Erfiðleikarnir hafa þjappað okkur saman

Hilda Jana forsidaÞorvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri N4 á Akureyri, lést á heimili sínu að kvöldi laugardagsins 28. júní eftir baráttu við krabbamein. Í kjölfar fráfalls hans hófst söluferli á N4. Í síðustu viku var upplýst að fjárfestingasjóðurinn Tækifæri hefði keypt öll hlutabréf félagsins af ekkju Þorvaldar.

Hilda Jana Gísladóttir, hefur að öðrum ólöstuðum, verið holdgervingur N4 og þekktasta andlit sjónvarpsstöðvarinnar. Akureyri Vikublað tók Hildu Jönu tali á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar, spurði hana um óvissuna undanfarna mánuði, nýju eigendurna og framtíð N4, auk þess sem nokkur persónuleg mál bar á góma.

Nú hófst N4 sem samstarfsverkefni nokkurra einstaklinga og fyrirtækja en varð svo einkaeign Þorvaldar Jónssonar heitins að loknu hruni. Það hefur væntanlega verið mikil óvissa hjá ykkur starfsmönnum um framtíðina – eftir að eigandinn féll frá?

„Þegar eigandinn er bara einn og er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins og í raun höfuðið á þessu öllu saman þá skapast eðlilega algjör óvissa um framhaldið. Þorri var búinn að vera veikur í eitt og hálft ár þegar hann lést og hann hafði ekki heilsu til að mæta í vinnuna síðustu mánuðina. Auðvitað vonuðum við að hann myndi ná sér, að veikindin yrðu tímabundið ástand, að við myndum sinna fyrirtækinu hans af ástríðu í fjarveru hans meðan hann tæklaði sjúkdóminn, því það ætlaði hann svo sannarlega að gera. Hann ætlaði sér að sigrast á þessum veikindum, hans tími var ekki kominn, enda ungur maður. Þannig að allir reyndu að halda sér í gírnum þangað til hann dó. Það var gríðarlegt áfall fyrir alla. Ekki bara starfslegt áfall heldur líka eins og fyrir mig mjög mikið persónulegt áfall. Þorri var vinur minn sem mér þótti ótrúlega vænt um. Við unnum náið saman. Ég tók þátt í að byggja fyrirtækið upp með honum síðustu fimm árin. Annars vegar var sorgin að missa vin sinn en hins vegar skapaðist þetta stóra spurningamerki; hvað nú? Fjölskyldan hans erfði fyrirtækið og fljótlega var tekin ákvörðun um að reyna að halda áfram, sigla sjóinn. Það var eiginlega ekki annað í stöðunni en að allir legðust á árar til að gera sitt besta en auðvitað höfðum við ekki öll spilin á okkar hendi lengur. Við urðum háð vilja nýrra fjárfesta sem við vissum ekki hverjir yrðu.“

Stolt af okkar hópi

Náði hópurinn að þjappa sér vel saman í kjölfar áfallsins eins og stundum gerist?

Ég er ótrúlega stolt af okkur sem samstarfshópi, hvernig við þjöppuðum okkur saman í kringum þessa erfiðleika. Auðvitað var ótti. Ótti um hvað yrði um okkur og fyrirtækið. Ég vissi að Þorri hafði eftir að hann veiktist byrjað að huga að sölu fyrirtækisins. Hann hafði reynt að búa svo um hnútana að eignarhaldið yrði í höndum heimamanna hér fyrir norðan. Hann hafði sjálfur rætt við Tækifæri fyrir andlátið, þannig að það er gleðilegt að þetta sé að ganga líkt og hann vildi. Svo hafði líka margt fólk samband við okkur, hvatti okkur og studdi, þannig að þrátt fyrir alla sorgina og óttann í loftinu fundum við líka fyrir stolti sem knúði okkur áfram. Við höfðum byggt upp verðmæti sem skiptu samfélagið máli, það kom í ljós.

