Akureyringum mútað til góðra verka!

MuturÚt er komin bókin Náttúrugæði í hundrað ár. Saga veitnanna á Akureyri. Bókin er mikil að vöxtum, um 380 síður, í stóru broti og auðug af myndum. Gísli Jónsson menntaskólakennari skrifar rafveitukaflann, sem hefur áður komið út á prenti, en Jón Hjaltason sagnfræðingur skrifar kaflana um vatnsveitu og hitaveitu. Um 400 ljósmyndir prýða ritið.

Á kápu segir um efni bókarinnar: „Kalt vatn úr krana, hiti af ofni, rafljós í vetrarmyrkri; allt sjálfsagðir hlutir – eða hvað? Sannleikurinn er sá að saga veitnanna á Akureyri er baráttusaga. Saga vatnsskömmtunar, rafmagnsleysis í svartasta skammdeginu og kappsfullrar – jafnvel örvæntingarfullrar – leitar að heitu vatni. En hún er líka saga sigra. Akureyringar hafa því í hundrað ár – heila öld – notið náttúrugæða sem við á öndverðri 21. öld teljum nánast til náttúrulögmála.“

Svo gluggað sé í bókina má nefna sem dæmi um skemmtipunkta að mútur virðast hafa komið við sögu þegar Akureyringar áttu ekki fyrir vatnsveitunni og var neitað um bankalán. Þá lánaði Aage Berleme pening gegn því að bærinn byggði fyrir hann bryggju.

Þá segir að Akureyringar hafi aldrei viljað drekka yfirborðsvatn. Sífelldur vatnsskortur hafi þó neytt vatnsveitustjóra til að lauma slíku vatni ofan í þá. Margir Akureyringar minnist þess þegar vatnsskortur þjakaði bæjarbúa. Árið 1971 sáu menn loks fram á breytingu. Valið stóð á milli tveggja kosta; hreinsa vatn úr Glerá eða bora eftir því og dæla frá Vaglaeyrum á Þelamörk. Öll hagkvæmnisrök mæltu með Gleránni en oddvitar bæjarins gátu ekki hugsað sér að drekka vatn úr ánni og völdu því dýrari kostinn. Hinn 25. apríl 1973 var vatni hleypt á frá Vaglaeyrum. Síðan hafa Akureyringar ekki þurft að óttast skort á köldu vatni.

Þá má geta þess að haustið 1975 var borað neðan við gamla Húsmæðraskólann, í aðeins 20 metra fjarlægð frá bænum að Ytra-Laugalandi. Fyrst með Höggbor 5 niður á 29 metra dýpi en þá tók Jötunn við og gekk framar vonum. Snemma í desember hitti hann á stóra vatnsæð á 618 metra dýpi (mælt frá borpalli) og upp streymdu 23 lítrar á sekúndu af 83 gráðu heitu vatni. Áfram var borað og 12. janúar (1976) var komið niður á aðra vatnsríka æð á tæplega 1.300 metra dýpi. Vatnshitinn var 93 gráður og vatnsmagnið 95 til 100 lítrar á sekúndu af sjálfrennandi vatni. Þremur dögum síðar var borinn tekinn niður og hafði þó verið áformað að bora niður á allt að 3.500 metra dýpi. En í ljósi hins framúrskarandi árangurs var frekari borun talin óþörf, að minnsta kosti í bili. Ráðist var í að hitaveituvæða bæinn og föstudaginn 31. mars 1978 var Hitaveita Akureyrar formlega tekin í notkun. Saga hennar næstu áratugina átti eftir að einkennast af miklum erfiðleikum og á stundum miklum deilum.

Akureyri vikublað 13. nóvember 2014