Ívilnanir fyrir EFTA?

Volundurj-8385Ívilnunarsamningar íslenskra stjórnvalda við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska Kísilfélagið, Thorsil og GMR Endurvinnsluna, fólu í sér ríkisaðstoð sem gengur gegn EES-samningnum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur því gefið íslenskum stjórnvöldum fyrirmæli um að endurheimta alla þá ríkisaðstoð sem veitt var á grundvelli umræddra samninga.

Í október 2010 samþykkti ESA styrkjakerfi til nýfjárfestinga sem íslensk stjórnvöld höfðu ákveðið til að efla atvinnuþróun á landsbyggðinni. Styrkjakerfið sem Ísland kom á fót byggðist á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Lögin heimiluðu ríkisstyrki til fyrirtækja einkum í formi skattaívilnana og á þeim grundvelli undirrituðu íslensk stjórnvöld ívilnunarsamninga við fyrirtækin fimm á tímabilinu 2010-2012. Lögin féllu úr gildi í árslok 2013.

Í apríl 2013 ákvað ESA að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð á grundvelli styrkjakerfisins, breytingum sem gerðar höfðu verið á því og ívilnunarsamningum sem undirritaðir höfðu verið. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvortríkisaðstoðin væri í samræmi við EES-samninginn.

Niðurstaða rannsóknar ESA er að fyrirtækin Becromal og Verne hafi verið búin að taka ákvarðanir um fjárfestingu á Íslandi og ráðist í framkvæmdir án fyrirheita um ríkisaðstoð. Til að ríkisaðstoð sé lögmæt þarf hún að hvetja til nýfjárfestingar sem hefði annars ekki orðið. Ríkisaðstoðin var því ekki í samræmi EES-samninginn og ber íslenskum stjórnvöldum að endurheimta hana ásamt vöxtum og vaxtavöxtum frá þeim tíma sem aðstoðin var veitt.

Oddvitar meirihlutaflokkanna á Akureyri segja ótímabært að segja hvað þetta þýði fyrir bærinn.

Það er of snemmt er að segja nokkuð til um þetta því ekki er ljóst hvort niðurstaða ESA hafi áhrif á fyrirtæki sem voru með ívilnunarsamning við íslensk stjórnvöld. Stjórnvöld eiga m.a. eftir að ákveða hvort þau fari með málið til EFTA dómstólsins,“ segja oddvitar meirihlutans á Akureyri í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins um hvaða áhrif gætu orðið af málinu hvað varðar Becromal.

Framkvæmdastjóri Becromal svaraði ekki skilaboðum frá blaðinu. -BÞ

Akureyri vikublað 16. okótber 2014