skóinn. Getur hugsast að við foreldrar og forráðamenn barna séum of upptekin að vinna sem mest fyrir jólin, til að geta keypt fleiri og stærri gjafir fyrir börnin okkar, of upptekin af hinu veraldlega streði til að skapa tíma til að eiga samtal við börnin okkar um andlegt veganesti, ekki bara veraldlegt?

Ef rétt er að jafnvel lítil börn séu orðin svo menguð af efnishyggju og veraldegum samanburði að þau treysti sér ekki til að segja satt um mandarínu í skó þarf að bregðast við því með upplýstu átaki. Vonandi eru jólasveinarnir til í að taka þátt í því.

Björn Þorláksson

Leiðari Akureyri vikublaðs 4. desember 2014