AKUREYRARAKADEMÍAN OG HA Í SAMSTARF

Dagný Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar og Stefán B. Sigurðsson rektor við undirskrift.Háskólinn á Akureyri og AkureyrarAkademían skrifuðu í gær undir samstarfssamning til næstu þriggja ára. Markmið samningsins er að efla samstarf og nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem samningsaðilar búa yfir. Auk þess er tilgreint að samningsaðilar munu halda að minnsta kosti eina sameiginlega ráðstefnu í húsakynnum Háskólans á Akureyri á samningstímanum.AkureyrarAkademían er samfélag fólks á Norðurlandi sem lokið hefur háskólaprófi og/eða sinnir fræði- eða ritstörfum og er daglegt heiti Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi. Félagið var stofnað vorið 2006 og stendur reglulega fyrir fundum, fyrirlestrum, málþingum og uppákomum, þar sem félagar og gestir miðla af þekkingu sinni og sköpunargleði.

Bragi Guðmundsson, Dagný Rut Haraldsdóttir, Stefán B. Sigurðsson og Skapti Ingimarsson.Mikil ánægja er á milli beggja aðila með samninginn þar sem sérþekking fræðimanna mun nú nýtast víðar þar sem Háskólinn á Akureyri getur leitað til fræðimanna AkureyrarAkademíunnar hvort sem er fyrir stundakennslu eða einstök erindi.

Dagný Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyrarakademíunnar skrifaði undir samninginn ásamt Stefáni B. Sigurðssyni rektor HA en auk þeirra voru viðstaddir meðal annars þeir Skapti Ingimarsson, formaður AkureyrarAkademíunnar og Bragi Guðmundsson fyrir hönd hug- og félagsvísindasviðs HA.

Frétt af vef Háskólans á Akureyri.