Gullna hliðið frumsýnt á morgun hjá Leikfélagi Akureyrar

Mynd: Auðunn Níelsson

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar á morgun, föstudaginn 17. janúar. Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrir verkinu en það er nú sett upp í fjórða sinn hjá LA. Sýningin er hátíðarsýning félagsins á 40 ára atvinnuafmæli þess. Verkið fjallar um uppgjör kerlingar við líf sitt og Jón mann sinn. Ferðalag hennar til hins gullna hliðs með sálartetur bónda síns í skjóðu er löngu orðið þekkt í íslenskum leikbókmenntum og leitast uppfærslan við að vera trú þessari reisu og varpa ljósi á hvaðan við komum. Hljómsveitin Eva með þær Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Jóhönnu Völu Höskuldsdóttur innanborðs semja nýja tónlist við verkið og taka þátt í uppfærslunni með lifandi tónlistarflutningi. Með hlutverk kerlingarinnar fer María Pálsdóttir sem eftir nokkuð hlé stígur aftur á fjalirnar hjá LA. Auk hennar leika Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson og fjórtan nemendur úr Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar í sýningunni.  Egill Ingibergsson hannar leikmynd og lýsingu, Helga Oddsdóttir hannar búninga, Ingibjörg Huld Haraldsdóttir er aðstoðarleikstjóri og Gígja Hólmgeirsdóttir aðstoðarkona er í starfsnámi hjá LA.

Viðtal við Egil Heiðar sem birtist í leikskrá:

Leikstjórinn Egill Heiðar fylgdist með þegar Ragnheiður leikhússtjóri garfaði í sögu leikfélagsins og gróf þaðan upp ljósmyndir frá fyrri tíð. Þessar myndir blasa nú við þegar gengið er upp teppalagðan stigann hér í gamla Samkomuhúsinu. Á einni þessara svarthvítu mynda sést kerling með skjóðu. Umkringd englabörnum og framandi pálmatrjám stendur hún hnarreist og stolt enda búin að klöngrast alla leið upp til Himnaríkis með síkvartandi karlinn í skjóðunni.

Þegar ég sá þessar ljósmyndir þá rifjaðist upp fyrir mér þessi gamla saga, leikritið og töfrarnir. Ævintýrin hafa alltaf verið sterk leið til þess að útskýra fyrir okkur grímulausan og harðan raunveruleikann,” segir Egill Heiðar þegar ég spyr hvers vegna hann ákvað að setja upp Gullna hliðið. „Í gegnum ævintýrið þorum við að horfa á okkur sjálf. Skilja hver við erum og hvaðan við komum. Við lifum á mjög grímulausum tímum. Vitum að þetta snýst um peninga og skuldir og við vitum af skömm okkar, af syndum okkar og syndum annarra. Það er biturð og gremja í gangi. Kjarni Gullna hliðsins fjallar um að reyna að fyrirgefa . Utan um þann kjarna byggir Davíð svo þetta ótrúlega ævintýri sem leiðir okkur frá einni veröld yfir í aðra. Sem höfðar til einhverrar vitundar sem býr í okkur öllum, þess barnslega og einlæga.

En hvers vegna að setja upp Gullna hliðið núna? „Alltaf þegar maður tekst á við klassíkina þá fjallar það um að tala til manneskjunnar í dag. Hvað er það í verkinu sem talar til hennar og hvernig getum við miðlað því,“ svarar Egill. „Fyrir mér er það þráðurinn í baráttu kerlingar fyrir að finna hjá sér kraft til að fyrirgefa. Ég held að sá manneskjulegi kraftur geti átt erindi við okkur í samtímanum. Kraftbirtingarhljómur fyrirgefningarinnar”. Viðtalið tók Gígja Hólmgeirsdóttir, starfsnámsnemi frá Sviðslistabraut Listaháskóla Íslands.