Barnaverndarnefndarmenn andvaka vegna erfiðra ákvarðana

Björn Þorláksson

Björn Þorláksson

Fréttaskýring Björn Þorláksson skrifar:

Oddvitar stjórnmálaaflanna sem sitja í bæjarstjórn á Akureyrar telja rétt að bíða úrskurðar Hæstaréttar og vilja lítið tjá sig um umtalað barnaverndarmál sem Akureyri Vikublað og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um síðustu vikur. Baldur Dýrfjörð hefur verið formaður barnaverndar í Eyjafirði í 14 ár. Hann segir Áskel Örn Kárason forstöðumann barnaverndar í Eyjafirði njóta trausts. Bæjarfulltrúar taka undir það. 

Rætt hefur verið hvort bærinn geti látið skipa sérstakan starfshóp til að fara í saumana á málinu þar sem tvö börn voru send í fóstur um árs skeið, gegn vilja hluta fagfólks í félags- og heilsugeiranum. Þetta telja bæjarfulltrúar ekki koma til greina.

Aðstandendur barnanna berjast fyrir því að bæði börnin verði vistuð hjá ættingjum. Staðan er sú að níu ára gömul stúlka er fóstruð í norðlensku sveitarfélagi en bróðir hennar, 14 ára drengur, er á heimili hjá ættingja í Reykjavík. Er nú verið að meta hæfi ættingjans til fósturs.

Hörð gagnrýni úr ýmsum áttum

Í síðasta tölublaði Akureyrar Vikublaðs steig Sigrún Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Akureyri fram í aðsendri grein og lýsti furðu og sorg vegna málsins. Sigrún er sérfræðingur í þolendum ofbeldis og telur að kerfið hafi í málinu ekki virkað sem skyldi. Sigrún er sjálf nýskipaður maður í barnavernd á Akureyri.

Í málinu hefur verið staðhæft að fordómar og skilningsskortur á geðsjúkdómum kunni að skýra framvindu málsins að nokkru. Einnig er nefnt að barnaverndaryfirvöld virðist á flótta undan eigin ákvörðunum með því að fallið hefur verið frá þeirri kröfu að börnin séu fóstruð saman á þeim stað sem fyrst átti að vera. Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar, segist ekki hafa sett sig inn í málið enda ekki mögulegt fyrir utan að komandi aðila að setja sig inn í svo flókið mál, þar sem allar hliðar séu ekki opinberar. „Ég geri ráð fyrir því að til þess bærir aðilar fjalli um það,“ segir Logi.

Ekki viðeigandi

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra sem staðfesti vilja barnaverndarnefndar 9. maí sl. hefur verið kærður til Hæstaréttar. Logi segir það skilning sinn að Hæstiréttur skoði svona mál bæði formlega og efnislega. „Það er ekki viðeigandi að bæjarfulltrúi hafi afskipti af máli sem er í þeim farvegi.

Sömu skoðunar virðast aðrir oddvitar framboða í bæjarstjórn á Akureyri. Hvorki Guðmundur Baldvin Guðmundsson hjá Framsókn, Matthías Rögnvaldsson hjá L-listanum né Margrét Kristín Helgadóttir hjá Bjartri framtíð svöruðu spurningum baðsins um málið. Gunnar Gíslason hjá Sjálfstæðisflokknum segir: „Það er ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort skipa eigi nefnd til að fara ofan í einstakt barnaverndarmál nema hafa allar hliðar málsins uppi á borðinu. Svo er aldrei utan barnaverndarnefndar, þar sem um þessi mál ríkir sérstakur trúnaður. Eins og kerfið er uppbyggt nú verður ekki annað séð en tryggt sé að tekið sé tillit til allra þátta við afgreiðslu mála þar sem mál þurfa fyrir héraðsdóm áður niðurstaða fæst.“ Gunnar segir enga ástæðu til að efast um að Áskell Örn Kárason njóti trausts í starfi. Við skipan í barnaverndarnefnd hafi verið, eftir því sem hann viti best, verið horft til þess að þar komi inn fólk með þekkingu og reynslu, óháð flokkslínum.

Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG segir: „Málið sem fjallað hefur verið um er í vinnslu í dómskerfinu og bíður umfjöllunar í hæstarétti. Það er að mínu mati rétta leiðin fyrir mál af þessu tagi.“ Spurð hvort Sóley beri traust til forstöðumanns barnaverndar segir Sóley: „Ég hef engar forsendur til að meta traust Áskels í starfi. Öll gerum við einhverntíma mistök og enginn er hafinn yfir gagnrýni, það er alltaf mikilvægt að hafa í huga“.

