Að nota höfuðið gegn eigin sársauka

„Ég er ótrúlega heppin manneskja.“ Mynd: Völundur

„Ég er ótrúlega heppin manneskja.“ Mynd: Völundur

Jóhanna Bergsdóttir, sálfræðingur á Akureyri, hefur lifað tímana tvenna. Hún tvíhryggbrotnaði í bílslysi fyrir nokkrum árum, lenti í vandræðum með heilsuna þannig að sjálfsmynd hennar veiktist sem ýtti undir félagslega einangrun. Á ögurstundu fékk hún hvatningu hjá Kvennasmiðjunni, dreif sig í skóla, sagði skilið við 10 ára örorkubætur og starfar í dag sem sálfræðingur þar sem hún eflir þá skjólstæðinga sem sumir eru í sömu stöðu og hún þekkir vel sjálf af eigin reynslu. Bílslysið minnir þó alltaf á sig því ekki líður stund án þess að Jóhanna finni fyrir verkjum en kvalirnar tæklar hún með því að „nota hausinn“ frekar en verkjalyf. Jóhanna féllst á að segja Akureyri Vikublaði sigursögu sína.

Það er smáúrkoma, sunnan vaxandi hvassviðri og farið að skyggja þegar við Jóhanna mælum okkur mót síðdegis á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar. Hún segist svolítið stressuð fyrir viðtalið. Þiggur einfaldan espresso en hefur hispurslausa návist.

Hún er Eyfirðingur, ættuð framan úr firði. Flutti til Akureyrar, fór í VMA en hætti í skólanum eftir eitt kennaraverkfallið. Réði sig í vinnu á sláturhús með það í huga að safna fé fyrir ferð til Bandaríkjanna. Kynntist þá manni sem hún hefur gengið lífsgötuna með æ síðan. Ekkert varð úr ferðinni til Vesturheims.

„Þegar við maðurinn minn kynntumst var aðalmarkmiðið mitt að eignast börn og vera góð heimavinnandi mamma. Ég ætlaði að leggja áherslu á að börnin okkar tvö fengju ást, athygli og alúð, maðurinn minn var mikið á sjónum á þessum tíma,“ segir hún.

Keppti í „sterkustu konu landsins

Jóhanna er kraftalega vaxin og það sópar að henni. Hún segist alla tíð hafa verið „sterk sveitastelpa“ og var að fara að taka þátt í keppninni Sterkasta kona Íslands í mars árið 1997 þegar hún lenti sem bílstjóri í árekstri á Byggðaveginum í glerhálku. Hún fékk annan bíl inn í hliðina á sér. Börnin hennar tvö sluppu ómeidd í aftursætinu.

Ég fann ekki fyrir miklum meiðslum fyrst, varð þó eitthvað skrýtin öll. En svo bara gekk þetta yfir að ég hélt. Ég tók hálfum mánuði síðar þátt í keppninni um sterkustu konu Íslands en þá gat ég ekki lyft eins og ég var vön að gera, ég þrjóskaðist þó í gegnum keppnina.“

Ber læknum á SAK ekki góða söguna

Upp úr þessu fór Jóhanna að finna fyrir vaxandi verkjum í bakinu. Hún gekk milli lækna á Akureyri. Fór fyrst á heilsugæslustöðina þar sem hún fékk góða þjónustu en síðan til sérfræðinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Læknarnir þar fundu ekki neitt að henni, greindu hana aðallega sem móðursjúka.

Ég hef því miður ekki góða sögu að segja frá samskiptum mínum við lækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri á þessum tíma.“

Það var svo ekki fyrr en rúmu ári síðar, í apríl 1998 sem hún fór suður til frekari rannsókna. Hafði þá fengið tíma hjá Halldóri Jónssyni, „frábærum skurðlækni“ eins og hún orðar það. Hann þuklaði hrygginn á Jóhönnu og fann strax að krækjur sem eiga að halda hryggsúlunni saman voru brotnar.

