Lísa í Undralandi hjá Leikfélagi Akureyrar í haust

Leikfélag Akureyrar undirbýr nú uppsetningu á Lísu í Undralandi, en sýningin fer á fjalirnar í Samkomuhúsinu í október n.k. Hér er á ferðinni ný leikgerð Margrétar Örnólfsdóttur við tónlist eftir Gunnar Lárus Hjálmarsson – dr. Gunna.

Saga Lewis Carroll um ferðalag stúlkunnar Lísu til Undralands er sígilt bókmenntaverk og ein merkasta og ástsælasta barna- og unglingasaga veraldar. Hana prýða margar af skemmtilegustu persónum barnabókmenntanna, s.s. eins og Óði hattarinn, Hjartadrottningin, Hvíta kanínan og Kötturinn skælbrosandi.Margrét Örnólfsdóttir er löngu þjóðþekkt sem barnabókahöfundur en bækur hennar um Aþenu hafa slegið í gegn meðal íslenskra barna. Árið 2011 sendi hún frá sér bókina Með heiminn í vasanum og hlaut fyrir hana barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Einnig hefur Margrét skrifað leikrit, handrit fyrir kvikmyndir og sjónvarp, stjórnað þáttum í útvarpi og sjónvarpi, samið tónlist fyrir leikrit og kvikmyndir ásamt því að hafa verið meðlimur Sykurmolanna á árum áður. Fyrir bækur sínar hefur Margrét hlotið Fjöruverðlaunin og Vorvindaviðurkenningur IBBY á Íslandi.

Dr. Gunna þarf vart að kynna en eftir hann liggur m.a söngleikurinn Abbabbabb sem sýndur var við miklar vinsældir í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Gunni var meðlimur í hljómsveitinni Unun ásamt því að starfa sjálfstætt sem tónlistarmaður, þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi, blaðamaður og bloggari.