Ferliþjónusta Akureyrar notar nú tvo metanbíla

Helgi Friðjónsson bílstjóri við bílana tvo

Helgi Friðjónsson bílstjóri við bílana tvo

Strætisvagnar Akureyrar hafa fengið nýjan bíl sem framleiddur er fyrir brennslu  á metangasi. Fyrir átti fyrirtækið tveggja ára gamlan bíl sem einnig er gerður fyrir metangas. Segja má að fyrirtækið sé tilbúið á hliðarlínunni enda bíða menn en eftir því að Metangasstöðin sem Norðurorka og Olís standa að opni en af óviðráðanlegum ástæðum hefur það dregist. Til stóð að stöðin myndi opna í júní síðastliðnum en vegna gjaldþrots framleiðanda hreinsistöðvarinnar hafa orðið tafir. Baldur Dýrfjörð hjá Norðurorku segir verkið ganga vel en menn vilji ekki gefa út dagsetningu um hvenær stöðin verði opnuð.

Bílarnir tveir sem um ræðir eru báðir bensínknúnir af gerðinni Mercedes Benz. Þann eldri fékk fyrirtækið 2012 en sá nýrri kom um miðjan júlí. Stefán Baldursson forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar segir ,,Staðan er einfaldlega sú að því metangasi sem fellur til af gömlu öskuhaugunum má ekki hleypa óbrenndu út í andrúmsloftið sökum mengunar. Því er mikill kostur að geta brennt því á bílunum,  því útblástur frá bíl sem brennir metangas er margfalt minni en á bensín- og dísilknúnum bílum.  Svo þarna leggjum við okkar lóð á vogaskálarnar við að draga úr mengun. Nú svo spörum við gjaldeyri á því að nota metangasið, sem og einnig eru lægri aðflutningsgjöld af nýjum bílum sem brenna metangas“ segir Stefán.

Bílarnir tveir sem um ræðir eru báðir nýttir ferilþjónustu. Annar bíllinn, sá eldri er útbúinn fyrir allt að þrjá hjólastóla og þrjá farþega. Nýi bílinn er útbúinn fyrir 12 farþega og sérlega heppilegur til fólksflutninga á eldra fólki og þeim sem eiga erfitt með gang. Bíllinn sé vel útbúinn og aðgengi í hann með miklum ágætum.

Helgi Friðjónsson bílstjóri sagði aðspurður hvort hann finni  einhvern mun á að keyra bílinn á metangasi eða bensín eða hvort farþegar yrðu varir við breytingu, að svo sé ekki. ,,Þó má segja að fyrst um sinn geti menn fundið það á lyktinni þegar bíllinn brennir metangas. Lyktin er ögn súr en kosturinn við útblásturinn er að hann er skaðlaus.  En hvað viðbragð og annað í akstri þá finnur ökumaðurinn engan mun. Og það er hægt að svissa á milli bensíns og metangass í miðjum akstri með því að þrýsta á einn hnapp í mælaborði bílsins“ Helgi Friðjónsson bílstjóri.

Akureyri vikublað 7. ágúst 2014