Engu kollvarpað núna

Nú hefur verið gagnrýnt að lífeyrisjóður, KEA og sveitarfélög séu heppilegur eigandi  að fjölmiðli. Hver er þín skoðun á því?

Ég er reyndar enginn sérfræðingur um eignarhald fjölmiðla. En allir fjölmiðlar og fyrirtæki eru í eigu einhvers. Ég hef aðallega áhuga á að halda áfram að leggja ástríðu í þetta fyrirtæki. Ég er búin að lifa fyrir þessa stöð, allt frá því að Aksjón var og hét. Það eru 14 ár síðan ég kom fyrst nálægt stöðinni hérna fyrir norðan,  ég hef ástríðu fyrir landsbyggðarsjónvarpi og mér finnst aðalmálið að eignarhaldið sé með þeim hætti að við getum haldið áfram með sömu hugmyndafræði og hefur verið. Á starfsmannafundi með nýjum eigendum kom fram að þeir hyggist ekki hafa afskipti af daglegum  rekstri heldur vilji fyrst og fremst tryggja frekari vaxtargrunn og séu ánægðir með starfsfólkið. Sjónarmið eigendanna eru að þetta sé gott fyrirtæki sem hafi sannað að það skipti máli fyrir samfélagið. Þeir segjast ekki hafa áhuga á að kollvarpa neinu heldur hafi þeir trú á starfsfólkinu og stefnunni og vilji viðhalda henni áfram.“

Þessi starfsmannafundur sem þú vísar til fór fram sl. föstudag. Áhöfnin var sem sagt ánægð að honum loknum?

Þetta var æðislegur fundur. Flestir upplifðu mikinn létti og aukna bjartsýni er ég viss um.“

Venjulegt fólk

Þú vísaðir til hugmyndafræði áðan. Hvaða hugmyndafræði einkennir N4?

Þetta er þrískipt fyrirtæki; sjónvarp, framleiðsla og sjónvarpdagskrá. Ég er dagskrárstjóri sjónvarpshlutans en vinn líka í framleiðsludeild. Nýju eigendurnir tala mest um sjónvarpið en þar er hugmyndafræðin sú að við tölum við venjulegt fólk um venjulega hluti, beinum kastjósinu að viðburðum en veitum ekki aðhald eins og fréttamenn gera heldur speglum samfélagið eins og við sjáum það. Svo höfum við áherslu á landsbyggðina og það teljum við mjög mikilvægt, að hafa fjölmiðil á landsvísu með ritstjórn og höfuðstöðvar á landsbyggðinni. Eins og félagi okar beggja, Birgir Guðmundsson hefur skrifað um, þá er miðja jarðarinnar undir iljum manns þar sem maður stendur hverju sinni. Ef ritstjórnin hjá okkur væri í Reykjavík yrði sjónarhornið annað á það sem er að gerast hér.“

Verður ráðinn nýr framkvæmdastjóri?

Já, það verður bráðlega ráðinn nýr framkvæmdastjóri, sú staða verður auglýst og svo þarf að fara fram áreiðanleikakönnun vegna kaupanna eins og lög gera ráð fyrir. Að óbreyttu mun eignin færast formlega yfir til Tækifæris 30. september nk. og þá mun ný stjórn ráða nýjan framkvæmdastjóra.“

Finnst þér rétt að valdastofnanir eins og Stapi lífeyrissjóður og KEA eigi fjölmiðil?

Í fyrsta lagi verður það fjárfestingarsjóðurinn Tækifæri sem á hlutinn í N4 og jafnvel fleiri síðar, t.d. starfsfólk. Síðar verður mynduð stjórn sem verður yfir fyrirtækinu og síðan framkvæmdarstjóri sem ber ábyrgð á daglegum rekstri. Stjórn, framkvæmdastjóri og starfsmenn munu síðan í sameiningu halda áfram að byggja upp N4 út frá forsendum fyrirtækisins. Mín skoðun er að fjárfestingasjóður í heimabyggð hafi fjárfest í nýsköpun til að styrkja svæðið. Ég tel að þetta sé jákvætt skref og hef trú á því að við getum haldið áfram að vaxa og dafna.

