Hættan stórlega vanmetin

Þótt starfsmaður Húsasmiðjunnar hafi brugðið á leik fyrir ljósmyndara blaðsins er óhugur í mörgum og óljóst hvaða stefnu stóra gosmengunarmálið tekur. Mynd:Völundur

Þótt starfsmaður Húsasmiðjunnar hafi brugðið á leik fyrir ljósmyndara blaðsins er óhugur í mörgum og óljóst hvaða stefnu stóra gosmengunarmálið tekur. Mynd:Völundur

Margvísleg röskun varð á háttum Norðlendinga sl. fimmtudag og þá ekki síst hjá Akureyringum þegar mengun fá gosstöðvunum norðan Vatnajökuls náði hæstu hæðum. Sjúkrahúsið á Akureyri þurfti að slökkva á loftræstingu og bjóða sumum sjúklingum teppi, sjómenn stímuðu í land, skólar héldu börnum inni, póstburðarfólk hraktist frá útburði og svo mætti lengi telja. Fjöldi fólks fann fyrir einkennum vegna brennisteinstvíildismengunar, öndun varð asmatísk hjá sumum, aðrir tala um hausverk og særindi í hálsi. Loftgæðin slógu um tíma í rautt samkvæmt mengunartöflum sem þýðir hættustig fyrir þá sem hafa undirliggjandi öndunarsjúkdóma.

ÁLAG OG UGGUR

Mikið álag hefur skapast hjá ýmsum stofnunum samfélagsins vegna loftmengunarinnar, s.s. hjá Umhverfisstofnun, Landlæknisembættinu, Almannavörnum, lögregluumdæmum víða um land og ekki síst hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra. Fjöldi fólks hafði samband við skrifstofu embættisins á Akureyri sl. fimmtudag og leitaði ráða. Alfreð Schiöth heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra segir: „Já, það er þó nokkur uggur í sumum sem leita til okkar, margir hafa áhyggjur af börnum,“ segir Alfreð.

Sem dæmi um aðstæður sem foreldrar vilja hafa stjórn á er þegar börn eru send í útiíþróttir eða vettvangsferðir. Þá hefur orðið menningarbreyting hvað varðar svefn ungbarna. Í stað þess að ungbörn sofi alla daga úti má nú stika heilu göturnar þegar blámóða liggur yfir bænum án þess að sjá einn einasta barnavagn á lóðum fólks. Alfreð nefnir fleiri dæmi um að fólk sé óvisst um aðstæður og hlutskipti vegna loftmengunar. Spurningar hafi kviknað um skyldur starfsmanna til að vinna erfiðisvinnu utan dyra. Hafi í sumum tilfellum þurft að kalla til öryggistrúnaðarmenn til að leysa ágreining vinnuveitenda og launþega. „Þegar mengun fer í 5000 míkrógrömm á rúmmetra er almennt ráðlagt að sem flestir haldi sig innanhúss en mestu er vert að veikir og börn geri það,“ segir Alfreð.

KNAPPUR TEXTI MISSKILINN

Misbrestur varð á að farsímaeigendur á Akureyri fengju sms frá Almannavörnum sl. fimmtudag þar sem varað var við menguninni. Þá nefnir Alfreð að sakir þess hve texti skilaboðanna hafi verið knappur og miðaðist einkum við viðkvæmustu einstaklingana hafi sumir metið ástandið enn alvarlegar en þó var. Hann bendir á að umræða hafi farið fram hvort loka ætti heilu vinnustöðunum. Gott kunni að vera að leita til Vinnueftirlitsins, annarra fagaðila og öryggistrúnaðarmanna ef upp kemur ágreiningur innan vinnustaða um hvort boðlegt sé að halda áfram störfum. Það sem flæki málið sé að fáir fastir mengunarmælar séu fyrir hendi á Norðurlandi, t.d. enginn í Skagafirði. Almannavarnir hafi þó útvegað handmæla sem mæli gasdreifingu og eru þeir í höndum lögreglu á mismunandi stöðum. Alfreð telur að alls hafi 40 handmælum verið dreift til lögreglu til að þétta mælisvæði.

GÆTI GOSIÐ LENGI ENN

Gosið norðan Vatnajökuls hefur nú staðið yfir á þriðja mánuð og veit enginn hvenær því lýkur. Mögulegt er að það muni gjósa lengi enn og að loftmengun verði vandamál árum saman. Staðhættir eru þannig í Eyjafirði að þekkt er í froststillum á veturna að loft sem er þyngra en andrúmsloftið setjist á Akureyri og hafa sumir rifjað upp mengunina frá Krossanesverksmiðjunni í þeim efnum. Allmargir íbúar hafa haft samband við Akureyri Vikublað og lýst áhyggjum.

