82 jólasveinar á Minjasafninu á Akureyri

Ljósmynd: Flotsokka – listaverk eftir Ingibjörgu H. ÁgústsdótturNý jólahefð – vertu með frá upphafi! Minjasafnið á Akureyri opnar jólasýningu laugardaginn 30. nóvember kl 13:00. Í aðalhlutverki eru 82 hrekkjóttir íslenskir jólasveinar, skógur gamalla jólatrjáa, jólaskraut, spennandi jólasveinaveröld og rannsóknarstofa jólasveina.

Allir þekkja jólasveinana 13 en hverjir eru hinir 69?  Í ár og næstu ár verða þeir myndgerðir. Flotsokka og Faldafeykir birtast nú í gerð Ingibjargar H. Ágústsdóttur, listakonu.

Kíktu inní smáveröld jólasveinanna sem Þórarinn Blöndal listamaður og leikmyndahönnuður hefur skapað. Settu þig  í spor þeirra og prófaðu hluti sem tengist þeim!  Hver þeirra var mesta vöðvabúntið og hrekkjóttastur? Voru það Þvengleysir og Stigaflækir eða einfaldlega Gluggagægir?

Bæjarbúar hafa plantað skógi jólatrjáa í sýninguna sem eru frá árunum 1920 til okkar tíma. Ekkert jólatré í dag er án jólaskrauts og leikur það stórt hlutverk í jólahaldinu. Forvitnilegt er að sjá hvaða skraut rataði á trén og gerði heimilið jólalegt.

Jólasýning Minjasafnsins á Akureyri verður sett upp árlega um ókomna framtíð með það fyrir augum að heimsókn í safnið verði framvegis fastur liður í undirbúningi jólanna. Jólasýningin er ein af afmælisgjöfum ríkisins til Akureyrarbæjar. Gjöfin var snjókorn sem nú er orðið að snjóbolta og verður án efa í framtíðinni aðlaðandi snjókarl fyrir börn á öllum aldri.

Sýningin verður aldrei eins frá ári til árs en alltaf kunnugleg!

Minjasafnið er opið daglega frá 30. nóvember – 6. janúar kl 13-17.

Lokað er á hátíðisdögunum.