Álfabækur á Amtsbókasafninu – Sýningaropnun föstudaginn 28. júní kl. 12:00

Amtsbókasafninu á Akureyri er heiður af því að verða fyrst til að setja upp sýningu á myndverkum GARASON – Guðlaugs Arasonar. Sýningin samanstendur af litlum bókaskápum fullum af örsmáum íslenskum sem erlendum bókum. Hver bókaskápur er heimur út af fyrir sig og þar búa bæði skáld og kynjaverur.

Verkin kallar Guðlaugur Álfabækur. Hér er um nýja tegund myndlistar að ræða sem aldrei fyrr hefur sést á Íslandi. Áhorfandinn þarf að staldra við og gefa sér góðan tíma meðan ímyndunaraflið fer á flug. Verkin á sýningunni eru unnin á undanförnum þremur árum.

Rithöfundurinn Guðlaugur Arason gaf út sína fyrstu skáldsögu (Vindur, vindur vinur minn) 25 ára gamall. Síðan hefur hefur hann skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og tvær bækur um Kaupmannahöfn. Verk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Hann er því þekktari sem rithöfundur en myndlistarmaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með skriftum. Meðal helstu bókmenntaverka hans má nefna Víkursamfélagið, Sóla, Sóla, Eldhúsmellur, Pelastikk og Gamla góða Kaupmannahöfn. Listamaðurinn er fæddur og uppalinn á Dalvík.