Glefsum hvorki í einn né neinn

En þessa dagana er mikið rætt að starfsmenn fjölmiðla glefsi sjaldnast í hendur þeirra sem borga þeim launin – það er eigendur fjölmiðlanna? Hvað með ímyndina?

Ég veit ekki til þess að N4 hafi hingað til verið að glefsa í einn né neinn og á nú ekki von á því að það breytist í nánustu framtíð.

Hagsmunir gætu þó verið viðskiptalegs eðlis, ekki satt? Nú á KEA Dagskrána sem er í samkeppni við N4 dagskrána – og svo gefur KEA út Vikudag sem er í samkeppni við ykkur um auglýsingar. Er ekki viðbúið að áhrifin af þessum breytingum verði fækkun miðla. Mun kannski vegna þessara kaupa styttast í að hér verði gefnar út tvær sjónvarpsdagskrár eða þá að fréttablað og auglýsingablað sameinist?

Þetta eru skiljanlegar bollalegginagr, en svarið við þeim hef ég ekki að öðru leyti en því að okkur hefur verið sagt að stórar breytingar standi ekki til. En nýjir eigendur og verðandi stjórn og framkvæmdastjóri geta e.t.v. svarað þessu betur.“

Hilda Jana Gísladóttir: „Grét úr sér augun þegar henni var sagt upp sem fréttamanni á Ríkisútvarpinu. Sá harmur átti þó eftir  að verða upphaf stærstu sigranna sem hún hefur unnið í fjölmiðlaheiminum norðlenska.

Hilda Jana Gísladóttir: „Grét úr sér augun þegar henni var sagt upp sem fréttamanni á Ríkisútvarpinu. Sá harmur átti þó eftir að verða upphaf stærstu sigranna sem hún hefur unnið í fjölmiðlaheiminum norðlenska.

Finnum mikla jákvæðni

Það hefur verið haft eftir einhverjum hjá ykkur að N4 sé svona feel good sjónvarp.

Já, við sinnum því mannlega og venjulega, sinnum því sem gerir lífið og samfélagið fallegt og skemmtilegt.“

Þið erum með um 17 föst stöðugildi núna. Maður finnur að fólk horfir á N4 fyrir sunnan – ekkert síður en hér. Hvað telurðu skýra það?

Ég tel og vona að það sé fyrst og fremst vegna þess að efnið sé gott og áhugavert. Við finnum fyrir gríðarlegri jákvæðni um allt land og ég er þakklát fyrir hana. Þessi jákvæðni skiptir miklu fyrir okkur sem erum að hasla okkur völl í þessum bransa.

N4 var áður fréttastöð, mælingar sýndu þá að Akureyringar vildu fréttir og fréttatengt efni umfram annað efni – nú leggið þið áherslu á hið mannlega, segirðu. Væri e.t.v. rými fyrir a.m.k. einn „harðan“ þátt í dagskránni ykkar? Finnst þér aldrei sem N4 sé að svíkja eitthvað sem mætti kalla skyldur fjölmiðla? Er e.t.v. meðvituð leið að forðast umdeilanleika í dagskrárgerð með því að taka ekki á tímafrekum álitamálum sem gætu kostað viðskipti? Rannsóknarblaðamennska getur skipt samfélög gríðarlegu máli en er sjaldnast verðlaunuð með glimrandi auglýsingaviðskiptum.

Algjörlega gjörsamlega þvert á móti tel ég að við séum að gera einmitt það sem vantar á íslenskan fjölmiðlamarkað. Það vantar meira af því sem minnir okkur á að lífið er fallegt og stórkostlegt ævintýri. Það vantar meira efni sem fær fólk til að hafa trú á lífinu og manneskjunni. Með því, í bland við aðhald fréttamiðla, tel ég að við getum þróast sem manneskjur og samfélag í heillavænlega átt“.