Ég er hörkukerling og geri allt sem ég get gert sjálf, sama hvort það er að mála húsið eða hvað. En þarna var ég bara búin á því.“

Ákveðið var að gera aðgerð á Jóhönnu nokkru síðar. Hún lýsir því sem „ömurlegustu reynslu lífs hennar“ að koma fljúgandi á sjúkrabörum norður að lokinni aðgerð. „Ég er svolítið mikið gefin fyrir að stjórna hlutum og mér fannst hroðalegt að vera svona ósjálfbjarga.“

Síðar fór að blæða úr skurðinum. Jóhanna segist aftur hafa snúið sér til lækna á SAK en án mikils árangurs. Skurðlæknirinn hennar í Reykjavík hafi svo kallað hana aftur í rannsókn og hún fór í aðra aðgerð þar sem járn voru fjarlægð og reynt að laga örið á bakinu. „Mér var alltaf skítkalt út af þessu járnavirki sem ég var með í bakinu.

Öll kerfi líkamans voru orðin „svakaleg veik“ á þessum tíma að sögn Jóhönnu.

Ég var komin með drep í bakið sem bjó til holu ofaní beinagrindina. Að lokinni aðgerð var ég rúmföst með slöngur uppi og niðri. Það hafði orðið til ljótur skurður á bakinu á mér, hann varð eiginlega kveikjan að því að hægt en ákveðið fór ég að draga mig í hlé, einangra mig. Mér fannst erfitt að mæta í veislur, bara það eitt að vita af skurðinum, þótt hann væri ekki sýnilegur öðrum, varð hreinlega til þess að sjálfstraust mitt hrundi, fyrir utan þá kvöl sem verkirnir ollu mér. Ég sem hafði alltaf verið svo kát og félagslynd setti upp grímu og einangraði mig.“

Leið illa á örorkubótum

Krafturinn sem einkennt hafði Jóhönnu var horfinn. „Þarna var ég stödd, ónýt í bakinu, ekki með neina menntun og upp á náð Tryggingastofnunar ríkisins komin.“

Hún segir að þegar hún hafi farið á örorkubætur hafi sér liðið illa. „Sjálfsmyndin var brotin, mér fannst ég aumingi.“ Þannig leið nokkur tími.

Svo má segja að það hafi kviknað vísir að nýju lífi þegar ég fór árið 2000 í Kvennasmiðjuna sem þá var og hét hérna á Akureyri. Það var samt ekki þannig að ég félli strax fyrir starfinu. Fyrst þegar ég hitti Önnu Richards, listakonu í Kvennasmiðjunni, fékk ég útfjólubláar bólur, hárin á mér risu þegar hún ruggaði bátnum mínum allt of mikið með því sem hún sagði og gerði. En eftir á að hyggja hjálpaði Anna mér svo mikið að horfast í augu við sjálfa mig og koma mér upp úr því fari sem ég var komin ofan í. Í dag finnst mér hún dásamlegasta manneskja sem ég hef kynnst en ég hef sennilega aldrei sagt henni almennilega frá því.“

Horfðist í augu við sjálfa mig

Á þessum tíma segist Jóhanna hafa verið full mótþróa, „með bullandi attítjúdvanda“ en hægt og sígandi hafi hlutir farið að breytast til hins betra. „Ég fór að horfast í augu við sjálfa mig og fór að hugsa hvað mig langaði til að gera annað en að vera bara kvalin móðir barnanna minna. Það gaf mér líka nýtt sjálfstraust að í náminu í Kvennasmiðjunni lærði ég á tölvur og líka dálitla ensku og fleira. Kannski var ég ekki eins heimsk og ég hélt!“

Á öldufaldi nýrrar vonar skráði Jóhanna sig aftur til leiks í VMA. Hún byrjaði rólega en komst sér til gleði að því að námsgreinar sem ekki höfðu gengið vel þegar hún var ung stúlka, s.s. stærðfræðin, léku nú í höndunum á henni „Og þá kviknaði þessi hugmynd, að ég gæti nýtt mér námið til að hjálpa sjálfri mér og kannski öðrum síðar.“ Jóhanna vill koma á framfæri að Þorleifur Stefánsson sjúkraþjálfari í Eflingu hafi einnig reynst henni frábær þótt hún hafi ekki reynst honum auðveld í samskiptum þegar verst lét. „Ég hótaði honum barsmíðum um tíma!“ Þá hafi heimilislæknirinn hennar, Kristinn Eyjólfs, líka verið henni mikil stoð og stytta. Sjálfstraustið steig smám saman, þótt hún væri þá og sé enn síkvalin vegna bakverkjanna. Hún ákvað að taka næsta skref í að sparka sér upp úr „þægindarammanum“ ef hægt er að komast þannig að orði um síkvalinn einstakling sem metinn var með 75 % örorku á þessum tíma, sem telst full örorka. Hún ætlaði að sækja um kennaranám við Háskólann á Akureyri en breytti á síðustu stundu yfir í sálfræði.

