Fjöll í Eyjafirði

Baldur Bergsveinsson 10. bekk skrifar

Baldur Bergsveinsson 10. bekk skrifar

Baldur Bergsveinsson skrifar:

Eyjafjörður er fagur, lokkar fjöllin til sín.“ Svo segir í ljóði eftir Stefán Vilhjálmsson. Það er mikið til í þessu þar sem Eyjafjörður er umkringdur stórum fallegum fjöllum. Kaldbakur sést í norðri, Hlíðarfjall í vestri og Vaðlaheiðin í austri. Og ef farið er suður í Eyjafjarðardalinn fjölgar bara fjöllunum.

Við skulum ímynda okkur að við séum fjallgöngumenn á leið í gönguferð. Við byrjum við Kristnesspítala og göngum upp í Kristnesskóginn. Við göngum einfaldlega eftir stígnum en pössum að ganga alltaf upp í móti. Á endanum komum við að girðingu. Þetta er fjallsgirðingin. Við förum yfir hana og höldum göngunni áfram. Fyrst göngum við í mýrlendi og svo í móa, brattinn er mismikill en þó alltaf einhver. Eftir að hafa gengið í þónokkurn tíma komum við að brattri brekku. Við klífum brekkuna uns við komumst alla leið upp. Við erum komin í mun grýttara land, minna af grasi og meira af steinum en auk litlu steinanna eru aðrir risastórir. Við göngum áfram en komum þá að „risa. Þessi steinn er stærri en allir hinir. Við sjáum að nokkrum steinum hefur verið raðað við hlið steinsins og við nýtum okkur þetta til að klifra upp á steininn. Hann er mjög stór og lítið mál að vera upp á honum. Í suðvestur kanti steinsins finnum við dæld með smá vatni í og nokkrum skildingum á botninum. Þetta er Dældasteinn. Við klifrum niður af steininum og höldum áfram upp í móti. Eftir nokkra stund komum við í jafnvel enn grýttara land, stórir steinar hér og þar og mikið af sprungum og holum. Þetta væri góður staður fyrir feluleik. Við erum komin í Tófugrenin. Enn höldum við áfram upp á við. Steinarnir minnka en gróðurinn eykst lítið. Eftir að hafa gengið í einhverja stund komum við að miklum bratta, við látum vaða og komum brátt upp. Við lítum í kringum okkur og það lítur út fyrir að við séum á einhvers konar hól. Aðeins nokkra metra til suðurs er einskonar dalur og svo annar hóll, annar dalur og svo enn einn hóllinn. Svona heldur þetta áfram í einhvern tíma. Við höfum nú klifið Bungurnar. Við lítum upp og sjáum tvö fjöll gnæfa yfir okkur. Það er ekki langt í toppinn. En að klífa síðustu metrana virðist brjálæði. Þetta er meiri bratti en við höfum komið að nokkurs staðar áður í göngunni og auk þess allt sandur. Við ákveðum að ganga milli fjallstindanna þar sem er ekki alveg jafn bratt. Þótt leiðin sem við völdum hafi ekki verið jafn brött og hinar tvær neyðumst við samt til að skríða á fjórum fótum. Eftir töluvert erfiði komumst við loks alla leið upp. Norðan við okkur er tindur aðeins hærra en við erum og annar sunnan við okkur. Þetta eru Súlurnar sem við höfum klifið.

Að ganga á fjöll er skemmtilegt áhugamál auk þess að vera hollt fyrir bæði líkama og sál. Ekki þarf að fara langt til að finna fín fjöll að klífa. Hér í Eyjafirði eru mörg góð, til dæmis Súlurnar tvær sem við klifum hér áðan, Litli- og Stóri-Krummi þar fyrir sunnan og svo Bóndinn. Svo ef maður vill fá aðeins meira krefjandi verkefni er hægt að klífa Kerlinguna sem er sögð hæsta fjall á Norður landi.

Akureyri vikublað 26. júní 2014