Ríkisútvarp allra landsmanna

RuvFreyja Dögg Frímannsdóttir skrifar.

Við búum í stórbrotnu en strjálbýlu landi sem einkennist af stórkostlegri náttúru, misblíðri veðráttu og stundum erfiðum samgöngum. En þrátt fyrir það erum við flest sammála um að hér viljum við vera og þó svo að við getum ekki haft áhrif á það hvernig náttúruöflin hafa áhrif á líf okkar þá getum við haft áhrif á það hvernig við viljum vera sem þjóð. Viljum við til dæmis standa vörð um fjölmiðil sem leggur sig fram við að fanga fjölbreytileika mannlífsins í landinu og segja okkur sögur af fólki sem vekur áhuga okkar hvort sem við erum á Höfuðborgarsvæðinu eða Húsavík?

Sögur af landinu öllu

RÚV ber að flytja fréttir af öllu landinu, segja frá lífi fólks á öllu landinu, vera sýnilegt á öllu landinu og síðast en ekki síst vera í samtali og samskiptum við fólk á öllu landinu. Starfsfólk RÚV tekur hlutverk sitt alvarlega. Það hefur sýnt sig ekki síst nú þegar að náttúruhamfarirnar í Holuhrauni hafa minnt reglulega á sig í byggð að RÚV hefur staðið vaktina og starfsfólk hefur lagt sig fram við að flytja af því fréttir, fræða og upplýsa íbúa á öllu landinu um ástandið. Landinn er einnig gott dæmi um það hvernig starfsfólk RÚV leitar fanga um allt land, skyggnist inn í líf fólks og segir af því sögur. Fréttamenn RÚV á landsbyggðinni flytja fréttir í fréttatímum í útvarpi, sjónvarpi og á vef auk þess að taka viðtöl sem eru flutt í þáttum eins og Morgunútgáfunni, Síðdegisútvarpinu og Speglinum, svo dæmi séu tekin. Einn vinsælasti útvarpsþáttur landsins, Virkir morgnar á Rás 2, er nú að hluta til sendur út af landsbyggðinni daglega.

Á undanförnum árum hefur starfsemi RÚV á landsbyggðinni ekki farið varhluta af niðurskurði og samdrætti í þjónustu. Fyrir nokkrum árum var brugðist við niðurskurði hjá stofnuninni með því að minnka stórlega svæðisbundna miðlun og þótti mörgum, þar á meðal greinarritara, sem of langt hefði verið gengið.

Starfsemi RÚV á landsbyggðinni efld

Nú í októbermánuði tók undirrituð við starfi svæðisstjóra RÚVAK. Starfssviði svæðisstjóra hefur verið breytt til að mæta breyttum áherslum í starfsemi almannaþjónustuútvarpsins á landsbyggðinni. Auk þess að stýra starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri, þá stýrir svæðisstjóri starfsemi RÚV um allt land utan höfuðborgarsvæðisins. Hafin er stefnumótunarvinna þar sem unnið er að framtíðarsýn og útfærslu á því hvernig starfsemi RÚV verður efld á næstu tveimur árum. Það þarf að bæta í og styrkja fréttaflutning af landsbyggðinni. Það þarf að auka hlut dagskrárgerðar sem unnin er utan höfuðborgarsvæðisins. Það þarf að bæta við starsfólki sem vinnur efni af landsbyggðinni í alla miðla RÚV. Samhliða þessu er unnið að því að efla svæðisbundna miðlun RÚV á hverju svæði. Til þess að þetta sé hægt þarf að tryggja það að ekki verði frekari niðurskurður á starfssemi RÚV. Í útvarpslögum er gert ráð fyrir að útvarpsgjaldið renni óskert til RÚV en ekki að hluta til eins og það gerir nú. Það er ljóst að fái Ríkistútvarpið útvarpsgjaldið að fullu myndi það efla og styrkja rekstur þess á landinu öllu. Það er mikilvægt að Ríkisútvarpinu verði tryggðar aðstæður til að sinna sínum mikilvægu hlutverkum, ekki síst því hlutverki að vera útvarp allra landsmanna.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Svæðisstjóri RÚV á Akureyri

Greinin birtist í Akureyri vikublaði 13. nóvember 2014