Jóhanna Bergsdóttir, sálfræðingur á Akureyri telur að fleiri séu greindir með örorku í dag en þyrfti að vera. Hún segir að sumir  átti sig ekki á eigin mætti og fái ekki þann stuðning sem þarf til að þeir finni hann. Líf öryrkja geti snúist upp í flótta og þar talar sálfræðingurinn af reynslu en Jóhanna lenti í slæmu bílslysi sem breytti lífi hennar. Mynd: Völundur.

Jóhanna Bergsdóttir, sálfræðingur á Akureyri telur að fleiri séu greindir með örorku í dag en þyrfti að vera. Hún segir að sumir átti sig ekki á eigin mætti og fái ekki þann stuðning sem þarf til að þeir finni hann. Líf öryrkja geti snúist upp í flótta og þar talar sálfræðingurinn af reynslu en Jóhanna lenti í slæmu bílslysi sem breytti lífi hennar. Mynd: Völundur.

Þá kviknaði Jóa eins og hún er í dag

Ég var í fyrsta nemendahópnum þegar sálfræði var kennd hérna fyrir norðan árið 2003 og í þessu námi kviknaði Jóa eins og hún er í dag.“

Eftir að BA-gráðu til sálfræði var lokið heyrði Jóhanna í vinkonu sinni sem hafði sótt um framhaldsnám í sálfræði við Háskólann í Árósum. Hún féll fyrir hugmyndinni, kom sér mikið á óvart með því að ákveða sjálf að slá til. En það var ekki einfalt að hennar sögn. Konan sem fyrst og fremst hafði litið á sig sem mömmu varð að skilja eftir börnin sín tvö í örmum föðurins og eiginmanns Jóhönnu, Trausta Tryggvasonar.

Mér fannst fáránlegt að vera orðin 38 ára gömul og ætla að ana út í óvissuna sem nemandi, skilja börnin eftir þótt þau væru orðin stálpuð og það allt. En maðurinn minn er ótrúlegur. Ég fæ eiginlega tár í augun þegar ég hugsa um hve vel hann hefur reynst mér og börnunum, hann á svo mikinn þátt í sigrunum í lífi mínu.“

Hún segir að það að fara út til Danmerkur og setjast á skólabekk þar hafi verið það besta sem hún hafi gert um dagana. „Það var orðið tímabært að ég lærði að hugsa um sjálfa mig, að ég hætti að nota börnin mín sem skjöld.“

BA-verkefni Jóhönnu í sálfræðinni snerist um unglinga og sjálfsmynd þeirra. Hún segist sjálf hafa verið erfiður unglingur, skilnaðarbarn sem leitaði ýmissa leiða fyrir útrás. Í MS-náminu snerist lokaverkefni hennar um ákveðna kenningu um ofbeldi sem kennd er við Lonnie Athens. Eitt fyrsta verk hennar var að senda kenningasmiðnum tölvupóst og ræða aðeins við hann. Þar hefur vísast hjálpað henni eyfirski bakgrunnurinn, þar sem allir þekkja alla og allir tala við alla og hún hlær að endurminningunni.

Lifði á hafragraut úti

Það má kannski segja að árið þarna úti í Árósum hafi verið eldurinn sem hamraði járnið í mér endanlega til. Ég var nýkomin út þegar hrunið dundi yfir. Gengi íslensku krónunnar hríðféll og námið mitt úti reyndist næstum helmingi dýrara en séð varð fyrir í upphafi. Þetta þýddi að ég lifði á hafragraut, borðaði hafragraut 42 daga af 43 í röð og lifði þess á milli á sama matnum marga daga í röð, ekki síst gúllassúpu. Systir mín sem var líka úti á þessum tíma sagði. „Jóa, þú ert svo nísk að það ískrar í þér. En þetta var nú það sem maður þurfti að gera.“

Jóhanna fékk síðar heimild frá leiðbeinanda og skóla til að skrifa MS-ritgerðina sína heima á Akureyri. 23. júlí árið 2011, prentaði hún út lokaritgerðina, á afmælisdaginn sinn. Fyrir útskrift fékk hún svo vinnu sem sálfræðingur hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Þar er hún enn.