Hver á að stinga á kýlum samfélagsins? Almannaútvarpið? Ríkisútvarpið?

Ég vil nú að það komi skýrt fram að ég tel mig ekki alvitran sérfræðing um íslenskan fjölmiðlamarkað eða með hvaða hætti eignarhaldi fjölmiðla sé best háttað. En já ég held að Ríkisútvarpið hafi þar mikilvægu hlutverki að gegna. Fréttir eiga að einbeita sér að því sem miður fer – eins og lögreglan – en við erum einfaldlega ekki í þeirri deild.“

Allt í einu allir í lopapeysum!

Sumir segja að velgengni N4 megi að hluta rekja til þess að hér lagðist af svæðisútvarp, að nýr auglýsingamarkaður hafi opnast, íbúar hafi verið þyrstir í ljósvakadagskrárgerð eftir að Rúv skar niður þjónustuna úti á landi og það hafi orðið ykkar tækifæri. Tekurðu undir þetta?

Ég held að upphaflega, árið 2009, hafi það átt þátt í að skapa okkur svigrúm þegar svæðisútvarpinu var lokað en ég held að það skipti ekki minna máli að almenningur varð að loknu hruni reiðibúinn til að meðtaka annars konar efni en áður hafði verið áberandi. Allt í einu voru allir farnir að ganga um í lopapeysum. Fólk hafnaði hinu efnislega og sneri sér meira að grunngildunum í lífum okkar. Allir að borða slátur! Upp úr því varð til þessi hugmyndafræði okkar að halda okkur á jörðinni og fólk var tilbúið fyrir þá hugmyndafræði. Í framhaldinu skipti margt fleira máli og lykilatriðið er að höfuðstöðvar N4 eru hér. Útibúavæðingin er óheillaskref. Ég tel það óheppilegt að öll völd og peningar komi að sunnan. Aðalatriðið er síðan auðvitað að við höfum lagt áherslu á gæðin. Hvort heldur sem um ræðir dagskrárgerðina, myndvinnsluna og tæknimálin. En við fjöllum líka um mál sem eru ekki bara jákvæð, við bara gerum það með öðrum og rólegri hætti en gert er í fréttum. Ef við hefðum fókuserað á fréttir er spurning hve vel við hefðum getað gert það í samanburði við annað. Ég er óskaplega stolt af því að við getum sýnt heimafólki að þótt margt fari miður í samfélaginu er svo miklu fleira gott í gangi sem við verðum að vita um. Það er gott fyrir sálina að vita að hér er  fullt af stórkostlegum hlutum að gerast. Gleymum því ekki að fyrir skemmstu var Akureyri kallaður svefnbær. Nú er öldin önnur, kannski að einhverju leyti þökk fjölmiðlun.

Að þið hafið átt þátt í að vekja svefnbæinn Akureyri?

Ég vona það – með því að beina kastljósinu að öllu því ótrúlega marga sem er í gangi hérna. Ég myndi því segja að það hefði verið heillaspor að fókusera á þessa hlið, fjölmiðlar hafa einbeitt sér að því sem fer miður í samfélaginu en kannski er það bara einn tíundi af öllu því sem raunverulega gerist.

Snúra en ekki stjarna

Vendum þá aðeins talinu og ræðum þig persónulega, heimilisvininn Hildu Jönu. Verðurðu aldrei þreytt á að þurfa alltaf að „lúkka vel“ eins og það er kallað. Sjónvarpið er ágengur miðill og hlífir engum – verðurðu aldrei þreytt á því að hugsa um föt, förðun, hár og það allt sem fylgir starfi sjónvarpsmannsins?

