Lísa og Lísa frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar á Valentínusardag 14. febrúar

Mynd: Auðunn Níelsson

Leikfélag Akureyrar frumsýnir verkið Lísa og Lísa eða  I ♥ Alice ♥ I eftir Amy Conroy í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar og leikstjórn Jóns Gunnars.

Þær Lísa og Lísa, leiknar af hinum ástsælu akureyrsku leikkonum Sunnu Borg og Sögu Geirdal Jónsdóttur, eru komnar á sjötugsaldurinn og hafa búið saman í þrjátíu ár – hálfvegis í felum. Fyrir atbeina ungs leikskálds hafa þær nú tekið ákvörðun um að koma út úr skápnum og segja sögu sína á leiksviði. Einlægt og meinfyndið leikrit. Nýtt írskt verðlaunaverk.Saga Geirdal Jónsdóttir var í upphaflega leikarahópnum sem ráðin var til LA fyrir 40 árum, Sunna Borg gekk til liðs við félagið nokkru síðar. Báðar hafa þær leikið tugi hlutverka Hjá LA, Þjóðleihúsi og Borgarleikhúsi.

Amy Conroy leikkona, leikstjóri og skáld er búsett í Dyflinni. Hún hlaut verðlaun Dublin Fringe-hátíðarinnar 2010 fyrir leikritið um Lísurnar tvær og var tilnefnd til írsku leiklistarverðlaunanna 2012, bæði sem höfundur og leikkona.

Jón Gunnar útskrifaðist með BA í leikstjórn frá Drama Centre London árið 2006. Hann hefur leikstýrt í atvinnuleikhúsum á Íslandi, Englandi og í Finnlandi. Hann hefur einnig unnið sem aðstoðarleikstjóri í The Royal Shakespeare Company og hjá Vesturporti. Jón Gunnar hefur haldið fjölda námskeiða, leikstýrt í menntaskólum og stjórnað Götuleikhúsinu í Reykjavík.

 

Leikmynd og búninga hannar Móeiður Helgadóttir. Þóroddur Ingvarsson lýsir sýninguna.