Ótrúlega heppin manneskja

Hvernig myndi hún sjálf færa lærdóminn af eigin sögu í orð?

Sko, það er svo margt sem kemur upp í hugann. Eitt er að ég hefði óskað að þau úrræði sem eru núna í boði fyrir fólk í vanda hefðu verið í boði þegar ég var komin út í horn og búin að missa allan kraft. Svo er annar lærdómur að það er hægt að nota hausinn til að koma sér út úr sársauka. Ég tek ekki verkjalyf nema í undantekningartilfellum, ég nota hausinn við verkjunum, það lærði ég í skólanum. Ég er líka svo heppin að vera með upphækkanlegt borð í vinnunni, ég er svo ótrúlega heppin manneskja, það er ég alltaf að segja við sjálfa mig. Ég get ekki labbað nema stutta vegalengd í einu en ég get hjólað. Ég kem úr sveit eins og fyrr segir og hef alltaf vanist því að gera það sem þarf að gera – fyrir utan þetta tímabil þar sem ég var búin að einangra mig félagslega og já var í bullandi sjálfsvorkunn, held ég.“

Þú hættir á örorkubótum eftir að hafa verið metinn sem öryrki meira en áratug. Hvað er um það að segja?

Ég neyðist til að velta því fyrir mér að á þessum tíma hafði ég aldrei fengið varanlega örorku heldur bætur fyrst í fjögur ár og svo árlega upp frá því. Ég spyr mig stundum hvort ég hefði verið eins dugleg að klára mína áfanga ef það hefði verið búið að meta mig 75% öryrkja til æviloka.“

Kallar kerfið – ekki einstaklingana til ábyrgðar

En nú siturðu hér í viðtali við fjölmiðil og segir þína sögu, hvernig þér tókst með markvissu átaki, hjálp frá öðrum og mætti eigin hugar að hætta á örorkubótum og skapa þér ný tækifæri. Er hugsanlegt að saga þín ali á fordómum hjá þeim sem hugsa að það séu nú of margir öryrkjar á landinu sem fái bætur úr almannasjóði, að fleiri gætu gert meira til að bjarga sér sjálfir – eins og þú ert e.t.v. dæmi um?

Það er hugsanlegt og ég hef sagt að fyrst ég gat það geti flestir gert það. En mér finnst mjög mikilvægt að benda á að vitundarvakning getur ekki orðið hjá fólki nema það fái sterka félagslega og oft líkamlega aðstoð. Þar velti ég ábyrgðinni að miklu leyti yfir á kerfið.“

Fleiri fastir í örorku en þyrfti að vera

En þú ert að segja að fleiri séu greindir með örorku í dag en þyrfti að vera?

Já, en það er vegna þess að sumir bara átta sig ekki á eigin mætti og fá ekki þann stuðning sem þarf til að þeir finni hann. Líf öryrkja getur snúist upp í flótta. Af hverju svo dæmi sé tekið vill kerfið ekki koma af stað virku hvatakerfi til að fólk geti unnið án þess að því sé refsað tekjulega? Það vantar miklu meiri sveigjanleika. Það að vera þótt ekki sé nema í 50% starfi getur félagslega skipt sköpum fyrir öryrkja. En það er líka gott að minna á að fjöldi öryrkja er lægri hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndunum.

Stefnir hátt í pílukasti

Jóhanna á sér áhugamál sem hún lifir fyrir. Hún er nýkomin úr ferð til Rúmeníu þar sem hún náði mjög góðum árangri í pílukasti. „Það var í raun tilviljun að ég kynntist pílukastinu í ferð með vinnunni og það gekk vonum framar á Evrópumóti sem ég sótti nýlega í Rúmeníu. Núna er ég að æfa eins og vindurinn með þá von í huga að ná þannig áfrangri á röðunarmóti að ég verði valin til að keppa á heimsmeistaramóti árið 2015. Það sem heillar mig er að þú þarft að nota hausinn í pílunni. Hausinn skiptir öllu.Máttur hugans er ótrúlegur, ég kem alltaf aftur og aftur að því. Svo er líka mikilvægt að benda á að við höfum alltaf val. Það er alveg sama hverjar aðstæðurnar eru, við höfum alltaf eitthvert val en áttum okkur oft ekki á því.

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur Jónsson

Viðtalið birtist í  Akureyri vikublað 9. október 2014