ÓRANNSÖKUÐ KOKTEILÁHRIF

Almannavarnir hafa uppfært töflu um leiðbeiningar og viðbrögð vegna brennisteinsdíoxíðsins en vefsíðan loftgæði.is er einnig mikilvæg upplýsingalind. Sem dæmi um nýleg húsráð í leiðbeiningum til almennings er að fólk geti sett matarsóda í vatn, dýft í handklæðum og hengt upp sem mótvægi. Matarsódi er basi og vinnur gegn súrri mengun. Um algengustu eitrunaráhrif segir Alfreð að eiturgufan ráðist á slímhimnur og geti valdið bólgum sem jafnvel þrengi mjög að öndunarvegi. Spurður um langtímaáhrif segir hann að samlöðunaráhrif brennisteinsmengunar og annarra mengunarþátta séu sumpart órannsakað mál, svokölluð kokteiláhrif. Erfitt sé að heimfæra áhrif langtímamengunar í grennd við mengandi eldfjöll á einu svæði upp á önnur. Alfreð nefnir sem dæmi að þegar svifryk og mengun frá eldgosinu fari saman geti áhrif orðið alvarlegri en ella.

FORDÆMALAUST ÁSTAND

Um börn segir Alfreð að þau séu að jafnaði ekki eins meðvituð um afleiðingar og fullorðnir t.d. þegar loftmengunin fer að „rífa í nefið“. Því sé mikilvægt að foreldrar fylgist vel með þeim því fræðilega séð geti eituráhrifin leitt til köfnunar vegna bólgu hjá þeim sem séu með aðra sjúkdóma eða séu sérlega viðkvæmir.

Þetta er fordæmalaust ástand, það sem ég hef séð á löngum starfsferli. Ég hef aldrei kynnst öðru eins. Þetta er allt önnur staða en var t.d. í Heimaeyjargosinu þar sem hættulegt loft var bara nálægt eldstöðinni, hér erum við að tala um að mengandi efni ferðast um langa leið og þótt það sé mikilvægt að hræða ekki fólk að óþörfu þarf líka að ræða opinskátt hvernig sé best að bregðast við með öryggi fólksins í fyrirrúmi.“

SPURNING FYRIR LANDLÆKNI

Áður er þess getið hvernig matarsódi getur nýst sem vopn gegn menguninni. En klútur er bleyttur í vatni með matarsóda og borinn að vitum má segja að þar sé komin vörn gegn brennisteininum. Sú spurning kviknar einnig hvort þörf sé á birgðum af gasgrímum til að almenningur á staðbundnum svæðum geti nýtt sér þær ef hættuástand skapast. Alfreð segir vert að spyrja slíkra spurninga. Það væri ekki óeðlilegt að landlæknir velti því fyrir sér.

SÍURNAR RENNA ÚT

Athugun blaðsins sýnir að gasgrímur með síu sem nýtist gegn baneitruðum gufum liggja ekki á lausu í hillum verslana. Hjá Húsasmiðjunni fengust þau svör að til væru grímur með rykfilterum sem gerðu“ eittvert gagn“ eins og starfsmaður orðaði það en næðu ekki að sía út efni eins og brennisteinssýru og klórgas. Búið væri að panta síur sem nýta mætti gegn brennisteinstvíildi. Sarfsmenn Húsasmiðju og fleiri verslana staðfesta að dæmi séu um að fólk spyrji um gasgrímur vegna loftmengunarinnar. Verslunarfólk spyr á móti hvort hið opinbera eigi að standa straum af þeirri skyldu að flytja inn mikið magn af gasgrímum sem gætu reynst tiltækar í neyð, því það hamli áhuga innflytjenda á risavöxnum áhættuinnflutningi að síurnar dugi ekki nema í takmarkaðan tíma, þær renni út sem geri innflutning á dýrustu síunum ef til vill ekki fýsilegan. A.m.k. ekki í landi þar sem blámóða leggst yfir landið á 231 árs fresti eða svo en mörgum hefur vegna eldgossins norðan Vatnajökuls orðið hugsað til Móðuharðindanna. -BÞ

Akureyri vikublað 6. nóvembe 2014