Þaulsætin forysta

Baldur Dýrfjörð hefur verið formaður barnaverndarnefndar Eyjafjarðar í 14 ár. Nýr meirihluti fól honum að starfa áfram í sama hlutverki næstu fjögur árin og horfir því í að Baldur sitji 18 ár í sama embættinu. Áskell Örn, sá sem fjölskyldumeðmimir í barnaverndarmálinu sem Akureyri Vikublað hefur fjallað um gagnrýna harðlega, hefur gegnt sínu trúnaðarstarfi í átta ár en hann er sálfræðingur að mennt. Baldur Dýrfjörð segir  umdeilanlegt að sami maður sitji í sömu trúnaðarstöðunni svo lengi en vilji hafi staðið til þess hjá nýjum meirihluta að hann haldi starfi sínu áfram og því stefni í átján ára formennsku. Baldur segist bundinn lagalegri þagnarskyldu og geti því ekki rætt einstök mál. Spurður hvort Áskell Örn Kárason njóti trausts hans, segir Baldur: „Já, hann gerir það.“

Baldur segir að mörg málanna sem komi inn á borð nefndarinnar séu þung og stór. Eðlilega sýnist sitt hverjum um niðurstöður og ákvarðanir. Barnavendarnefnd verði að fjalla hlutlaust um mál, tryggja að öll sjónarmið komi fram, að andmælaréttur sé virtur og fleira þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir. „Oftar en ekki segjum við að það sé ekki komið nóg af gögnum og upplýsingum, að við villjum láta skoða mál betur áður en tillaga er samþykkt.

Fólk andvaka vegna ákvarðana

Spurður hvort fordómar geti haft áhrif á málsmeðferð og niðurstöður segir Baldur að þegar mál hafi verið mjög lengi í meðferð hjá starfsmönnum barnaverndar og fyrir nefndinni geti komið að því að spyrja verði hvort nefndin sé í hlutverki barnaverndar eða foreldraverndar. „Auðvitað eiga foreldrar í málum oft mjög bágt og það er sem dæmi gífurlega stórt skref að setja börn í fóstur, en ég get alveg sagt þér að við tökum marga og ítrekaða hringi áður en ákvörðun er tekin. Fólk í nefndinni hefur lýst því hvernig það liggur stundum andvaka yfir ákvörðunum. Þetta er aldrei létt verk en alltaf verðum við að huga að því að vernda rétt barna og beita jafnvel neyðarúrræðum ef allt annað hefur verið reynt. Áður en að slíkir ákvörðun kemur hefur farið fram mikil rökræða milli starfsmanna barnaverndar og nefndarinnar sjálfrar.

Nánar um hættu á fordómum og hættu á að persónuleg kergja starfsmanna geti haft neikvæð áhrif á niðurstöður segir Baldur að barnaverndarstarfsmenn eins og margir aðrir í félagmála- og heilbrigðisgeiranum þurfi iðulega að takast á við eigin fordóma og meðvirkni en ýmis úrræði séu í boði að fást við þá hættu. „Það er mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um þessa hættu en þú getur aldrei útilokað hana. Vonandi koma þá nógu margir að hverju máli til að tryggja að öll sjónarmið komist að. Barnaverndarnefnd getur þurft að spyrna við fótum ef svo ber undir og það hefur hún auðvita gert. Þá er mikilvægt að skipa barni talsmannn sem er hlutlaus og kemur sjónarmiðum barnsins í orð en tekur ekki afstöðu í málinu.“ Nefndin er ekkert alltaf sammála tillögum starfsmanna sem þýðir þó ekki að starfsfólkið hafi endilega rangt fyrir sér. „Ég vil leggja áherslu á að starfsmenn barnaverndar eru að vinna erfitt og óeigingjarnt starf þar sem unnið er með þá sem minnst mega sína.  Það er ekki alltaf auðvelt að skapa börnum þann aðbúnað og þau tækifæri sem við erum öll sammála um að þau eigi rétt á.“

Þá segir Baldur ágætt að hafa í huga hlutverk Barnavernarstofu í eftirliti með störfum barnaverndar, kæruleiðir þegar svo ber undir til Kærunefndar barnaverndarmála o.s.frv.  Það séu mikilvægir þættir í meðferð þessara viðkvæmu mála.

Barnaverndin og störf barnaverndarnefnda og starfsfólks barnaverndar eru ekki og mega ekki vera hafin yfir gagnrýni.  Það er hins vegar mjög mikilvægt að samhliða slíkri umfjöllun sé í það minnsta gerð tilraun til þess að varpa ljósi á þau ítarlegu lagaákvæði sem málsmeðferðin fer eftir og þau ítarlegu úrræði sem aðilum máls eru tryggð við málsmeðferðina. Að mál sé komið á einhvern ákveðinn stað er því ekki háð tilviljun eða geðþótta eða duttlungum þeirra sem um málið fjalla.  Öllum ætti að vera það ljóst sem kynna sér málsmeðferðina og málsmeðarreglur,“ segir Baldur Dýrfjörð.

Akureyri vikublað 26. júní 2014