Aflið ekki bara fyrir þolendur kynferðisofbeldis

„Karlmenn eru oft svolítið lengi að koma sér af stað í að ræða þau mál sem þeir hafa lent í á lífsleiðinni, ekki síst ef um ræðir ofbeldi. Þeir burðast oft lengi með slíkan farangur á bakinu,“ segir Kristján Hrannar Jónsson, eini karlkyns ráðgjafi Aflsins.

„Karlmenn eru oft svolítið lengi að koma sér af stað í að ræða þau mál sem þeir hafa lent í á lífsleiðinni, ekki síst ef um ræðir ofbeldi. Þeir burðast oft lengi með slíkan farangur á bakinu,“ segir Kristján Hrannar Jónsson, eini karlkyns ráðgjafi Aflsins.

Eins og fram kom í forsíðufrétt blaðsins í dag telur Aflið á Akureyri mikla þörf á að koma upp Kvennaathvarfi á Akureyri. Kristján Hrannar Jónsson, sem er þessa dagana að hefja störf sem eini karlkyns starfandi ráðgjafi samtakanna, segir drauminn að Aflið komist á föst fjárlög enda sé brýn þörf fyrir þjónustu samtakanna. Í viðtali við Akureyri Vikublað ræðir hann m.a. hið dulda mein heimilisofbeldi og þá skaðlegu einföldun að tíminn lækni öll sár – án þess að fólk leiti sér hjálpar.

Kristján Hrannar er 52ja ára gamall Reykvíkingur. Hann hefur búið fyrir norðan í níu ár. Hann segist sjálfur hafa lent í ofbeldi sem barn. Hafi orðið vitni að heimilisofbeldi og hafi sjálfur verið beittur amdlegu ofbeldi. Um langt skeið hafi hann talið skást að bíta á jaxlinn og harka af sér. Svo hafi runnið upp fyrir honum að hann yrði að ræða fortíð sína við einhvern með svipaða reynslu. Það hafi skipt sköpum. Nú sé komið að því að hann hjálpi öðrum sem ráðgjafi hjá Aflinu.

Ertu eini karlkyns ráðgjafi Aflsins?

Já. Ekki sá fyrsti en sá eini núna.“

Sætir það sem sagt tíðindum að karlar starfi í þessari þjónustu – hver er skýring þess?

Já, það gerir það, karlmenn eru oft svolítið lengi að koma sér af stað í að ræða þau mál sem þeir hafa lent í á lífsleiðinni, ekki síst ef um ræðir ofbeldi. Þeir burðast oft lengi með slíkan farangur á bakinu“.

Munt þú sjálfur aðeins ræða við karla eða er enginn kynjamúr í þeim efnum hjá Aflinu?

Nei, nei, ég mun ræða við fólk af báðum kynjum og mér hefur sem dæmi sjálfum fundist auðveldara að ræða mín eigin mál við konur en karla.“

Varð sjálfur fyrir ofbeldi

En nú er það náttúrlega persónuleg spurning sem þér er engan veginn skylt að svara, en ertu sjálfur þolandi ofbeldis?

Já. Bæði varð ég vitni að heimilisofbeldi og svo ég líka fórnarlamb andlegs ofbeldis í æsku.“

Aflið er þá ekki bara í því að aðstoða þolendur kynferðislegs ofbeldis?

Nei, ekki lengur. Það var einu sinni þannig – fór þannig af stað til að byrja með – en nú er Aflið fyrir allt fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af ýmsum toga. Fyrir mig er mjög gefandi að geta aðstoðað og hlustað á fólk sem líður illa og er að burðast með ýmis mál úr fortíðinni. Tilgangurinn er að þeim sem ræðir við mig eða aðra ráðgjafa líði betur þegar hann fer frá okkur en þegar hann kom“.

Þú nefnir að karlar eigi erfiðara með að opna á eigin fortíð, hvers vegna heldurðu að það sé?

Það er bara einhvern veginn þannig í samfélaginu að mér finnst sem karlmenn reyni frekar að ganga eigin lífsgötu svona á hörkunni. Það er þessi: „hættu þessu væli og haltu bara áfram með þitt líf“, þessi skaðlega hugsun sem lítur undan því að ofbeldi frá liðinni tíð dúkkar alltaf upp. Afleiðingar þess fyrnast ekkert ef fólk reynir ekki að vinna í málunum. Vanlíðanin dúkkaði alltaf upp hjá mér. Ég gekk sjálfur lengi þá götu að reyna bara sem minnst að hugsa um fortíðina, setja hausinn undir mig og arka áfram en það bara gengur ekki til lengdar. Ef þú vinnur ekki úr svona málum burðastu alltaf með farangurinn, þess vegna er svo mikilvægt að við ræðum saman um þessa hluti.“

Mikilvægi skyndihjálpar

Er stundum nóg að ræða hlutina upphátt til að bati hljótist af?