Ég elska að vinna í sjónvarpi en dagskrárgerðin stendur ekki og fellur með því hvernig ég lít út. Ég lít frekar á mig sem snúru en stjörnu. Mitt hlutverk er að ná því mesta og besta fram hjá viðmælanda, hver sem hann er. Ef ég hitti einhvern og tek viðtal við hann, einhvern sem hefur ekki áður komið fram í sjónvarpi – og fólk hnippir í mig eftir sýningu og segir, rosa var þetta flott hjá honum, þá verð ég svo ánægð.  Ég legg áherslu á að sjónvarpið snúist um viðmælendur mína en ekki mig.

Ertu að segja að þú sért ekki mjög meðvituð um útlitið þegar þú kemur fram í sjónvarpinu fyrir hönd N4?

Sko, fyrst var maður eitthvað upptekinn af þessu en svo ákvað ég bara að það væri bara nóg að vera snyrtileg, ég nenni ekki að þykjast önnur en ég er. Það er búið að reyna að breyta mér og laga mig til en um leið og ég reyni að vera eitthvað annað en ég er þá hrynur allt. Á endanum skiptir mestu máli að ég sé ánægð með mig, burtséð frá því hvað einhverjir áhorfendur eru að pæla.“

Ætlaði að verða sálfræðingur

Ástríðan sem keyrir þig áfram. Hvernig varð hún til?

Ég ætlaði að verða sálfræðingur. Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á fólki, um tíma langaði mig að vinna með unglingum í vanda, ég vildi vita hvað fær fólk til að tikka. Hvað fær það til að langa til að fara fram af brúninni? Hvað kveikir neistann í augum fólks og hvers vegna deyr þessi neisti stundum?

Svo fór ég að læra til kennara, varð formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og þar kom upp þessi pæling innan veggja skólans að gera stúdentastarfið sýnilegra. Ég ákvað að fara til Gísla Gunnlaugssonar, þáverandi sjónvarpsstjóra Aksjón, með hugmynd sem endaði í þætti sem hét Háskólahornið. Það varð úr að ég sá um að gera þáttinn og hann var sýndur í bæjarsjónvarpinu og boltinn rúllaði af stað. Gísli átti eftir að verða mikill vinur minn og á þessum tíma vann ég með öðrum vini mínum, Baldvini Z kvikmyndagerðarmanni. Hann var þolinmóður og yndislegur eins og Gísli.“

En ferillinn samt ekki hreinn dans á rósum – eða hvað?

Það besta sem kom fyrir mig

Nei, ferillinn hefur verið upp og niður. Mér var sparkað af Aksjón. Mér var sparkað burt af Rúv. Ég var gjörsamlega niðurbrotin manneskja þegar ég missti fréttamannsstöðuna á Rúv, ég grét úr mér augun þegar mér var sagt upp, ég hljóp út úr starfstöðinni hérna við Kaupvangsstrætið, hljóp eftir göngugötunni í Hafnarstrætinu, hérna fyrir utan gluggann þar sem við sitjum núna í þessu viðtali, mér leið eins og ég væri kúkur í lauginni. Hljóp meðfram N4 og horfði upp í gluggana. Ég nefni þetta hér því ég hef oft hugsað um þetta móment síðan. Mér fannst heimurinn hafa hrunið eins og hann lagði sig, en eftir á að hyggja var þessi uppsögn hjá Rúv það besta sem gat komið fyrir mig. Þarna var að opnast stærsta tækifæri lífs míns, ég átti bara eftir að vinna í því, finna það betur og moða úr því. Stundum er lífið skrýtið, það ýtir manni með miklum sársauka út í eitthvað nýtt og erfitt sem breytist síðar í tæra hamingju og snilld.

Þú hlakkar til að fara í vinnuna á hverjum morgni í dag?

Ég hlakka alltaf til að fara í vinnuna. Við vinnufélagarnir erum saman í liði, eins og hver önnur fjölskylda. Það er gaman að vera saman. Við nennum ekki einhverjum leiðindum.“

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur

Akureyri vikublað 11. september 2014