Auglýst eftir geðlækni

FSAAuglýst hefur verið til umsóknar 100% staða yfirlæknis í geðlækningum við geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Staðan er laus frá 1. október 2014. Vinnan felst í daglegri stjórnun og faglegri stefnumótun á legudeild geðdeildar, í samvinnu við forstöðulækni. Þjónusta verður við sjúklinga legudeildar, þátttaka í bráðaþjónustu, ennfremur samvinna við aðrar deildir sjúkrahússins og stofnanir á Norður- og Austurlandi.  Stöðunni fylgja bakvaktir í geðlækningum, þátttaka í kennslu heilbrigðisstétta, þjálfun aðstoðar- og deildarlækna auk þátttöku í rannsóknarvinnu.

Við leitum að geðlækni með víðtæka menntun og reynslu í almennum geðlækningum ásamt reynslu við stjórnun,“ segir í auglýsingu en geðþjónusta á Norðurlandi – eða skortur á henni – hefur mjög verið til umræðu undanfarið og m.a. ratað ítrekað inn í umræður á Alþingi.

Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri er eina geðdeildin utan höfuðborgarsvæðisins. Þar eru sex stöður lækna. Deildin þjónar aðallega íbúum Norður- og Austurlands 18 ára og eldri. Deildin skiptist í legudeild og dag- og göngudeild með fjölbreyttum verkefnum. Samvinna er við aðrar sjúkrahússdeildir, heilsugæslustöðvar, félagsþjónustu sveitarfélaga,  geðsvið Landspítalans og stofnanir SÁÁ fyrir fíknisjúklinga.

 

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014