Nei, sjaldnast, en það er frítt að koma í viðtöl til okkar og getur orðið til þess að viðkomandi líði betur eða haldi áfram sinni meðferð, stundum í samstarfi við lækni eða sálfræðing. Það sem Aflið hefur í dag og ég nýtti mér á sínum tíma er að upp geta komið aðstæður sem kalla á tafarlaust viðbragð. Ég var sjálfur staddur á þeim tímapunkti að ég hafði ekki tíma til að bíða eftir viðtali við sálfræðing í kannski sex vikur, en ég gat komið til Aflsins og talaði við manneskju sem skildi mig og það létti á mér. Ég þurfti að ræða við einhvern sem skildi mig, einhvern sem hefur verið í sömu aðstöðu.

Þyrftum að komast á fjárlög

Hvernig er fjármálum Aflsins háttað?

Það vantar töluvert upp á að við fáum þann styrk sem þyrfti, miðað við hvað þörfin fyrir þjónustuna er mikil vantar fjámagn inn, það er í gangi mikil barátta um fjármagn. Starfið er að hluta mikil sjálfboðavinna og mikið álag á þeim sem þarna starfa. Fjármagn kemur bæði frá ríki og bæ en þyrfti að vera meira. Starfsemin er nokkuð umfangsmikil, við förum sem dæmi í ýmsa skóla og höldum fyrirlestra um ofbeldi og ýmislegt annað og reynum að ná til krakka sem sjálfir eru þolendur ofbeldis. Það er verið að berjast fyrir því að rekstur Aflsins komist hreinlega inn á fjárlög og að reksturinn standi undir þeirri þjónustu sem við bjóðum upp á. En við erum líka þakklát fyrirtækjum og einstaklingum sem styrkja okkur um einhverja hundraðþúsund kalla, svo erum við að safna fé með ýmsum uppákomum svo sem með tónleikum.

Hve löng er saga Aflsins?

Það eru 12 ár síðan Aflið hóf starfsemi sína. Ég upplifi að fólk finni það vel í dag hvað stofnun samtakanna var mikilvæg fyrir samfélag eins og Akureyri og nærsveitir. Sem dæmi um umfangið má nefna að frá 1. maí 2013-2014 voru tekin 803 viðtöl og stefnir í 1.000 við töl á þessu ári, það er svakalega mikið og þá er allt hópastarfið ótalið og margt annað sem Aflið hefur þó ekki efni á að sinna í dag, samfélagið finnur vel hve Aflið er mikilvægt.

Hið falda mein

Er heimilisofbeldi algengara og duldara en opinber umræða segir til um?

Já, það er bara pínulítið brot af heimilisofbeldi sem kemst í fréttir og opinbera umræðu. Heimilisofbeldi er mjög falið, sem er skiljanlegt að sumu leyti þótt það sé ekki æskilegt. Það felst oft mikil ógn í heimilisofbeldi sem bitnar á öllu heimilislífinu og ekki síst börnunum. Stundum telja foreldrar að það sé tillitssemi gagnvart börnunum að ofbeldið fari leynt, en það er oft misskilin tillitssemi að grípa ekki til aðgerða. Ég þekki það sjálfur að sem barn vildi ég ekki segja frá ofbeldinu, sumir óttast viðbrögð kerfisins að barnavernd taki kannski börnin strax, börn geta verið meðvirk foreldrum af ótta við að foreldrarnir verði fyrir skaða. Börn hugsa ef til vill: Ég vil ekki eyðileggja fyrir pabba og mömmu og svo burðumst við með brotið veganesti út í lífið. Sumir lenda í óreglu, aðrir eru með skert sjálfsmat, hræddir og óöruggir, í þörf fyrir viðurkenningu. Svo þegar einhver virðist góður við svona börn sækja þau stundum í svoleiðis fólk sem gtur boðið hættunni um misnotkun heim. Börn geta vanist því að heimilisofbeldi sé hreinlega partur af lífinu en það getur aldrei orðið heilbrigður partur af lífinu – ekki í neinum tilvikum.“

Kristján Hrannar Jónsson segir það ekki bara framtíðarmúsík ef hægt yrði að opna Kvennaathvarf á Akureyri heldur væri æskilegt ef félagið fengið húsnæði með starfsmanni sem gæti tekið á móti fólki sem gengi inn af götunni. Í dag sé þjónustu Aflsins háttað þannig að fólk hafi samband í gegnum síma.

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur Jónsson.

Akureyri vikublað 23. október 2014